08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (2032)

8. mál, bændaskóli

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil geta þess út frá því, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði viðvíkjandi þeim tilraunum, sem nauðsynlegt væri að gera á bændaskólum, að í 2. gr. frv. felst fjárheimild til þess. Og til frekari sönnunar skal ég geta þess, að með það fyrir augum var frv. samþ. í Ed., enda kvaðst ég skilja það svo. Þetta mun einnig fela það í sér, að nauðsynlegt sé að hafa mann á Hvanneyri, sem er þess fullfær að standa fyrir þessu. (JS: Þetta útheimtir ekki ríkisrekstur). Ég hygg, að það sé mjög vafasamt, að hægt sé að fá mann, sem þorir að hætta fé sínu í blindni, upp á von og óvon, allt eftir því, sem tilraunirnar gefast.

Það gleður mig að heyra, að hv. 2. þm. Skagf. er mér að ýmsu leyti sammála í þessu máli. Það er aðeins í einstaka smáatriðum, sem okkur greinir á, sem án efa verður hægt að ná samkomulagi um síðar. Ég vil geta þess, að þegar hv. þm. vitnaði í ummæli Sigurðar Sigurðssonar og Halldórs Vilhjálmsonar, þá vitnaði hann ekki rétt í þau, en um það snérist þungamiðja ræðu hans.