11.04.1930
Neðri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

8. mál, bændaskóli

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég skal taka það fram, að ég tel óheppilegt að hefja umr. um þetta mál nú, þegar komið er fast að þeim tíma, sem vant er að slíta fundi eða fresta, og menn því orðnir óþolinmóðir. En úr því það er gert, get ég þó ekki komizt hjá því að gera grein fyrir afstöðu n. og till. hennar, en skal reyna að vera stuttorður.

Svo sem menn vita, er þetta frv. komið frá hv. Ed. fyrir örskömmum tíma, 3 dögum eða svo. Liggur því í augum uppi, að landbn. hefir ekki haft mikinn tíma til þess að íhuga málið. Því má bæta við, að það er ekki eingöngu, að n. hafi haft skamman tíma til þess að glöggva sig á málinu, heldur hefir hún og lítið frjálsræði til þess að gera þær breyt., sem hún hefði ef til vill talið æskilegar, þar sem málið kemur ekki til þessarar hv. deildar fyrr en nú undir þinglokin. Ef n. óskar, að málið gangi fram á þessu þingi, er hún bundin við að gera ekki aðrar breyt. en þær, sem búast má við, að hv. Ed. gangi að. Að öðrum kosti er málinu teflt í voða.

Aðalbreyt., sem hv. Ed. hefir gert á frv. síðan stj. lagði það fyrir Alþingi, eins og mþn. í landbúnaðarmálum gekk frá því, er sú, að við skólana er sett ný deild, svokölluð bændadeild, með eins vetrar námi. Tilgangurinn er sagður sá, að ná í fleiri nemendur en ella.

N. hefir ekki gert brtt. við þetta, enda býst ég við, að sumir nm. séu ánægðir með þessar breyt. hv. Ed. En ég er persónulega mjög óánægður með þær. Að ég hefi tekið þátt í nefndarstörfunum án þess að koma fram með stórvægilegar breyt. á frv., byggist á því, að ég er algerlega vonlaus um framgang frv., ef víðtækar breyt. yrðu gerðar á því hér í deild. Enda þótt hv. Ed. hafi spillt frv. mjög, þá hefir henni þó ekki tekizt að eyðileggja allar þær umbætur, sem í frv. mþn. fólust, t. d. um það, að auka verklegu kennsluna, og vegna þeirra umbóta get ég eftir atvikum sætt mig við, að frv. nái fram að ganga í þessari mynd, þótt því hafi verið spillt, og tel ég það af tvennu illu betra en að það dagi uppi. Verkleg kennsla er eitthvert þýðingarmesta atriðið í þessum málum og fyrir henni er sæmilega séð í frv.

Eins og sést á nál. á þskj. 477, þá hefir n. flutt þrjár brtt. við frv. Þessar brtt. eru ekki verulegar efnisbreyt., nema sú síðasta. Fyrsta brtt. er um það, að orða um 2. gr. frv., og í þeirri nýju grein eru þrjár breyt. frá því í upphaflegu greininni. Sú fyrsta þeirra er sett að vilja meiri hl. n. og er um það, að ekki sé fastákveðinn ríkisrekstur á skólabúunum, heldur „ef hentara þykir“, eins og brtt. orðar það. Ég skal taka það fram, að hvorki ég né hv. þm. A.-Sk. höfum samþ. þetta atriði, því við álitum ríkisrekstur á skólabúunum tvímælalaust heppilegastan, en þó höfum við ekki séð ástæðu til þess að kjúfa n. út af þessu. (Forseti: Vill hv. ræðumaður halda máli sínu áfram, þar sem nú eru ekki nema átta menn á fundi? Ég hafði búizt við, að menn yrðu staðfastari, svo að hægt væri að halda umr. áfram, en úr því fámenni er svo mikið, þá set ég hv. þm. það í sjálfsvald, hvort hann vill halda áfram, eða fresta máli sínu þar til síðar). Úr því málið var tekið fyrir nú, þá vil ég helzt halda áfram, af því ég á ekki nema fá atriði eftir. En hinu var ég frekar mótfallinn áðan, að þetta mál yrði tekið til umr., þar sem svo var orðið áliðið fundartíma.

Annað atriðið í breyt. n. á 2. gr. frv. er það, að ákveða, að færðir séu nákvæmir búreikningar við skólabúin. Þetta atriði er svo sjálfsagt, að um það þarf ekki orðum að eyða. Þriðja atriðið er nokkur efnisbreyt., um það, að aðskilja tilraunastarfsemina og búreksturinn sjálfan, og er því tekið svo til orða í brtt., að landsstj. „láti fara fram hagnýtar tilraunir á skólabúunum“, í stað þess, að skilja mátti ákvæði frv. á þá leið, að þessi skylda hvíldi á bústjórunum. Það þykir réttara að binda ekki búunum þann bagga. Ef búin eru rekin fyrir reikning skólastjóra, þá er þetta vitanlega sjálfsagt mál.

Þá kem ég að annari brtt. n., sem er við 6, gr. Er það í fyrsta lagi lagfæring á ákvæðunum um þær námsgreinar, sem kenna á í skólunum. Eru þær lagfæringar settar að ráði tveggja manna, Halldórs Vilhjálmssonar skólastjóra á Hvanneyri og Sigurðar búnaðarmálastjóra Sigurðssonar, sem báðir eru vel kunnugir þessum málum, og hygg ég það nægilega trygging fyrir réttmæti þessara breytinga. Annar liður þessarar brtt. kveður nánar á um það, hverjar skuli vera höfuðnámsgreinir í bændadeild, nefnilega jarðræktarfræði og húsdýrafræði. Áður mátti skilja gr. á þann veg, að það ætti að kenna alveg það sama í búfræði- og bændadeild, en það nær alls engri átt að ætla að grauta í því á einum vetri, sem í búfræðideild tekur tvo vetur. Slíkt yrði aldrei annað en kák, og þess vegna flytur n. þessar brtt.

Þá kem ég að þriðju brtt. n., er snertir verklega námið við bændaskólana. Hv. Ed. hefir breytt frv. í það horf, að ætla nemendum að vera allt sumarið við verklegt nám. Þó að n. fallist mjög eindregið á það að hafa verklega námið sem allra mest, þá telur hún þetta þó mjög varhugavert, því að margir eiga mjög óþægilegt með að vera að heiman um heyskapartímann, vegna fólkseklunnar í sveitunum, og sýnist n. því ekki ósennilegt, að slíkt ákvæði geti orðið til þess að draga úr aðsókn að skólunum. Þess vegna leggur n. til, að nemendum verði gefinn kostur á að velja á milli þess, hvort þeir vilji stunda verklega námið allt sumarið á milli námsvetranna eða tvö vor fram að slætti. N. álítur hið síðara nokkurn veginn eins heppilegt hvað nemendur snertir, því að jarðyrkjunámið yrði hvort sem er aðallega að vorinu. Hv. Ed. ætlast til, að nemendur vinni að heyskap og öðrum heimilisstörfum yfir sumarið. En þess ber hér að gæta, að flestir hafa sæmilegan aðgang til þess að venjast heyskap án þess að þurfa að læra hann á skólabúunum.

Það er nú ekki svo mjög langt liðið fram yfir þann fundartíma, sem venjulegur er, enda þótt margir hv. þm. séu horfnir af fundi. Ég kann þeim hv. þdm., sem enn eru á fundi, þakkir fyrir góða áheyrn og að þeir hafa ekki látið kaffið sitja í fyrirrúmi fyrir landbúnaðarmálunum, en það hafa sumir auðsjáanlega gert.