15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

8. mál, bændaskóli

Frsm. (Jón Jónsson):

Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og hefir tekið þar nokkrum breytingum. Fyrsta breyt. er við 2. gr. Í frv. eins og það fór frá okkur var gert ráð fyrir, að búin á bændaskólunum yrðu rekin á ríkissjóðs kostnað, en Nd. hefir þar bætt við orðunum: „ef henta þykir“. Meiri hl. n. vill ekki gera þessa smávægilegu breyt. að ágreiningsatriði.

Önnur breyt. er um nýja málsgr. í 2. gr., sem hljóðar svo:

„Þar skulu færðir búreikningar um allar greinir búrekstrarins“.

En n. hefir hér gert ráð fyrir, að færðir væru búreikningar, og taldi ekki ástæðu til að taka það fram.

Þá koma aðalbreytingarnar við 6. gr. Þar er bætt inn á eftir stærðfræði: (talnafræði, flatar- og rúmmálsfræði). Þetta hélt ég ekki, að þyrfti að taka sérstaklega fram, því allt er þetta ein námsgrein — stærðfræði. Hinsvegar má gjarnan taka þetta fram til skýringar. — Þá vill Nd., að í stað „hagsögu“ komi: búnaðarsögu. Við landbnm. þessarar d. ætluðumst til, að fyrst og fremst yrði kennd búnaðarsaga og síðan almenn hagsaga. En þetta er ekki svo mikilsvert atriði, að ástæða sé til að stofna til ágreinings um það.

Loks vill Nd. láta kenna land- og hallamælingar, og við höfum ekkert við það að athuga.

Í stað 3. og 4. málsgr. 6. gr., sem fjalla um kennslu í bændadeild, viti Nd. láta koma eina málsgr., og er hún orðuð nokkuð á annan veg en í frv. eins og það fór frá okkur. Við ákváðum það, sem kenna skyldi, en tókum þó fram, að skólastjóri gæti fækkað námsgreinunum, eftir því sem hann teldi fært. En Nd. hefir breytt þessu á þann veg að aðaláherzlan skyldi lögð á kennslu í jarðræktarfræði og húsdýrafræði. Það, sem við hugsuðum okkur, var mjög líkt þessu, svo að við getum alveg fallizt á þessa breyt.

7. gr. hefir breytzt allmikið í meðferð Nd. Hér í d. hafði landbn. gert ráð fyrir, að verkleg kennsla færi fram allt sumarið, en Nd. hefir breytt þessu svo, að nú mega nemendur velja um, hvort þeir vilja stunda verklega námið eitt sumar eða tvö vor, en þá mundi heyvinna verða útundan, svo að þessa breyt. tel ég heldur til hins verra. Þó geri ég þetta ekki að ágreiningsatriði. — Auk þess er nú gert ráð fyrir, að nemendur læri að fara með dráttarvél. Ég efast um, að á svo stuttum námstíma, sem hér er um að ræða, sé heppilegt að kenna bændaefnum að fara með stærri vélar. Það er yfirleitt engin þörf á að kenna það hverjum einstaklingi. Heil byggðarlög taka sig saman um að kaupa slíkar vélar, og þá nægir, að einn eða tveir menn í hverju byggðarlagi kunni með þær að fara. En þessu býst ég við, að skólastjóri hagi eins og honum þykir bezt henta.

Ég þykist þá ekki þurfa að hafa fleiri orð um þetta frv. N. sér ekki ástæðu til annars en mæla með, að það verði samþ. eins og það er nú.