09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

2. mál, fjáraukalög 1928

Frsm. minni hl. (Sigurður Eggerz):

Eins og stendur í nál. meiri hl., hafa ekki verið fastákveðnar reglur um það, hvaða upphæðir skyldu teknar í fjáraukalögin, enda hefir það verið gert allmjög af handahófi. Aðallega hefir verið farið eftir till. endurskoðenda, en minni hl. sýnist rétt að taka upp fasta reglu um það, hvað skuli í framtíðinni vera tekið á fjáraukalög. Í 37. gr. stjórnarskrárinnar stendur: „Ekkert gjald má greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum“. — Þarna er ótvírætt mælt svo fyrir, að ekki sé hægt að gjalda úr ríkissjóði nema annaðhvort eftir fjárlögum eða fjáraukalögum. Auðvitað hefir ekki verið hægt að fylgja þessari reglu alveg bókstaflega. Hafa t. d. verið samþ. þingsályktunartillögur, þar sem fyrirskipað hefir verið að greiða viss gjöld. Þessar þál. hafa verið skoðaðar sem einskonar yfirlýsingar frá þinginu til stj. um, að hún verði ekki látin sæta ábyrgð, þó hún greiði fé samkv. þessum heimildum, en á eftir hefir þótt sjálfsagt að leita heimildar á fjáraukalögum fyrir þessum greiðslum.

Minni hl. vill eindregið fylgja þeirri meginreglu, sem felst í áðurgreindu stjskr.ákvæði, og vill láta taka allar fyrirframgreiðslur upp á fjáraukalög, einnig þó þær eigi heimild í lögum. En samkv. þessu getur minni hl. ekki verið hv. meiri hl. sammála um að fella burtu ýmsa liði í fjáraukalagafrv., suma stórfellda, eins og t. d. kostnað vegna berklavarna, jarðræktarlaganna, Eimskipafélagsins og fleira. Minni hl., sem álítur, að fylgja eigi meginreglu stjskr., vill ekki brjóta svo á móti þeirri meginreglu að fella þessa liði niður. Hinsvegar sýnist ekki bein ástæða til að fara að breyta frv. að þessu sinni, svo að fullt samræmi náist; það væri svo umfangsmikið, og því leggur minni hl. til, að frv. verði samþ. óbreytt. En hann vill leggja áherzlu á, að í framtíðinni verði tekin upp regla sú, er ég hefi getið um.

Mjög athugavert er það auðvitað, hvað sumir liðir hafa farið fram úr fjárhagsáætlun. Ekki verður reyndar komizt hjá því, að sumir liðir, eins og kostnaður af berklavörnum, kostnaður vegna jarðræktarlaga og fleiri liðir fari stundum fram úr áætlun. En aftur eru aðrir liðir, sem óheimilt er, að fari fram úr áætlun, en eru þó hvað eftir annað yfirdregnir. Vegabætur hafa t. d. samkv. fjáraukal. farið á fjórða hundrað þús. fram yfir fjárveitingu. Ég veit að vísu, að mér og fleiri þm. þykir gott að fá vegarspotta, þó að fé sé ekki veitt til þeirra í fjárl., og því er auðvitað ekki að neita, að tilhneigingin er mest til að fyrirgefa slíkar framyfirgreiðslur. En jafnvel um þessi útgjöld álít ég, að sú regla eigi að gilda, að ekki sé farið fram úr ákvæðum fjárlaganna, því með því er verið að draga fjárveitingarvaldið úr höndum þingsins og leggja það í hendur stj. En þetta er mjög hættuleg braut að fara inn á. Sjálfsagt hefir pottur verið brotinn í þessu efni hjá flestum stjórnum. En þó aðrar stjórnir hafi gert slíkt hið sama, er það ekki nægilegt til að réttlæta þetta hjá þessari stj. Yfirleitt hættir syndin ekki að vera synd, þó fleiri hafi drýgt hana. En svo heyrist oft hjá þeirri stj., sem nú situr, að finni hún eitthvað misjafnt í fari fyrri stjórna, telur hún það næga syndafyrirgefningu fyrir sig. Þeir, sem koma eftir þessa stj., geta sannarlega fengið mikið fyrirgefið eftir þessari reglu.

Ég minntist á vegalagningarnar og benti einmitt á, að á því sviði væri þingið fúsast til að fyrirgefa, af því allir vilja fá vegi. En þrátt fyrir það verður að slá því föstu, að stj. má ekki fara yfir þessa liði, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi, því með því er stj. ekki aðeins að brúka fé í heimildarleysi, heldur ákveður hún einnig, hvaða vegaspotta skuli leggja og tekur einnig það vald af þinginu. Auðvitað tala ég þetta allt í mínu eigin nafni, en ekki í nafni n. Og þó að allir verði að viðurkenna, að stj. á eigin ábyrgð hljóti í sérstökum tilfellum að fara fram úr áætlun, þá vil ég, að því sé slegið föstu, að fjárlögunum verði að hlýða eins og öðrum lögum. Ef þessu er ekki slegið föstu, þá missir þingið öll tök á fjármálunum. Ef stjórnirnar brúka allan tekjuafgang í góðu árunum, þá sjá allir, hvernig muni fara, þegar vondu árin koma.