09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

2. mál, fjáraukalög 1928

Frsm. meiri hl. (Hannes Jónsson):

Mér finnst í rauninni ekki ástæða til að karpa mikið um þetta mál, því að ágreiningsatriðin eru ekki svo veigamikil. Till. meiri hl. ganga í þá átt að samræma þetta fjáraukalagafrv. við þá venju, sem nú hefir gilt í 10 ár, en hún hefir verið sú, að sumir þessir liðir hafa aldrei verið teknir upp nema á árunum 1921 og 1923, en þeir síðan felldir niður aftur. Ég hefi athugað þetta mál rækilega og komizt að þeirri niðurstöðu, að bezt væri að breyta ekki frá venjunni, enda minnir mig, að Jakob Möller, sem er glöggur reikningsmaður, væri frsm. n. 1923 og þá komizt að þeirri niðurstöðu, að bezt væri að fella þessa liði niður úr frv. þessu, og síðan hafa þeir ekki verið teknir upp aftur. Ég sé enga ástæðu til að leggja mikið upp úr þeim fullyrðingum, að samkv. stjskr. eigi að taka alla þessa liði upp í frv., því að 1923 voru þeir felldir niður, og munaði það 1½ millj., en þar með gaf þingið fordæmið, svo að mér virðist engin ástæða til að breyta út frá því, og gera ekki breytingar á þessu frv.

Þeirri reglu, sem tekin var upp 1923, hefir síðan verið fylgt, og ég get ekki séð, að nú sé frekari ástæða til að breyta út frá henni, þótt þessir liðir hafi nú slæðzt inn i. Annars segi ég það aftur, sem ég áðan tók fram, að ég fæ ekki séð, að mikil ástæða sé til að gera sérstakt veður út af þessu, því að þetta skiptir ekki svo miklu máli. Aðalatriðið er þetta, að þingið verður að halda sér við einhverja reglu í þessu efni, og þá getur gamla reglan gilt engu síður en þessi, sem menn vilja nú taka upp. Enda er það svo með þessa nýju reglu, að mér virðist, að til þess að hún fái staðizt, verði það ekki nægjanlegt að taka aðeins upp í aukafjárlög allar umframgreiðslur, heldur líka hina liðina, þar sem tekjur ná ekki áætlun, því að með því móti fæst bezt samræmi milli fjáraukalagafrv. og fjárlaganna sjálfra. Það eru ýmsir liðir í landsreikningunum, sem frekar væri ástæða til að taka upp í aukafjárlög en þeir, sem lagt hefir verið til, að felldir yrðu niður. Ég get t. d. bent hv. þdm. á það, að yfirleitt eru margar greiðslur í 25. gr., sem ættu að vera í fjáraukalögum, eins og t. d. styrkurinn til Vestmannaeyja, en það hljóta allir hv. þdm. að viðurkenna, og svona mætti benda á ýmsa fleiri liði.

Það er nokkuð misjafnt frá ári til árs, hvaða greiðslur eru settar í 25. gr., og get ég þá bent á, að árið 1921 voru 4 millj. kr. greiddar samkv. þessari grein, en nú eru það aðeins 600 þús., og svipað hefir það verið undanfarin ár, en mest 1920—21. Ég lít svo á, að meðan ekki er gerð gagngerð breyt. á fjáraukalagafrv., þá sé ekki ástæða til að breyta mikið um frá þeirri reglu, sem fylgt var árið 1923, og því leggur meiri hl. til, að frv. verði sett í sama form og þá, og ég hygg, að þetta muni þykja rétt að samræma frv. þannig við fortíðina.

Ég ætla ekki að víkja mikið að einstökum aths., sem þm. hafa komið fram með, en vil þó víkja að ákúrum hv. þm. Dal. til stj. fyrir umframgreiðslur til vegagerða. Ég verð nú að segja, að mér finnst það nokkuð hastarlegt, ef hv. þm. ætlar að fara að deila á stj. fyrir slíkt, þar sem vitanlegt var, að þingið hafði gefið þegjandi loforð um frekari fjárframlög til vega, ef vel áraði, og heitið í þögninni að láta það óátalið, þótt slíkt yrði gert. Það er nú svo með vegagerðir, að þær verða ekki framkvæmdar á einu ári allar í senn, heldur á mörgum árum, og hið eina, sem þjóðin gæti kvartað undan út af þessari fjárveitingu, væri það, að þetta fé hefir verið lagt í þennan veg, en ekki í hinn, og það ákvörðunarvald væri tekið frá þinginu. Nú er það hinsvegar vitanlegt, að þegar þingið fjallar um þessi mál, þá fer það að mestu eftir till. vegamálastjóra, og sama mun stj. hafa gert.

Að öðru leyti sé ég ekki mikla ástæðu til að fara í frekari reipdrátt út af þessu máli, en þetta er skoðun meiri hl., að viturlegast sé að láta frv. þetta fara út úr deildinni í sama formi og áður.