09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

2. mál, fjáraukalög 1928

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. frsm. minni hl. lagði annan skilning í orð mín en leyfilegt er, þar sem hann sagði, að ég teldi það undirskilið, að stj. hefði heimild til þess að auka framkvæmdir, ef tekjur færu fram úr áætlun. (SE: Ég leiðrétti, að þetta hefðu verið orð hv. þm. V.-Húnv. — HJ: Tók hv. þm. það ekki aftur líka?). Það var gott, því að það voru ekki mín orð.

Það hefir komið dálítið skoplegt fram í umr. um þetta frv., þar sem hv. frsm. minni hl. og að ég ætla einnig hv. 1. þm. Skagf. hafa haldið því fram, að framið hafi verið stjórnarskrárbrot við samning fjáraukalaga í hver veit hve mörg ár, a. m. k. alla stjórnartíð þeirra beggja. Hv. frsm. minni hl. hampar stjskr. og segir, að ekkert megi greiða, nema heimild sé í fjárlögum eða fjáraukalögum. (SE: Ég skýrði í fyrri ræðu hinni, hvernig bæri að skilja þetta, að það þarf samþykki þingsins á endanum). Ég fer þá rétt með, að þetta á að vera stjórnarskrárbrot. En það hygg ég sé misskilningur. Í stjskr. er ekki átt við, að endilega þurfi að standa á krónu við það, sem áætlað er. Aðalatriðið er hitt; að til sé í fjárl. liður, sem heimili greiðsluna; hitt skiptir ekki máli gagnvart stjskr., hvort greitt er krónunni meira eða minna.

Hv. frsm. minni hl. og hv. 1. þm. Skagf. sögðu báðir, að stj. réði miklu um útgjöld samkv. sérstökum lögum. Það er lítið rétt í þessu. Hv. 1. þm. Skagf. kvað það aðhald fyrir stj., ef hún þyrfti jafnan að leita aukafjárveitingar. Ég hygg, að það út af fyrir sig sé ekkert aðhald. Ég vil spyrja: Hvernig á stj. t. d. að spara útgjöld, sem greiða ber samkv. jarðræktarlögunum? Það er ákveðið í lögunum, hve mikið greiða skuli úr ríkissjóði fyrir hvert dagsverk. Ef landsmenn taka upp á því að vinna fleiri dagsverk en gert hafði verið ráð fyrir, svo að fjárveitingin hrekkur ekki til, hvernig á stj. þá að spara? Væri gaman að fá leiðbeiningar um, hvort neita skuli mönnum um styrk, og hverjum skuli þá neita. Aftur á móti er það rétt hjá hv. 1. þm. Skagf. um framkvæmd berklavarnalaganna, að þar veltur á miklu, hvort stj. reynir að spara eða ekki. Ég leyfi mér að halda fram, að núv. stj. hefir gert talsvert ítarlegar tilraunir til þess að spara á þessum lið; hefir hún gengið svo langt í því, að legið hefir við borð, að hún fengi málsókn fyrir.

Hv. 1. þm. Skagf. spurði, hvaða reglum ég hefði hugsað mér, að fylgt yrði í framtíðinni um samning fjáraukalaga. Því get ég svarað greinilega: Um það munu ganga atkv. hér í hv. deild, og mun ég fara eftir því, sem atkv. falla. Ef hv. deild samþykkir till. meiri hl., lít ég svo á, að þar séu þær reglur, sem þingið vill fara eftir. En verði brtt. meiri hl. felldar, mun ég fylgja sömu reglum sem við samning þessa frv. Ég sé ekki annað en að úrskurður hv. d. verði fullskýr, og mun algerlega sætta mig við hann.