09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1575 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

2. mál, fjáraukalög 1928

Bjarni Ásgeirsson:

Það er aðeins eitt atriði 1 því, sem þeir hæstv. fjmrh. og hv. 1. þm. Skagf. deildu um, sem ég vil minnast á, af því að hæstv. ráðh. var ekki við, þegar hv. þm. svaraði honum, atriði, sem ég held, að sé algerlega rangt hjá hv. 1. þm. Skagf. (MG: Ég er dauður!). Ég vona þá, að hæstv. forseti gefi honum líf aftur.

Hann vildi halda því fram, að stj. hefði algerlega á valdi sínu að ráða, hvort mikið eða lítið væri goldið samkv. jarðræktarlögunum.

Fyrst og fremst vil ég geta þess, að þeirri reglu mun hafa verið fylgt, og er sjálfsagt að fylgja, að meta dagsverk ekki með tilliti til útgjalda vegna jarðræktarlaganna, heldur út frá því einu, hvað sé raunverulegt dagsverk. Matið á að vera sem næst því, hvað dagsverkið kostar á hverjum tíma, og þess vegna á það ekki að vera neitt með tilliti til útgjaldanna. En þó að svo væri, þá er ekki venja að meta þetta dagsverk nema endrum og eins. Oft líða 10 ár á milli, þegar verðlag er stöðugt. Jafnvel á þessum miklu verðsveifluárum, 1923—1930, hefir ekki verið metið upp nema einu sinni. Þegar svona sjaldan er metið, er augljóst, að mjög lítil áhrif er hægt að hafa á, hvað borgað er út. Og jafnvel þótt metið væri á hverju ári, þá er ekki með því hægt að hafa áhrif á útgjöld hvers árs, því að það er borgað út eftir mati, sem búið er að gera tveim árum fyrr.

Þess vegna verður stj. t. d. að beygja sig undir það mat, sem var á dagsverki 1928 og 1929, þegar hún borgar út samkv. fjárlögum fyrir 1930. Og þótt hún vildi breyta matinu 1930, gæti það ekki haft nein áhrif á þá upphæð, sem goldin er 1930.

Ég tek þetta dæmi til þess að sýna, að frá ári til árs er ómögulegt fyrir stj. að hafa áhrif á útgjöldin með breytingum á matinu.