03.04.1930
Efri deild: 68. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Jónsson:

Ég get ekki stillt mig um að vekja athygli hv. d. á því, áður en eldabuskurnar taka til starfa, að nú er mjög liðið á þingtímann. Þingið var að þessu sinni sett 17. janúar. Í dag er 3. apríl, og þannig liðnir 76 dagar frá þingsetningu, þegar fjárl. koma hér fyrst til umr. í þessari hv. d. Vænti ég þess því, að hv. d. sýni réttmæta sanngirni, þegar að því kemur að meta, hversu vel eða illa fjvn. þessarar d. hefir gætt þeirrar skyldu sinnar að afgreiða fjárl. sem fljótast frá sinni hendi, og líti jafnframt til þess, hversu langan tíma það tók hv. Nd. að afgreiða fjárl. að þessu sinni. Er þetta ekki sagt til þess að áfellast hv. Nd. fyrir seinlæti í afgreiðslu fjárl., því að ýmislegar orsakir lágu til þess, og meðal annara þær sérstöku truflanir, sem urðu á störfum þingsins vegna Íslandsbankamálsins. En þrátt fyrir það verður það ekki sagt um hv. Nd., að hún sé nein lofsverð fyrirmynd um vinnubrögð, eins og hinar tíu daga eldhúsumr. bera óljúgfróðast vitni um.

Í meðförum hv. Nd. á fjárl. hafa hin raunverulegu útgjöld ríkisins hækkað um ca. ½ millj. frá því, sem var í frv stj. Er sú hækkun sumpart fólgin í sjálfsögðum leiðréttingum, sumpart í auknum framlögum til verklegra framkvæmda, auk þess sem persónulegir styrkir, sem telja verður að orki mjög tvímælis, eiga sinn verulega þátt í þessari hækkun. Fjvn. þessarar d. mun að sjálfsögðu keppa að því marki að stilla útgjöldunum svo í hóf sem unnt er, og reyna að draga úr þessari hækkun eftir mætti. Og hv. d. verður að vera n. samtaka um þetta, ef svo á að takast, að afgreiða fjárl. forsvaranlega að þessu sinni.

Ég vildi aðeins vekja athygli hv. d. á þessu, og svo jafnframt láta í ljós þá ósk, að eldabuskunum farist svo skörulega, að við hinir sofnum ekki, sem utan við eldhúsverkin stöndum.