03.04.1930
Efri deild: 68. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Baldvinsson:

Hv. 6. landsk. hagaði sér eins og góðum búmanni sæmir, þegar hann var að berja sér og biðja velvirðingar á því fyrirfram, að fjvn. þyrfti að eyða nokkrum tíma í starf sitt að þessu sinni, þar sem afgreiðsla fjárl. hefði orðið svo tímafrek fyrir hv. Nd. í ár. Því að það er sem sé vitanlegt kunnugum, að fjvn. þessarar d. hefir nú að mestu lokið störfum, enda þótt fjárl. hafi ekki legið formlega fyrir fyrr en fyrir skömmu, þegar hv. Nd. loks tókst að afgreiða þau til fullnustu. Hinsvegar get ég tekið í sama streng og hv . 6. landsk. þm. um það, að önnur eins vinnubrögð og hv. Nd. sýndi í eldhúsumr. eru með öllu óhæfileg og óverjandi. Eldhúsumr. eru gagnlegar, ef þær eru um málefni, en ekki persónudeilur. Áður fyrr hlökkuðu menn til eldhúsumr., því að þá var stj. ávítuð fyrir að hafa framkvæmt eitthvað, sem vítavert þótti, eða fyrir að láta annað ógert, sem henni bar að gera, en nú hafa íhaldsmenn komið slíku óorði á eldhúsumr., að það liggur við, að ég kynoki mér við að fara í eldhúsið. Eldhúsumr. í Nd. stóðu að þessu sinni í 8 daga vegna látlauss persónuvaðals íhaldsmanna, og töfðu þeir þannig öll önnur deildarstörf þennan tíma með þessari mælgi sinni.

Fulltrúar Alþýðuflokksins hafa deilt á stj. út af málefum, en það, sem íhaldi og framsókn ber á milli, virðist vera það, hvort ráðh. eigi að heita Tryggvi, Jónas og Einar, eða Jón, Magnús og Ólafur. Af þessu stafar svo það, hve orðaskipti íhaldsmanna við stj. eru illskeytt og æsingin mikil.

Af þeim ástæðum, sem ég nú hefi rakið, var ég að vega það með sjálfum mér, hvort ég ætti nú að bregða mér í eldhúsið að þessu sinni, og ég ákvað að gera það í þeirri von, að umr. verði hér skaplegri að tímalengdinni til, og að íhaldsmenn Ed. sjái betur en flokksbræður þeirra í Nd., að það er óforsvaranlegt að eyða svo löngum tíma í einskisverða hluti.

Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum yfir því, hversu þunglega hæstv. stj. hefir tekið í flest mál okkar jafnaðarmanna. Þó að Framsóknarflokkurinn hafi greitt atkv. með fáeinum þeirra mála, sem Alþýðuflokkurinn hefir borið fram til hagsbóta fyrir verkalýðinn, þá eru hin málin miklu fleiri, sem framsóknarmenn hafa brugðið fæti fyrir — mál, sem enginn frjálslyndur flokkur í heiminum mundi standa á móti. Það eru mannréttindamál eins og afnám fátækraflutnings, eða t. d. bann gegn næturvinnu, svo að verkafólk fái næturhvíld, en heilsu þess og lífi sé ekki stefnt í voða með því að vinna erfið verk nótt sem dag, hvernig sem viðrar. Það eru mál eins og einkasala á lyfjum, til þess að tryggja landsmönnum góð og ódýr meðul, eða veðlánasjóður fiskimanna, til þess að gera þá, sem smábátaveiðina stunda, sjálfstæðari. Þá má nefna það, að frv., sem við jafnaðarmenn fluttum um forkaupsrétt kaupstaða á ýmsum mannvirkjum í kaupstöðum og kauptúnum, var drepið í Nd. af sameinuðu liði íhalds og framsóknar, eftir að það þó var samþ. í þessari hv. d. Var frv. þetta þó ekki róttækara en svo, að það fór fram á að veita kaupstöðunum hliðstæðan forkaupsrétt í þessum efnum við forkaupsrétt hreppa á jörðum.

Þá höfum við jafnaðarmenn hvað eftir annað borið fram frv. um að auka tekjur ríkissjóðs, án þess að íþyngja alþýðu manna. Er þar skemmst að minnast frv. um tóbakseinkasöluna, sem mundi gefa ríkissjóði minnst 200 þús. kr. árlegar tekjur. Framsóknarmenn hafa alltaf látið sem svo, að þeir væru með einkasölu á tóbaki, þegar þeir hafa verið að tala við kjósendur, en á Alþingi hafa þeir ár eftir ár lagt stein í götu þess, að hún sé tekin upp aftur, svo sjálfsagt sem það er. Fyrir þessu þingi liggur nú frv. um einkasölu á tóbaki, en því miðar lítið áfram og er fyrst í dag til 2. umr. í hv. Nd. Var frv. þó lagt fram snemma á þingi, svo að ekki er hægt að bera því við að þessu sinni, að ekki hafi verið nægur tími til stefnu.

Þegar við jafnaðarmenn bárum fram frv. um rýmkun kosningarréttar í málefnum sveita og kaupstaða, snérust nógu margir Framsóknarmenn á móti því, til þess að fella það í félagi við íhaldið, enda þótt þessir sömu menn samþ. ákvæði frv. árið eftir, þegar þau voru í stjfrv.

Framsóknarmenn hafa oft haldið sér sem næst íhaldinu, og virðist ekki vera önnur skýring til á því, en að þeir geri það til að geðjast íhaldsmönnum og vinna sér hrós hjá Morgunblaðinu fyrir að láta ekki jafnaðarmenn teyma sig út í hverja vitleysu. Má segja, að þetta sé mannlegt, en hitt er ekki jafnvíst, að Framsókn bæti fyrir sér í sveitunum með því að sigla þannig sem næst stefnumálum íhaldsmanna, eins og sumir framsóknarmenn virðast halda. Ég gæti miklu fremur trúað, að þessi leikur yrði þeim til falls, því að fyrir bragðið missa frjálslyndir menn, jafnt við sjó sem í sveitum, allt traust á þeim.

Nú fyrir fáum dögum þverbrutu framsóknarmenn þessarar hv. d. stefnu þá, sem er rauði þráðurinn í l. um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða, er hæstv. stj. flutti og fékk samþ. á þinginu í fyrra með hjálp okkar jafnaðarmanna, með því að ganga að því með Íhaldsmönnum að neita Siglfirðingum um að velja sér bæjarstjóra. Gerðu framsóknarmenn ekki hina minnstu tilraun til að rökstyðja þennan hringsnúning sinn, enda gátu þeir það ekki, þar sem þeir voru búnir að binda sig í fyrra. Verð ég að skoða þetta sem beinan fjandskap í garð okkar jafnaðarmanna, ef persónulegar ástæður hafa þá ekki legið á bak við hjá stj. og flokki hennar í þessu máli.

Um vegavinnukaupið skal ég vera stuttorður að þessu sinni, þar sem samningar standa nú yfir um það, og vænta má, að viðunandi lausn verði nú í bili bundin á það mál. Verkamenn hafa nú sett fram kröfur sínar um bætt kaup við vegagerðir, og að kaupið verði það sama, hvar sem er á landinu, enda er vinna við vegagerðir yfirleitt samskonar, og því sjálfsagt, að goldið sé sama kaup alstaðar.

Undanfarið hefir vegavinnukaupið verið óverjandi lágt, þetta frá 75 au. upp í 90 au. um klukkustundina. Af þessu leiðir svo það, að mannskapsminni og óvanari menn starfa að vegagerðunum en ella mundi, ef kaupið væri hærra. Sjá allir, hvað slíkt er hagfellt fyrir ríkið! Auk þess verð ég að átelja það, hversu hæstv. forsrh. virðist leggja mikið kapp á að láta leggja vegina með ákvæðisvinnu. Menn þurfa ekki annað en sjá Biskupstungnaveginn og nýja Þingvallaveginn til þess að sannfærast um, að slíkt er miður heppilegt. Þessir vegir eru báðir lagðir með ákvæðisvinnu, og voru svo lélegir, að moldin gekk upp í gegnum ofaníburðinn strax og bílar fóru að fara um þá. Stafar þetta af því, að ákvæðisvinnan er þrautpínd niður, svo að verkamennirnir neyðast til að hroða henni af, til þess að halda sæmilegu kaupi, en sumpart stafar þetta af eftirlitsleysi frá hálfu vegamálastjóra.

Ég vil leyfa mér að skora á hæstv. forsrh. að láta framkvæma allar vegagerðir í tímavinnu. Það er báðum hagkvæmara, verkamönnunum og ríkinu, að vinnan við vegagerðina sé greidd með daglaunum og kaupið sé ekki pínt niður. Þá fá verkamenn kjör sín bætt og ríkið betri vegi.

Á hverju vori svo að segja kemur sú frétt í blöðunum, að Hvítá í Borgarfirði hafi brotið skarð í veginn við Ferjukotssíkið. Svo er gert við skemmdirnar, sem orðið hafa á þessum vegarspotta. Er allt fer á sömu leið. Næsta vor brýtur áin veginn aftur, og svo koll af kolli. Vegamálastjóri lætur viðgerðina fara fram enn á ný, en aðgerðin reynist alltaf jafnónóg. Í fyrra gerði ég þetta að umtalsefni og var því þá svarað af hæstv. atvmrh., eins og hér segir, með leyfi hæstv. forseta: „Vegamálastjóri hefir tjáð mér, að vegurinn mætti hiklaust teljast tryggur með stærri vatnsrásum, og að það hafi eingöngu verið vatnsmagnið, sem varð honum að grandi í vetur“. Meiningin í þessu var sú, að nú ætti að gera svo stóra vatnsrás, að vatnið hlypi alls ekki á veginn. Það var nú að vísu engin sérstök speki, að það hefði verið vatnið eða vatnsmagnið, sem braut veginn í vetur, en svo mikið var víst, að vegamálastjóri hafði talið hann fullkomlega öruggan, en það reyndist nú á annan veg. Ég vil nú mega vænta þess af hæstv. ráðh., að hann láti nú fara að létta af ríkissjóði þessum stöðugu útgjöldum, sem stafa af þessum árlegu viðgerðum á þessum vegi. Þetta hefir kostað tugi þúsunda að undanförnu að gera við þennan vegarspotta og væri þarfara að verja þessu fé árlega til nýrra vega, sem meiri nauðsyn er á að leggja. Á hinn bóginn álít ég vegamálastjóra hafa sýnt annaðhvort ófyrirgefanlegan trassaskap eða vanþekkingu, eða þá hvorttveggja, að ekki skuli takast að gera veginn þarna fullkomlega öruggan. Vil ég því mælast til við hæstv. ráðh., að hann leggi ríkt á við sína undirmenn að þeir láti nú ekki slíka háðung endurtaka sig öllu lengur, og nú verði gaumgæfilega rannsakað, hversu má búa um veginn þarna svo tryggt sé. Það verður að taka fleira til greina en það, sem þessir sérfróðu menn segja um þessa hluti, það verður að hafa staðkunnuga menn með í ráðum. Hingað til hefir það ekki fengizt. Það er nú tími til kominn að fara að venja þessa herra af þessum alkunna lærdómshroka og sjálfbyrgingshætti, og fara í þess stað meira eftir því, sem heilbrigð skynsemi býður. Ég skal að öðru leyti ekki fara frekar út í þá sálma að sinni, enda gerist þess lítil þörf, við þekkjum allir nóg dæmi af „sérfræðingunum“, sem þykjast upp úr því varnir að taka bendingar fróðra og kunnugra manna til greina. Víða um landið sjást menjar slíkra „sérfræðinga“, og sérstaklega er hv. 3. landsk. víða getið í sambandi við þær framkvæmdir, sem ótryggar hafa reynzt.

Þá vil ég um leið drepa lauslega á annað atriði í þessu sambandi. Ég fór fram á það í fyrra í hógværri þáltill., að hæstv. atvmrh. léti rannsaka skilyrði fyrir vatnsveitu á Hvammstanga. Till. þessi var samþ., enda hafði ráðh. fremur góð orð um að láta gera þetta, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkur orð úr ræðu hans, sem svo hljóða:

„Ég tel sem sé víst, að hægt yrði að koma þessu í verk í vor eða sumar, því vafalaust á vegamálastjóri eða aðstoðarmenn hans leið þarna um í sumar“.

Ég hafði enga ástæðu til þess að ætla, að hæstv. ráðh. myndi ekki standa við orð sín, enda þótt hann að vísu tæki fremur dauflega í málið, vegna þess að honum þótti það ekki vera komið rétta boðleið inn í þingið. En nú hefi ég engar spurnir af, að hæstv. ráðh. hafi nokkuð aðhafzt í þessu máli. Þykir mér slíkt harla kynlegt, og vil því mælast til, að hann láti deildinni strax í té upplýsingar um það, hvað framkvæmdum líði í málinu. Á ég bágt með að trúa því, að hæstv. ráðh. hafi ekki einusinni haft svo mikið við að leggja þetta fyrir verkfræðingana. Hæstv. ráðh. ætti að muna það, að till. var samþ., enda þótt hv. 6. landsk., af alveg óskiljanlegum ástæðum, leggðist á móti henni, og enda þótt hæstv. ráðh. sjálfum væri lítið um hana gefið. Ég vil skora á hæstv. ráðh. að standa refjalaust við orð sín. Hér er um svo alvarlegt mál að ræða, að eigi má líðast, að því sé stungið undir stól. Það er ekkert smámál, hvort heilt kauptún hafi nothæft drykkjarvatn eða ekki. Slík mál má ekki svæfa með tómlæti, og allra sízt af hálfu heilbrigðisyfirvalda landsins.

Þá vil ég víkja ofurlitlu að hæstv. fjmrh. viðvíkjandi veðdeild Landsbankans. Í lögunum um lántöku ríkisins frá því í fyrra er m. a. nefnt lán, sem taka eigi handa veðdeild Landsbankans. Ég hefi ástæðu til þess að ætla, að þetta sé ekki enn komið í framkvæmd. Veðdeildarflokknum varð að loka um áramót vegna peningaleysis. Mönnum er það vitaskuld mjög óþægilegt að fá bréfin í stað peninga, því það er ekki hægt að selja þau nema þá með mjög miklum afföllum. Það er vafalaust, að ef slík bréf verða seljanleg með góðum kjörum, yrði það mjög til að auka þau not, sem almenningur hefir af veðdeildinni. Myndi slíkt lyfta undir byggingar og stuðla að því að bæta húsnæði í kaupstöðum og kauptúnum landsins. Vænti ég þess nú, að hæstv. fjmrh. svari þessari spurningu minni þegar í stað. Ég þarf ekki að minna hann á, að það var eindreginn vilji þingsins, að þetta lán yrði tekið.

Þá vil ég spyrja hæstv. dómsmrh., — því að ég ætla, að það heyri undir hann — hvað hann hugsar sér um byggingu landsspítalans. Það hefir alltaf virzt svo sem nokkur tregða hafi verið í hæstv. dómsmrh. um að halda landsspítalanum áfram með þeim hraða, sem þingvilji er fyrir. Það var ákveðið fyrir löngu að hafa hann fullbúinn fyrir 1930. Er tregðu hæstv. dómsmrh. um að kenna, að málið er ekki enn komið lengra áleiðis? Hefir hann ekki viljað veita nægilegt fé til spítalans, enda þótt skýr heimild hafi verið til þess í lögum frá 1919 um húsbyggingar ríkisins? Vil ég segja það, að hæstv. dómsmrh. hefir unnið að mörgu því, sem ekki hafa verið eins öruggar fjárveitingaheimildir fyrir, t. d. Laugarvatnsskólinn, sem að vísu er gott og þarflegt fyrirtæki út af fyrir sig, en sem getur mjög orkað tvímælis, hvort full fjárheimild hefir verið fyrir. Það má með fullum rétti líta á bæði Laugarvatnsskólann og landsspítalann sem þörf mál, en þegar skýr lagaheimild er fyrir öðru en ekki fyrir hinu, þá á þingræðisráðh. ekki að vera í vafa um hvort ganga skuli fyrir. Það má líkt segja um skólabygginguna á Laugarvatni og fjósið á Hvanneyri, að vafi getur leikið á um, hve mikla stoð þær fjárveitingar hafa í lögum. Að vísu er það ekki nema eðlilegt, að þeir flokkar, sem tekið hafa við af Íhaldinu, hafi löngun til að koma ýmsu í framkvæmd, en hitt verður heldur ekki varið, að þegar svo geysimiklu fé er varið til ýmsra hluta, jafnvel þótt þarfir séu, án þess að hin minnsta heimild sé til þess í fjárl., þá er það að ganga á snið við þingið. Við jafnaðarmenn höfum nú flutt frv. í Nd. um jöfnunarsjóð ríkisins, sem á að vera til eyðslu, ef tekjur ríkisins fara fram úr vissu marki. Ég tel það skyldu ríkisstj. að geyma peninga frá góðu árunum til hinna harðari, og haga verklegum framkv. í samræmi við það.

Þá þykir mér rétt að drepa á eitt mál enn áður en ég held lengra áfram, og það eru lóðarkaupin undir landssímastöðina. Það virðist nú ekki hafa verið verulegur munur á verði þeirrar lóðar og Hafnarstræti 16, sem í ráði var að kaupa um árið. En staðurinn er miklu verri, sem nú er keyptur, því að símstöðin er þannig flutt úr leið frá aðalgötu bæjarins og lengra burt frá höfninni, og er slíkt til stórmikilla óþæginda. Um leið er rétt að minnast á starfrækslu landssímans. Síðastliðin tvö ár hefir afgreiðslan á símastöðinni verið mjög léleg, svo að ekki verður við unað öllu lengur. Hygg ég, að þetta sé ekki starfsfólkinu um að kenna, nema þá að minnstu leyti. Orsökin mun vera sú, að símameyjarnar eru ofhlaðnar störfum, því að þær hafa miklu fleiri númer hver heldur en kvað tíðkast erlendis. Þessu þarf nauðsynlega að kippa í lag, því að flestir munu vera á einu máli um það, að eitthvert hið leiðinlegasta verk, sem til er, sé að bíða lengi eftir því, að miðstöð svari í sima. Vil ég mælast til. að hæstv. ráðh. tali um þetta við landssímastjóra og fái þessu komið í viðunandi horf. Reyndar hefir því nú verið fleygt, að meðan Forberg heitinn var landssímastjóri, hafi verið betur gengið eftir, að afgreiðslan gengi greiðlega, en hvað sem því líður, þá er það víst, að afgreiðslan er nú mjög léleg, og má vart við svo búið standa framvegis.

Að lokum hefði ég þurft að drepa á ýms fleiri atriði, sérstaklega viðkomandi hæstv. dómsmrh., en ég mun fresta því til síðar, að ég hefi heyrt svör við þeim fyrirspurnum, sem ég hefi lagt fyrir hæstv. stj., sérstaklega um landsspítalann, veðdeildina og vatnsveituna á Hvammstanga. Vænti ég þess fastlega, að hæstv. stj. gefi greið svör, en áskil mér að því loknu rétt til að ræða frekar við hana um þessi atriði og fleiri.