03.04.1930
Efri deild: 68. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

1. mál, fjárlög 1931

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég verð nú að byrja á því að taka upp þykkjuna, ef svo mætti að orði kveða, fyrir hv. Nd. út af þeim ummælum, sem hér hafa fallið í hennar garð frá hv. form. fjvn. og frá hv. 4. landsk. Ég er eini þm. í Nd., sem hér hefir málfrelsi í þessari deild, og mun ég taka svari hv. Nd. að nokkru, áður en ég svara hv. 4. landsk. í einstökum. atriðum.

Hv. form. fjvn. ásakaði hv. Nd. fyrir að hafa verið lengi með fjárl. Þetta er að vísu rétt, en Nd. er alltaf lengi með þau, og ekki lengur nú en endranær. Ennfremur fór hv. þm. ekki rétt með, er hann sagði, að d. hefði haft fjárl. til meðferðar í 76 daga; það er aðeins formlega rétt, því að það er hálf önnur vika síðan Nd. hafði lokið við atkvgr. um fjárl. og sent þau til fjvn. þessarar d. Hitt skal fúslega játa, að hv. form. fjvn. getur úr flokki talað, því að fjvn. þessarar d. hefir sýnt myndarskap og dugnað í afgreiðslu fjárl., og er slíkt til hinnar mestu fyrirmyndar, og þessari röggsemi hv. n. var það að þakka í fyrra, að þingið varð ekki lengra en raun var á. Hinsvegar er það óþarfi að vera að kasta hnútum til hv. Nd., því að Nd. hefir miklu fleiri málum að sinna en Ed., því að þar eru unnin flest þau störf, sem flokkarnir þurfa að láta vinna, og í Nd. er þungamiðja þingstarfanna, svo að ekki er að undra þó hún þurfi lengri tíma til að afgreiða mál heldur en þessi hv. d.

Þá vil ég víkja að eldhúsræðu hv. 4. landsk., og áður en ég sný mér að einstökum atriðum hennar, vil ég svara henni almennt. Hann lét þau orð falla, að við framsóknarmenn tækjum jafnan þunglega málum jafnaðarmanna. Þetta er sjálfsagt rétt að því er snertir hin eiginlegu stefnumál sócíalista sem slíkra, svo sem þjóðnýtingu og þvílíkt. Hv. þm. veit vel, að við höfum aðra skoðun á þeim málum og ljáum þeim ekki lið. En að því er snertir ýms almenn mál, önnur en skipulagsmálin, þá höfum við oft átt samleið með jafnaðarmönnum. Vil ég þar nefna ýms mannréttinda- og mannúðarmál og hagsmunamál þeirra þjóðfélagsborgara, sem minna mega sín efnalega. Ég mótmæli, að við höfum verið á móti málum jafnaðarmanna í rýmri merkingu, en að sjálfsögðu getum við ekki fylgt jafnaðarmönnum í þeim málum, sem brjóta í bága við grundvallarstefnu Framsóknarflokksins. Hv. þm. sagði, að þau mál væru óteljandi, sem við hefðum gengið á móti jafnaðarmönnum í, en svo vildi hann þó ekki telja nema nokkur hinna smærri, eins og hann orðaði það. Þetta er töluvert eftirtektarvert, að hann treysti sér ekki til þess að telja upp annað en smælkið. Hv. þm. veit það nefnilega, að stóru málin, hvert á fætur öðru, hafa komizt í gegn fyrir samstarf Framsóknar og jafnaðarmanna, og þess vegna hefir hv. þm. ekkert annað en smælki til þess að telja fram. Ég gæti talið upp fjölda af stóru málunum, í mótsetningu við þau smærri, þar sem við höfum staðið við hlið jafnaðarmanna, og á þessu þingi er á döfinni mál, sem snertir sjómenn mjög mikið, og sem stj. hefir látið undirbúa og borið fram. Ég býst jafnvel við, að aldrei hafi neitt þing haft til meðferðar meiri mál, er snerta sjávarútveg og sjómenn, en einmitt þetta þing, og öll eru þau mál flutt og undirbúin af okkur framsóknarmönnum og miða til stórra hagsbóta og menningarauka þessum stéttum.

Hv. þm. sagði, að við hefðum orðið að taka afstöðu í málum gegn jafnaðarmönnum til þess að sýna þeim fjandskap. Þetta er alveg rangt. Afstaða okkar mótast eingöngu af innihaldi mála, en alls ekki af löngun til að ýfast við nábúann til hægri eða vinstri. Og allra sízt mótast afstaða okkar af því, að við viljum þóknast Íhaldinu, því að það væri áreiðanlega vísasti vegurinn til þess að tapa atkv. úti hjá kjósendum landsins. — Hv. þm. sagði, að við myndum nú ekki grípa neinn atkvæðafjölda við næstu kosningar. Vel má það vera, en ekki er mér grunlaust um, að hv. þm. hafi nú töluverðan beyg af því, að við munum taka töluvert af atkv. frá þeim, ekki síður en frá Íhaldinu. En úr þessu verður nú skorið, svo við skulum láta úttalað um það að sinni.

Þá vil ég víkja að einstökum atriðum í ræðu hv. 4. landsk. Hann talaði fyrst um vegavinnukaupið, sem þeir jafnaðarmenn eru að stagast á alla eldhúsdaga. hað er rétt, að þeir hafa komið til stj. út af þessu, en aðallega með það fyrir augum að sjá um, að kaupið sé sama um allt land.

Ég hefi látið athuga, hvernig verkalýðsfélögin hafa ákveðið kaupið á einstöku stöðum út um land. Þá hefir komið í ljós, að verkalýðsfélögin lifa alveg í mótsögn við kröfu hv. þm. Það þarf ekki að fara lengra en til Hafnarfjarðar. Þar er kaupið 10–20 aurum minna um klst. en hér í Reykjavík. (JBald: Það er 4–6 aurum minna). Það getur verið, að það sé ekki meira, en skýrslan sýnir, að það er allmisjafnt, hvað umbjóðendur hv. þm. hafa tekið hátt kaup. Ég vona, að hv. þm. sjái, að það er ótækt að fara að taka ráðin af verkalýðsfélögunum og láta þau vinna fyrir annað kaup en þau ákveða. Hv. þm. skal koma á umbótum í sínum eigin herbúðum fyrst. Annars er þetta mál í höndum vegamálastjóra. Stj. hefir ekki skipt sér af þessu beinlínis, hvorki fyrr eða síðar.

Þá beindi hv. þm. því til mín, að komið hefði verið á ákvæðisvinnu við vegagerðir. Ég álít, að báðum aðiljum, verkamönnum og ríkinu, sé slíkt fyrirkomulag fyrir beztu. Af hálfu ríkisins verður að hafa ríkt eftirlit með því, að vinnan sé vel af hendi leyst. Þótt erfiðara sé að hafa eftirlit með vegavinnu í ákvæðisvinnu en annari vinnu, þá álít ég það vel fært.

Þá sagði hv. þm., að ríkið fengi stundum vonda vinnu, af því að eftirlitið væri svo vont. Þetta fyrirkomulag væri líka vont fyrir verkafólkið, svo hart væri að því gengið við þessa vinnu og kaupið lágt.

Ég hefi nú fengið upplýsingar um það, hvernig þessu er farið í sýslunum hér í nágrenninu, og þær eru á þann veg, að vinnan sé ekki nógu góð. Eftirlitið, sem verkstjórunum er ætlað, er ekki nógu fullkomið. En það er ekki rétt, að verkamenn séu píndir. Þeir hafa upp undir 30 kr. á dag. Þeir munu sannarlega ekki þakka hv. 4. landsk. fyrir það að mótmæla ákvæðisvinnunni. Ef reynslan sýnir, að ekki er hægt að framkvæma eftirlitið og ríkissjóður fær vonda vinnu, er sjálfsagt að hætta því fyrirkomulagi. En ég vona, að hægt verði að koma á góðu eftirliti, og að það verði til hagsbóta, bæði fyrir ríkið og verkamenn.

Ég ætla að minna hér á eitt dæmi, sem hv. þm. nefndi, að unnið hefði verið fyrir ríkið. Það var þó ekki unnið í ákvæðisvinnu, heldur í tímavinnu, eins og hv þm. vill játa vinna það.

Hv. þm. nefndi veginn við Ferjukot. (JBald: Var það ekki unnið undir eftirliti verkfræðings?). Jú, en ég ætla ekki að fara að svara fyrir teknisk atriði, t. d. hvar veginn eigi að leggja. Það er fyrrv. stj. og vegamálastjóri, sem eiga að svara fyrir það. Ég vil þó geta þess við menn, sem eru kunnugir þessu verki og segja, að það hafi tekizt illa og orðið dýrt fyrir ríkissjóð. Og flestir kunnugir menn telja, að réttara hefði verið að leggja veginn hjá Krókatjörn, en ekki þar sem hann er nú. Og það má búast við, að það verði áfram áföll á þessum vegi. En vegamálastjóri mun nú reyna að gera enn meira en gert hefir verið til þess að draga úr þessari hættu. En ef mikið flóð flæðir, er það ekki eingöngu vegurinn, sem fer, heldur líka brýrnar.

Það er ekki sama aðstaða, þegar búið er að leggja mikið fé í eitthvert verk, eða þegar verið er að byrja það. Það er nú spurningin, hvort það borgi sig betur að byrja á nýjum vegi á öðrum stað, eða halda áfram að gera við gamla veginn. Ég hefi ekki þá fagþekkingu, að ég fari að taka fram fyrir hendur vegamálastjóra í þessu efni. Ég býst því við, að byggt verði ofan á það gamla, en því miður get ég ekki fullyrt, að það reynist öruggt í framtíðinni.

Þá beindi hv. þm. þeirri fyrirspurn til mín, hvort stj. hefði gert ráðstafanir til þess að fullnægja þál. frá hv. Ed. í fyrra um vatnsveitu á Hvammstanga. Ég fór nú áðan í símann og ætlaði að ná í vegamálastjóra, en fékk ekki samband á þeim stutta tíma, sem ég hafði til umráða. Vegamálastjóra hefir verið falið þetta verk. En það er langt að senda mann norður, og því býst hann við að láta einhvern sinna starfsmanna gera það, þegar þeir eru á ferðinni fyrir norðan. En því miður get ég nú ekki sagt, hvað gert hefir verið í þessu, en mun síðar upplýsa það.

Ég skoða það sem spaug hjá hv. þm., eins og hann sjálfur orðaði það, að hann hefði heyrt hálft í hvoru, að lítið hefði verið gert. Hv. þm. fylgist ekki betur með en svo, að hann lætur sér nægja að heyra hálft í hvoru, hvað gert hefir verið í einhverju máli, sem hann flytur sjálfur.

Um lóðarkaupin undir nýju símastöðina skal ég ekki fjölyrða. Það mál var mikið rætt í hv. Nd. Hv. þm. sagði, að hún kostaði svipað verð og lóðin í Hafnarstræti fyrir nokkrum árum. Þetta er víst rétt hjá hv. þm., en þessi lóð er meira en helmingi stærri en hin. Þessi nýja lóð er 800 m2, en hin náði ekki nema 400 m2. Verðið á hverjum fermetra er því meira en helmingi lægra en í gömlu lóðinni. En fagmennirnir sögðu, að ekki yrði komizt af með minna en 800 m2.

Ástæður þær, sem hv. þm. færði fram móti lóðinni, voru þær, að hún væri ekki við aðalgötu. Ég verð að segja, að þetta er ekki langt frá aðalgötu, og ég sé ekkert eftir kjósendum hv. þm. að ganga upp með Austurvelli á símastöðina, ef þeir geta ekki símað heiman frá sér. Og um okkur hv. þm. er það að segja, að við erum þannig holdum farnir, að við höfum bara gott af að fá okkur slíkan sprett ef við þurfum að síma.

Loks minntist hv. þm. á afgreiðsluna á miðstöðinni í Reykjavík. Það er satt, sem hv. þm. segir, að við rekum okkur oft á það, að afgreiðslan á miðstöðinni er slæm með köflum, og því hefir Alþingi fallizt á það, að koma upp sjálfvirkri miðstöð. Mér finnst því ekki rétt að vera að leggja í mikinn kostnað til þess að umbæta þetta.

Ég veit ekki hvort það er rétt, sem hv. þm. sagði að væri ástæðan til þess, að afgreiðslan væri svo slæm, þ. e. að stúlkurnar væru of fáar. Ég mun athuga þetta og gefa hv. þm. síðar upplýsingar um það. En ég hygg, að því sé þannig farið, að ekki sé hægt að koma fleiri stúlkum að við afgreiðsluna en nú er.

Hv. þm. sagðist álíta; að það hefði verið betri stj. á bæjarsímanum meðan Forberg lifði en nú er. Ég ætla að segja hv. þm., að það er ekki landssímastjóri, sem hefir það með höndum. Það er sami maður sem hefir það nú með höndum og síðast í tíð Forbergs heitins, og það er símaverkfræðingurinn.