08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

3. mál, landsreikningar 1928

Magnús Jónsson:

Ef ríkissjóður ætti skip, sem sykki óvátryggt, en hefði auðvitað verið talið eign ríkissjóðs, þá myndi sá liður falla niður af eignaskýrslunni, og þar sem skipið var óvátryggt, er engin von um, að ríkissjóður fái þetta inn, og því væri rétt að láta koma út á eignaskýrslunni þann skaða, sem ríkissjóður hefði beðið.

Nú er þessu ekki svo varið með þetta innskotsfé. Það er sem sé, eftir þessari skýrslu, að vísu tapað að svo komnu, en það er von um, að Landsbankinn vinni, þetta upp og ríkið fái sína peninga aftur. En þá eru alveg rétt færðir reikningar hjá hæstv. stj., því að þetta er þá útistandandi skuld, og hefði átt að færa það sem vissa skuld, því að annaðhvort verður að segja: Þetta er tapað fé, og þá á það ekki að vera á eignaskýrslunni, eða þá, ef litið er á það sem þetta sé aðeins fé, sem Landsbankinn hafi tapað í svip, en muni endurgreiða aftur, þá er rétt að telja það með eignum ríkissjóðs, því að þá er það útistandandi skuld. — Nei, ég álít langréttast að líta á þetta sem tapað fé; ef bankinn greiðir það aftur, má líta á það sem nýja eignaaukningu ríkisins, en í þetta skipti ætti að fella það niður eða setja aðeins aths, neðanmáls um það, hvers vegna það hefði verið fellt niður. En mér finnst, að hv. n. fari út í ógöngur með þessu móti, með því að andmæla, að þetta sé talið á eignaskýrslu, en vilja þó ekki telja þetta sem útistandandi skuld.