08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

3. mál, landsreikningar 1928

Hannes Jónsson:

Ég hefi ekki skrifað undir nál., sem hér liggur fyrir á þskj. 435, og get því ekki borið ábyrgð á því, sem þar stendur, né orðum hv. frsm. Hvort innskotsfé Landsbankans er talið með á eignareikningi eða ekki, virðist mér ekki skipta miklu máli, þegar það hefir ekki áhrif á niðurstöðuna sjálfa. Ef taka á þessa upphæð út af eignareikningi, hefi ég tilhneigingu til að líta á málið eins og hv. 1. þm. Reykv. Það skiptir ekki miklu, hvort þetta er talið eign ríkissjóðs eða ríkisbankans, sem þá stæði betur en áður. Annars mætti margt segja um sumar upphæðir, sem ekki eru minni en þetta, t. d. lán Flóaáveitunnar, sem að vísu má telja dálitla eign ennþá. Sömuleiðis hús og lóðir, sem eru reiknuð nærri 6 millj. Sé farið yfir þá liði, mun mega finna margt athugavert, ef eignareikningurinn ætti að koma út eins og rétt væri.

Það er ekki heldur þýðingarmikið að deila um útreikninginn á ensku pundunum. Ef fest væri verðgildi íslenzku peninganna, væri sjálfsagt að setja þessa liði samkv. því gildi, sem krónan hefði. En því er ekki til að dreifa.

Flestar aðrar aths. við landsreikningana eru lítilsvarðandi. Hv. 1. þm. Skagf, minntist á greiðslur til einstaklinga, ferðastyrki og þ. h. Það hefir ekki verið óalgengt, að þetta hafi farið fram yfir það, sem fjárlög ætlast til, ekki sízt árin 1920—21. Þá ætla ég, að það hafi orðið nokkuð á 2. hundr. þús. (JAJ: Utanfararstyrkir?). Já, talsvert mikið. Þetta hafa verið ýmsir menn, t. d. læknar, með þetta tvö þús. og þar undir hver. Ég held, að oft hafi verið býsna mikið af þessu, þó að dálítið sé það mismunandi.

Ég vil geta þess, af því að það hefir hvorki komið fram í nál.umr., að hæstv. stj. hefir sent fjhn. reikningsform fyrir landsreikningi, sem er talsvert gleggra en það, sem nú er notað. Sýnist mér það orð í tíma talað að breyta því. Eftir því, sem ég hefi mátt vera að athuga þetta nýja form, verð ég að segja, að mér virðist það mjög aðgengilegt. En nú er landsreikningurinn næsta óaðgengilegur, sem kunnugt er. Það er ómögulegt, nema með mikilli tímaeyðslu og erfiðismunum, að sjá í honum, hversu reksturinn hefir gengið. Mér þykir vænt um, ef ráðin verður bót á þessu, svo að reikningurinn verði skýrari en áður.