08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1599 í B-deild Alþingistíðinda. (2103)

3. mál, landsreikningar 1928

Magnús Jónsson:

Mér fannst nú ekki birta tiltakanlega yfir þessu myrka máli, þótt hv. 2. þm. G.-K. léti ljós sitt skína. Ég hefi sagt: Ef þetta er viss skuld, á að telja hana til eignar. Ef skuldin er töpuð, á að strika hana út. Eina fylgiskjalið með þessum lið, reikningur Landsbankans, hefir fellt skuldina niður með öllu. Því vil ég, að hún sé einnig felld niður af landsreikningi. Þetta finnst mér augljóst mál. — Vilji landsstj. hinsvegar sýna, að enn eigi ríkissjóður einhverja von þarna, þá eru til nógar aðferðir til þess „Innanstriks-aðferðin“ dugir bara ekki, af því að hún er hvergi tíðkanleg í bókhaldi. Ein aðferðin er sú, að skrifa skuldina niður í 1 kr., og er það líklega bezta aðferðin. Sú aðferð er algeng hjá góðum fyrirtækjum, þegar um er að ræða skuldir eins og þessa, sem að vísu eru taldar einskis virði í bili, en þó von um, að geti lagazt aftur síðar. Ef Landsbankinn vinnur sig svo upp, að hann taki að bókfæra þessa skuld aftur með einhverju verði, á að færa þá upphæð í landsreikninginn. Landsbankareikningurinn og landsreikningur verða að vera í samræmi hvor við annan, og hafi Landsbankinn leyfi til að strika þessa 1½ millj. kr. út af skuldahlið hjá sér, þá er þetta ekki lengur eign hjá ríkissjóði. (HStef: Landið á kröfuna!). Ríkissjóður á ekki framar neitt af þessu innskotsfé í Landsbankanum, þegar hann telur það tapað. Enginn reikningur, sem telur það til eignar, er réttur. Ég er enginn sérfræðingur í bókfærslu, en það veit ég, að þetta er rétt, og eins er mér kunnugt, að innan- og utanstriks-grautargerðin er hvergi tíðkanleg í bókhaldi.