29.03.1930
Neðri deild: 66. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

361. mál, fjáraukalög 1929

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég ætla ekki að deila við hv. 1. þm. Reykv. um það, hvort hátíðarnefndin eða hann einn eigi að dæma um, hvað eigi að færast á kostnað alþingishátíðarinnar. En þessar framkvæmdir, sem hann talar um þarna austur frá og segir, að ekki megi reikna þar með, hefðu ekki verið gerðar að sinni, ef það væri ekki beinlínis unnið vegna alþingishátíðarinnar. Svo er um flutninginn á Valhöll og konungshúsinu, og í sambandi við flutninginn var óhjákvæmilegt að gera vegi að nýju hússtæðunum. Sama er eiginlega að segja um veginn inn á Leirur að tjaldstaðnum. Sá vegur hefði áreiðanlega ekki verið lagður árið 1929, ef hátíðin hefði ekki staðið fyrir dyrum. Í raun og veru hafa margar fleiri framkvæmdir, sem ríkissjóður hefir greitt fé til, einnig verið gerðar vegna hátíðarinnar að meira eða minna leyti. Nýi Þingvallavegurinn er alls ekki talinn með hátíðarkostnaði, þó að hann sé gerður til að greiða samgöngur um hátíðina. Náttúrlega getur verið álitamál, í hvaða grein eigi að færa útgjöldin, en ég held fast við það, að allur þessi kostnaður á Þingvöllum sé beinlínis kominn fram vegna alþingishátíðarinnar.

Magnús Jónsson: Ég fór ekki fram á, að mér væri falið einræðisvald í málinu, heldur skaut til n., að hún yrði að rannsaka það og reyna að gefa eins rétta mynd og hægt er. Ég vil mótmæla því, að flutningur húsanna stafi beinlínis af hátíðinni. Það var alltaf samróma álit í hátíðarnefndinni, að hún gæti ekki gert hið minnsta til þess að flytja þau, enda mundu þau minna spilla útliti Þingvalla á hátíðinni en endranær vegna tjaldanna, sem þar verða hvort sem er. (Fjmrh.: Tjöldin verða ekki þar.). Ekki langt frá. Þessi flutningur hefði farið fram hvort sem var síðar, ef ekki nú. Það er n., sem sér um friðun Þingvalla, sem hefir látið gera þetta allt saman. Hæstv. ráðh. nefndi veginn inn á Leirur. Hátíðarnefndin vildi leggja hann, og það má gjarnan telja hann með hátíðarkostnaði, enda gæti ég bezt trúað, að hann væri falinn í þeim 128 þús., sem framkvæmdarstjóri hefir sett á reikning sinn. Allt öðru máli gegnir um það fé, sem ávísað hefir verið til vegamálastjóra eða til húsameistara fyrir milligöngu dómsmrh. Mosfellsheiðarveginum nýja hefir verið flýtt vegna hátíðarinnar, og svo er um margt fleira. En það verður allt eign ríkisins áfram og því er alls ekki rétt að reikna þann kostnað með útgjöldum hátíðarinnar. Mér skildist við eldhúsumr. hér um daginn, að hæstv. fjmrh. áliti rétt að telja Mosfellsheiðarveginn og fleiri framkvæmdir, sem eins stendur á um, með almennum verklegum framkvæmdum. Ég býst við, að þeir, sem fyrir hátíðinni standa, fái nógu mikil brigzl um eyðslu, þó að kostnaðurinn sé ekki gerður meiri en hann er í raun og veru. En ég vildi ekki vekja hér deilu, aðeins benda hv. fjvn. á þetta.