09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

361. mál, fjáraukalög 1929

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég hefi ekki alltaf getað fylgzt með umr. um þetta, en heyrði þó síðari hlutann af ræðu hv. 2, þm. Skagf. og vildi leiðrétta þar nokkur atriði.

Hv. þm. gerði að umtalsefni umbæturnar á Þingvöllum vegna hátíðahaldsins, og ég get náttúrlega skilið það vel, þar sem hann hefir sennilega ekki komið á Þingvöll síðan 1919, þegar Framsóknarflokkurinn hélt þar mikinn fund, að hv. þm. sé ókunnugt um þær breyt., sem gerðar voru í sumar, og sömuleiðis ókunnugt um það, hvernig stendur á þeim. En það, sem er vítavert hjá hv. þm., er það, að hann skuli vera að fjölyrða um það, sem hann veit svo lítið um. Auk þess býst ég við, að smekk hv. þm. sé þannig háttað, að hann, eins og flestir afturhaldsmenn, hafi ekki mikla tilfinningu fyrir því, hvort Þingvellir líta þannig út, að sómasamlegt sé fyrir land og þjóð, og það sérstaklega á þessum tíma, þegar búizt er við, að þangað komi um 20 þús. manna næsta vor frá mörgum löndum.

Hv. þm. vissi það ekki, eða færði það vísvitandi til verra vegar, að hátíðarnefndin ákvað, að húsin á Þingvöllum skyldu vera færð af völlunum, þar sem allir smekkmenn hafa fordæmt að hafa þau, og þar sem þau voru sett fyrir mörgum árum af þeim mönnum, sem ekki höfðu þann smekk í þjóðlegum efnum, sem menn hafa nú. Þessi hús hafa alltaf verið þar til skammar. T. d. var Valhöll svo hræðilega útlítandi, að það getur varla verið, að jafnvel hv. 2. þm. Skagf. vildi telja sæmilegt að hafa hana þar eins og hún leit út. Það er því ekkert annað en ósvífni af hv. 2. þm. Skagf. að vera að blaðra um þetta, því að stj. hefir ekki gert þetta frekar en þingið sjálft ákvað að gera fyrir tilstilli hátíðarnefndar, sem skipuð er mönnum úr öllum flokkum. — Ég get náttúrlega að nokkru afsakað hv. þm., m. a. vegna ókunnugleika hans, en því er hann þá að vaða elginn um þetta ? Hv. þm. veit líka vel, hvenær og af hverjum þessi n. er sett. Af þessu leiðir það, að þegar hátíðarnefndin hefir ákveðið, að húsin skuli vera á öðrum stað, verður að flytja þau. En það er vitanlega hátíðarkostnaður. Svo varð að setja brú yfir ána og nokkra metra af vegi. En þetta er vitanlega allt fyrir þjóðina, en ekki landsstj. sérstaklega. Ennfremur ber að líta á það, að hátíðarnefndin sem slík fær miklar tekjur af hátíðinni, svo að skiptir hundruðum þúsunda, og er það þá kannske meining hv. þm., að það eigi að lokka fjölda manna, útlendra og innlendra, óviðbúna þangað, svo að ekki sé að neinu séð fyrir nauðsynjum þeirra, aðeins til að ná í peninga fyrir ríkissjóði Nei, hv. 2. þm. Skagf. verður að fara heim og læra betur. Það er a. m. k. áreiðanlegt, að ef hv. þm. ætlar að fara að slá sparnaðarmynt á þessu, þá verður hann að koma að einum sinna flokksbræðra, hv. þm. Seyðf., sem neitaði að vera í n., nema ef lagðar væru 300 þús. kr. í nýjan veg til Þingvalla. Ég studdi þetta og öll n. með mér, og þingið hefir heimilað, að vegurinn verði lagður, til að forða slysum og manndauða í sambandi við hinn mikla þjóðflutning til og frá hátíðinni.

Hv. þm. minnist alls ekki á það, að langur vegur hefir verið lagður út á leirurnar, þangað, sem tjaldstaðurinn á að vera. Það er ekkert meiri heimild til að leggja þann veg en veginn heim að húsunum, en það er þá kannske íhaldsvegur út á leirurnar og upp í Bolabás, svo að þess vegna hefir hv. þm. ekki minnzt á það!

Þegar það er athugað, að hátíðarnefndin hefir haft mikla vinnu, haldið töluvert á annað hundrað fundi, án þess að heimta nokkuð fyrir það, þá eru a. m. k. ekki neinir persónulegir hagsmunir við það bundnir að vinna að þessu, en við höfum yfirleitt gert það með ánægju, að vinna að því að fullnægja réttlætis- og fegurðarkröfum beztu manna í landinu. og við gerum það jafnt fyrir því, þótt við vitum, að einhverjir naglar séu til, sem vilja hafa allt á Þingvöllum í eymd og niðurníðslu. Ég fyrir mitt leyti kannast við þann hugsunarhátt, sem liggur á bak við ræðu hv. 2. þm. Skagf. En það eru, sem betur fer, fleiri þm., sem hugsa nokkuð öðruvísi um Þingvelli en hv. þm. gerir.

Ég hefi þá sýnt fram á það hér, að hv. þm. veður tóman reyk í ásökunum sínum um þetta mál, og ennfremur um það, að hv þm. hyggst að vera hátíðarnefndina ómerka að sínum ráðstöfunum, sem hún er fær um að borga af tekjum hátíðahaldsins.

Þá kem ég að þessum útúrsnúningi hv. þm. um bókhaldið. — Hátíðarnefndin hefir ráðsmann, sem heitir Magnús Kjaran, annan, sem heitir Geir Zoëga, og hinn þriðja, sem heitir Guðjón Samúelsson. Þessir allir annast greiðslur fyrir n. Ég veit ekki, hvers vegna þeir tveir hinir fyrstu hafa ekki verið skammaðir af hv. þm., því að það er alveg jafnmikil ástæða til að ráðast á þá eins og Guðjón Samúelsson, en kannske þeir greiði atkv. með Íhaldinu við kosningar? En ég held, að það séu engar líkur til, að hv. 2. þm. Skagf. hafi mikla ánægju af að skammast út af því þótt húsameistari ríkisins geymi ekki allt, sem heyrir til vinnunni á Þingvöllum, í sérstökum skáp, því að það hefir aldrei fallið neinn grunur á Guðjón Samúelsson um það, að hann hnupli frá ríkinu, ekki einu sinni vöxtum, sem margir íhaldsmenn telja skyldu embættismanna.

Þá kem ég að bókhaldinu. Það er oft svo, að húsameistari hefir um tuttugu opinberar byggingar undir í einu, og þá ætlast hv. þm. auðvitað til, að hann hafi sérstakan sjóð fyrir hverja einstaka byggingu, en svo má, eftir kenningu hv. þm., heldur aldrei neitt blandast saman í hinum 20 skápum. Heldur þá hv. þm. t.d., að Geir Zoëga hafi peninga Hvammstangavegar og Skagafjarðarbrautar í sérstökum skápum? Það er annars bezt að segja það, fyrst hv. þm. er alltaf að leggja þennan starfsmann í einelti, að þegar hann teiknaði Landsbankann, að mestu leyti í sínum frítíma, þá lagði hann þá peninga, sem hann fékk fyrir það, aftur til ríkisins. Það voru um 15 þús, kr. Sú upphæð var lögð í sérstaka sparisjóðsbók og gekk í mörg ár til að greiða aðstoðarvinnu í skrifstofu hans, sem annars hefði orðið að greiða beint úr ríkissjóði. En hvað ætli hefði komið íhaldsverkfræðingi, sem vann á sama hátt, til þess? Það er þess vegna mjög seinheppilegt, að það er einn af þeim starfsmönnum ríkisins, sem bezt stendur í stöðu sinni, þegar verið er að dylgja um óráðvendni hjá honum í sambandi við það góða starf, sem hann vinnur.

Ég heyrði líka, að hv. þm. var mjög óánægður yfir því, að stj. lét setja dúka á steingólfin í Laugaskólanum. En mér er alveg sama, hvað hv. þm. segir um það, því að þegar um menntastöfnun er að ræða með um 60 nemendur, og þegar það er vottað, að þeim stafi hætta fyrir líf og heilsu af þessari vöntun á húsinu, og vantar fé til að ráða bót á henni, þá hleypur stj. undir bagga, sem hefði alveg eins verið gert, þó að sú stofnun hefði staðið í kjördæmi hv. þm. Það eru t. d. margar upphæðir, bæði fyrr og síðar, sem stj. hefir varið til Blönduósskólans, sem þó á að heita einkafyrirtæki.