09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

361. mál, fjáraukalög 1929

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. frsm. gerði ýmsar smávegis aths. við þetta frv. Ég ætla ekki að deila neitt við hv. þm. um þær aths., sem hann hefir gert. Ég geri ráð fyrir því, að sumar þeirra hafi að einhverju leyti verið á rökum byggðar.

Hv. þm. minntist fyrst á aðgerðina á húsinu í Kirkjustræti, sem er eign ríkissjóðs, og talaði svo, sem aðgerðin hefði orðið óeðlilega dýr. Ég minnist á þetta vegna þess, að þetta er eingöngu mín ráðstöfun, að gert var við þetta hús. Það stóð svo á, þegar hinn nýi dyravörður kom hér að háskólanum, að hann átti að fá íbúð hjá ríkissjóði. Hann taldi íbúðina ekki forsvaranlega og að það yrði að leggja sér til húsnæði úti í bæ og ríkissjóður yrði að greiða húsaleiguna. Þetta reyndist á rökum byggt, því að húsameistari skoðaði íbúðina og taldi hana óboðlega og mikla þörf á að gera við húsið. Hann gerði áætlun og hafði umsjón alla, eftir minni beiðni. Hvort þessi viðgerð hefir orðið óhæfilega dýr, skal ég ekki segja neitt um; til þess brestur mig sérþekkingu. Ég veit ekki til, að fjvn. hafi skoðað húsið eða kynnt sér, hve mikið hefir verið gert við það, og mér er heldur ekki kunnugt um það, að hún hafi sent „fag“-fróðan mann til að skoða það. En ef svo er ekki, þá finnst mér mjög hæpið fyrir hv. fjvn. að slá því föstu, að þessi aðgerð sé óhæfilega dýr. En það er líklega svo um allar húsaviðgerðir f Reykjavík, að þær séu nokkuð dýrar, eftir því sem hljóðið í mönnum er um það.

Þá minntist hv. þm. líka á 5. liðinn í 6. gr., sem er styrkur handa glímumönnum, sem fóru til Þýzkalands í fyrra. Þann styrk hefi ég líka veitt upp á mitt eindæmi, og þess vegna skal ég aðeins segja frá því, að þessi hópur glímumanna átti mjög erfitt uppdráttar fjárhagslega með sitt ferðalag, sem varð þeim miklu dýrara en þeir bjuggust við. Þegar þeir komu hingað heim aftur, höfðu þeir orðið að taka bráðabirgðalán í Þýzkalandi, til þess að komast heim, en sómi þeirra var í veði, að ekki stæði á greiðslu. Þeir höfðu engin efni til að borga með, þegar hingað kom, en hinsvegar höfðu þeir gert landinu mikinn sóma og vakið athygli á þessari íþrótt. Þess vegna taldi ég rétt að veita þennan styrk, svo ég skal gjarnan taka á móti ákúrum fyrir það, en ég taldi, að þetta væri nauðsyn, bæði vegna sóma landsins og sóma þeirra.

Þá minntist hv. frsm. á 9. gr. og ýmislegt því viðvíkjandi og þær brtt., sem hv. n. flytur við þá gr. — Það er nú svo um þessar aðgerðir á Þingvöllum og þessa alþingishátíð, sem fyrirhuguð er, að það er eins og flestir vilji að nokkru leyti afneita þeim kostnaði, sem af henni hefir stafað og mun stafa. Það er eins og þeir vilji telja, að þetta eða hitt komi sér ekki við. En ég vil aðeins slá því föstu, að þær aðgerðir, sem fram hafa farið á Þingvöllum árið sem leið, hafa allar að meira eða minna leyti verið gerðar vegna alþingishátíðarinnar. Um hitt skal ég ekki deila, á hvaða liði þær verða færðar, en það vita allir, að þessar aðgerðir á Þingvöllum hefðu ekki verið gerðar, ef alþingishátíðin hefði ekki verið í aðsigi; það er fyrir mér aðalatriðið, en ekki það, þótt Pétur eða Páll séu að togast á um það, að þetta sé ekki sér að kenna. Það er aukaatriði, því að ríkissjóður borgar allt að lokum. Ég mun þess vegna engar aths. gera við þær brtt., sem hv. n. flytur; mér liggur það í léttu rúmi um þessar færslur, sem heyra til alþingishátíðinni og þeim kostnaði, sem verður að stofna til á Þingvöllum. Ég sé ekki ástæðu til að fara nákvæmar út í ræðu hv. frsm. Býst við, að okkur beri í raun og veru ekkert á milli, þegar öllu er á botninn hvolft. — Ræðu hv. 2. þm. Skagf. sé ég ekki ástæðu til að svara.