03.04.1930
Efri deild: 68. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

1. mál, fjárlög 1931

Fors- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 4. landsk. gerði nú frekari grein fyrir eldamennsku sinni og aðfinnslum í garð stj. Og nú tók hann sér fyrir hendur með tilvitnunum í þingtíðindin að benda á, hvaða stórmál það væru frá jafnaðarmönnum, sem landsstj. hefði sýnt ósanngirni og fjandskap. Og voru það 12 stórmál, sem hann nefndi. Ég mun gera nokkrar athugasemdir við þau hvert fyrir sig.

1. Einkasala á tóbaki. Það mál hefir nú verið í mþn. í skattamálum, og hafa fulltrúar Framsóknarfl. og jafnaðarmanna í n. flutt frv. um það, sem nú er á leiðinni gegnum þingið. Þetta er ekkert stefnumál, aðeins ákveðin aðferð til þess að afla ríkissjóði tekna.

2. Einkasala á lyfjum. Einn af læknum landsins hefir skrifað um það mál myndarlega grein. Og liggur nú fyrir, hvort það eigi að skipulagsbinda lyfjaverzlunina eins og þessi læknir heldur fram og eftir hans bendingum. Mér er ekki ljóst, hvern fjandskap stj. hefir sýnt þessu máli.

3. Veðlánasjóður sjómanna. Þetta mál er nú verið að leysa í Nd. með atbeina allra flokka, og vona ég, að eins verði gert í þessari d. Á þessu þingi hafa verið afgr. lög um Útvegsbanka Íslands og þar hefir verið búið um Fiskiveiðasjóðinir á þann hátt, sem jafnaðarmenn í Nd. voru ánægðir með.

4. Fátækraflutningur. Það mál veldur engum ágreiningi á milli flokka, og stendur ekki á Framsóknarflokknum að kippa því í lag.

5. Forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna að hafnarmannvirkjum o. fl. — Frv. um það mál var samþ. á síðasta þingi í þessari hv. þd. Annars held ég, að það sé ekkert stórmál, og gerir því ekki mikið til, þó að það dragist um stund. Ég hefi ekki kynnt mér það sérstaklega. En komi fyrir einhver sérstök tilfelli, þar sem nauðsyn væri að ná hafnarmannvirkjum undir opinber yfirráð, þá er enginn vafi á, að það fæst samþ. heimild fyrir því á Alþingi.

6. Rýmkun kosningarréttarins. — Frv. um það mál var flutt af ríkisstj. á síðasta Alþingi og gert að lögum.

7. Útlánadeild fyrir smábýli, sem hv. 4. landsk. flutti frv. um. Hann undraðist það, að Framsóknarflokkurinn skyldi ekki fylgja því. Við í Framsóknarflokknum litum svo á, að við hefðum fagmenn í búvísindum, eigi síðri en hv. 4. landsk., til þess að undirbúa það mál og semja frv. um það. Og þetta er ekkert flokksmál. En ég vil minna hv. 4. landsk. á það, að þegar hann ber þetta fram sem þingfulltrúi jafnaðarmanna, þá er hann í andstöðu við flokksbróður sinn í Nd., hv. þm. Ísaf. Sá hv. þm. flutti langa ræðu um það í Nd. og réðist á Framsóknarflokkinn fyrir starfsemi hans að fjölgun smábýla og taldi það ranga stefnu og gagnstæða þeirri þróun, sem nú væri að ryðja sér til rúms. Hv. þm. hélt því fram, að það ætti að reisa stórbýli — nokkurskonar herragarða — og þjóðnýta þau. Hv. 4. landsk. hlýtur því að hafa flutt þetta frv. sitt í óþökk við flokksbróður sinn, hv. þm. Ísaf. En hvor þeirra hefir meira fylgi í Alþýðuflokknum fyrir sinni skoðun í þessu efni, er mér ekki kunnugt. Hinsvegar er ég sammála hv. 4. landsk. um, að sjálfsagt sé að fjölga sjálfstæðum býlum. Þó að stefna hv. þm. Ísaf. í býlamálinu kunni að eiga vel við í stærri og frjósamari löndum, þar sem iðnaður er rekinn samhliða landbúnaði, þá á þetta ekki við íslenzkan landbúnað. Og flokksbræður. hv. þm. í Danmörku eru mótfallnir hans hugmyndum. Þeir hafa bútað herragarðana niður í smábýli.

8. Bann gegn næturvinnu. Það sýnist nú vera að koma í ljós, að óþarfi sé að tefja þingið með því að setja lög um það mál, því að í Hafnarfirði og Rvík mun vera komið á samkomulag milli hlutaðeigenda um að framkvæma þetta.

9. Reikningsskil hlutafélaga. Um það mál er nú á leiðinni myndarleg löggjöf.

10. Atvinnuleysis- og alþýðutryggingar. Tryggingamálin liggja nú yfirleitt fyrir til undirbúnings. Stj. gat ekki fengið sérfróðan mann til þess að vinna að því fyrr en síðastliðið haust. Nú er hann að undirbúa þessa löggjöf á sviði tryggingarmálanna, en það er mjög vandasamt í þjóðfélagi, þar sem enginn grundvöllur er áður í þessum efnum. Og svo segir hv. 4. landsk., að stj. og flokkur hennar hafi lagzt fast á móti þessum málum. En ég hefi nú sýnt ljóslega fram á, að sumpart er búið að afgreiða þessi mál í lagaformi eða undirbúa þau til þess, en sumpart eru þau svo smávægileg, að það sýnist ekki vera mikið, sem hv. 4. landsk. hefir um að sakast fyrir hönd síns flokks. Hv. 4. landsk. sagði, að jafnaðarmenn hefðu stutt mörg landbúnaðarmál, og skal ég viðurkenna það fullkomlega, hvar sem er. Ég er þeim þakklátur fyrir þann stuðning, sem þeir hafa veitt til þess að koma fram ýmsum landbúnaðarmálum, sem hefðu strandað að öðrum kosti, ef stuðnings þeirra hefði ekki notið við.

Þess vegna er samvinna á milli framsóknar- og jafnaðarmanna um að styðja hvorir aðra til að hrinda fram málum, að hvorugir hafa nægilegan liðstyrk til þess út af fyrir sig. Framsóknarflokkurinn hefir stutt þá til þess að koma fram mannréttindamálum o. fl. — Auk þess hefir Framsóknarflokkurinn stutt ýms stórmál fyrir sjómenn og kaupstaðabúa.

Síðast nefndi hv. 4. landsk. afarþýðingarmikið mál sem dæmi þess, hvað fjandskapur Framsóknarflokksins væri ríkjandi gegn kröfum jafnaðarmanna, þegar hann felldi hér í hv. þd. frv. um bæjarstjóra á Siglufirði. Í þessum kaupstað er sérstakur lögreglustjóri skipaður af ríkinu, sem hefir haft á hendi framkvæmd bæjarmála og búið vel að bæjarfélaginu. Þar er og nýlega búið, af ríkisins hálfu, að reisa stofnun eða fyrirtæki fyrir á 2. millj. kr. til hagsbóta fyrir bæjarfélagið. — Annað eins smáræði og þetta bæjarstjóramál á Siglufirði sýnir bezt, hvað lítilfjörlegt það er, sem jafnaðarmenn hafa til, þess að ásaka stj. og Framsóknarflokkinn fyrir gagnvart sér og sínum málum.

Ég álít, að þessi síðari ræða hv. 4. landsk. hafi sýnt það fremur en sú fyrri, hvað hin sterku orð hv. þm. eiga við lítilfjörleg rök að styðjast.

Þá kem ég að einstökum atriðum í ræðu hv. 4. landsk. Hann vék aftur að hinum sorglegu mistökum á vegagerðinni yfir Ferjukotssíkið. Það verður aldrei of mikið gert úr þeirri sorgarsögu, og þyrfti vitanlega að gera varanlega bót á því fyrirtæki. Hv. þm. vildi skora á stj. að breyta til um vegarstæðið yfir síkið. Við erum nú sennilega álíka fróðir um vegamálin, og ég held, að ef hann væri ráðh., þá myndi hann hugsa sig tvisvar um áður en hann ákvæði að byggja veginn upp á nýjum stað með geysilegum kostnaði, og án þess að vita fyrirfram, hvort það bæri betri árangur. Á þessum gamla vegi er þó ný brú o. fl., sem eftir stendur, og miklu fé hefir verið kostað til. Ég treysti mér ekki til þess að gefa út fyrirskipun um að varpa þessu burtu og leggja í veg á öðrum stað. Ég hefi talað við ýmsa verkfróða menn um þetta, og þeir hafa ekki ráðlagt að yfirgefa gamla vegarstæðið, ef það yrði gert, þá myndi hinn nýi stofnkostnaðar verða svo stórkostlega mikill. Ef nú hefði verið mögulegt að taka byrjunarákvörðun um vegalagninguna, þá hefði ég ekki tekið þessa ákvörðun, og ef við hefðum fyrir yfirnáttúrlega opinberun getað fengið að vita fyrir fram, hvernig vegarstæðið myndi reynast.

Þá minntist hv. 4. landsk. á vatnsveituna á Hvammstanga. Ég hefi ekki náð í vegamálastjóra í síma síðan hv. þm. flutti fyrri ræðu sína. En það mun vera líkt háttað um þekkingu okkar hv. 4. landsk. á þessu stóra máli. En ég hefi þó fengið þær upplýsingar frá kunnugum manni, að á næstkomandi sumri á að mæla fyrir vegi á vestanverðu Vatnsnesi, og þá getur sá maður, sem það gerir, einnig mælt fyrir vatnsveitunni á Hvammstanga. Ég vil skjóta því hér inn i, að það mun engin kvörtun hafa komið frá Hvammstanga, hvorki til mín eða hv þm., út af því, að þessi framkvæmd hefir dregizt, annars hefði hv. þm. getið um það.

Þá talaði hv. þm. um ólagið á bæjarsímanum hér í Reykjavík, og þótti afgreiðslustúlkur vera of fáar. Ég hefi talað um þetta við stöðvarstjóra bæjarsimans, og fékk staðfestingu fyrir því, sem ég gat um áður, að það væri ekki hægt að fjölga stúlkum á stöðinni vegna plássleysis, og að fleiri kæmust ekki að afgreiðslu en þar eru nú. Þar er ekki rúm til að afgreiða fleiri en 2400 nr., en símapantanir eru orðnar miklu fleiri, og af því leiðir, að fleiri en einn notandi eru um mörg einstök númer. Hver stúlka þarf því að svara fleiri upphringingum fyrir hvert símanúmer, sem margir eru um. Þetta stafar ekki af sparnaði, heldur af því að fleiri stúlkur komast ekki að starfi á stöðinni. Annars vona ég, að þetta standi ekki lengi, því að nú er búið að grafa fyrir grunni nýju simastöðvarinnar, og verður unnið að henni með fullum hraða.