14.02.1930
Neðri deild: 25. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Eins og grg. frv. ber með sér, þá er það flutt að ósk hæstv. atvmrh. og samið í samráði við bankastjóra Landsbankans. En þeir telja það nauðsynlegt, að ríkið veiti ábyrgð fyrir allt að einnar millj. króna rekstrarláni til útgerðar á meðan Íslandsbanki er lokaður. Þetta frv. kemur ekkert við endanlegri lausn Íslandsbankamálsins. Það miðar aðeins til þess, að sú útgerð, sem Íslandsbanki hefir aðallega staðið að, þurfi ekki að stöðvast. Ég hygg, að allir séu sammála um að greiða fyrir útgerðinni og lofi þessu frv. að ganga mótspyrnulaust í gegnum þingið. Hitt kann einhver að segja, að Landsbankinn gæti lánað til þessarar útgerðar án sérstakrar ríkisábyrgðar; um það skal ég ekki þrátta. En úr því að Landsbankinn setur þetta skilyrði fyrir lánveitingunni, er rétt að þingið hafi vitið meira og gangi að því. Landsbankastjórarnir telja þetta skilyrði um ábyrgð ríkissjóðs á einnar millj. kr. láni nauðsynlegt á meðan verið er að koma útgerðinni af stað, þangað til sá afli, sem bankinn fær að veði, er kominn á land. En ríkissjóður nýtur aftur þeirra trygginga, sem bankinn fær í aflanum.

Þessi orð læt ég fylgja frv. og vona, að það fái greiðan gang gegnum þingið.