14.02.1930
Neðri deild: 25. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (2156)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Ólafur Thors:

Ég á sæti í sjútvn., en er þó ekki meðflm. að þessu frv. Þess vegna vil ég gera grein fyrir afstöðu minni.

Hér er farið fram á, að ríkissjóður taki á sig ábyrgð, allt að 1 millj. kr., á töpum, sem leiða kann af lánveitingum Landsbankans til atvinnufyrirtækja, sem rekin hafa verið með lánum úr Íslandsbanka. Tilgangurinn er sá, að í byrjun verði rekstrarlán veitt til þessara fyrirtækja, gegn veði í afla, sem enn er í sjónum. En síðan veitir Landsbankinn framhaldslán gegn veði í afla, sem kominn er á land. Áhætta ríkissjóðs er auðvitað áhættan af þessum viðskiptum, en hún getur þó aldrei orðið meiri en 1 millj. kr. Málið liggur þannig fyrir, að hæstv. forsrh. og sócialistarnir hér í d. hafa áður margljóst því yfir, að Landsbankinn væri reiðubúinn til að taka að sér rekstur þeirra fyrirtækja, sem lífvænleg væru, af viðskiptaaðilum Íslandsbanka, án þess að þyrfti að koma til kasta ríkisins. Og þar sem nú ekki virðist vera sýnileg áhætta af þessum lánum, þykir mér lítil ástæða fyrir Landsbankann að fara fram á þessa ábyrgð, því fremur sem ríkissjóður ber ábyrgð á öllum viðskiptum Landsbankans yfirleitt. Þó að greint sé á milli heildarábyrgðar ríkissjóðs á bankanum og þessarar sérstöku ábyrgðar, þá virðist hún í eðli sínu óþörf og engin ástæða til að binda ríkissjóði þennan bagga. Ef það á strax að binda ríkissjóði slíka bagga að ástæðulausu, hvað mun þá verða síðar í þessum málum?

Með frv. þessu er borin fram fyrsta ríkisábyrgðin, sem stj. fer fram á vegna lokunar Íslandsbanka, en það verður áreiðanlega ekki sú síðasta, ef bankanum er nú lokað að fullu. Ég er sannfærður um, að þeir valdhafar, sem telja sig ekki geta komizt af án þessarar ábyrgðar, þeir komast áreiðanlega ekki framhjá stærri ábyrgðum síðar. Það er gott, að það kemur nú þegar í ljós, að ríkissjóður kemst ekki hjá að taka á sig ríflegar ábyrgðir, ef bankanum verður lokað til fulls.

Ég hefi ekki viljað flytja þetta frv., en fyrst valdhafarnir eru nú búnir að stofna bankamálunum í þetta öngþveiti, þá treysti ég mér ekki til að standa á móti því, að lánsfé verði beint til atvinnuveganna. Það er ekki á mínu valdi að velja leiðir til slíkra bjargráða; um þær úrlausnir verða valdhafarnir að ákveða. Í þessu tilfelli mun ríkisábyrgð með öllu óþörf, og hygg ég, að betra væri að geyma ábyrgðargetu ríkissjóðs þangað til síðar. Ég mun leggja ábyrgðina af þessum málum á herðar valdhafanna.