14.02.1930
Neðri deild: 25. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Jóhann Jósefsson:

Frv. þetta er flutt af meiri hl. sjútvn. fyrir tilmæli hæstv. atvmrh., til að bæta úr þörf nokkurs hluta þeirra manna, sem hafa orðið fyrir barðinu á þeim afleiðingum, sem orðið hafa af stöðvun Íslandsbanka.

Sú leið, að Landsbankinn fái ríkisábyrgð á þeim lánum, sem Íslandsbanki hefir orðið að veita án nokkurrar slíkrar ábyrgðar, er mér ekki geðfelld, en þar sem útvegurinn er kominn í öngþveiti, sé ég ekki annað en að mér sé skylt að vera með þeirri aðferð. Þeir, sem ekki geta komið skipunum af stað, þeir, sem ekki geta greitt lögboðin gjöld, þeir, sem geta ekki fengið vinnulaun sín greidd, og þeir, sem ekki geta séð fyrir afkomu sinni og sinna, hafa ekki ástæður til að deila um það, hvernig styrkurinn er veittur.

Mér hefir ekki dulizt, að margt hefir verið satt og rétt sagt af þeim hv. þm., sem talað hafa, en á vissum tímum, eins og t. d. þegar ófriður geisar, verða menn að grípa til neyðarráðstafana, og nauðsynin ein knýr mig til að sætta mig við þá leið, sem hér er farin, þótt mér hinsvegar virðist hún mjög óeðlileg.