14.02.1930
Neðri deild: 25. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (2161)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Sigurður Eggerz:

Ég mun leyfa mér að halda mér við það frv., sem hér liggur fyrir, og fara ekki inn á Íslandsbankamálið. Þó vil ég aðeins geta þess, að hv. 2. þm. Reykv. sagði, að þessari kreppu myndi hafa verið afstýrt, ef farið hefði verið að till. jafnaðarmanna, en ég fæ ekki skilið, hvernig það hefði mátt verða, þar sem hið hágöfuga mark jafnaðarmanna var að vinna að því af öllu afli að drepa bankann og leggja atvinnulífið í auðn. Ég vil taka það fram, að í þessu frv. er brotin ein af þeim meginreglum, sem ég hefi alltaf viljað fylgja, og hún er sú, að leggja ekki áhættuna af þessum atvinnuvegi á ríkissjóðinn, en þar sem hér eru svo mikil vandræði á ferðinni, sé ég mér þrátt fyrir allt ekki fært að standa gegn þessu frv. með atkv. mínu. Hinsvegar er það einkennilegt, að Landsbankinn skuli ekki vilja veita þessi lán án ábyrgðar ríkisins. Landsbankinn ætti sannarlega að treysta sér að meta, hvort þau lán, sem hann veitti í þessu skyni, væru trygg. Öllum hlaut að vera ljóst, að þegar stöðvaður er banki, sem hefir haft 300–400 millj. umsetningu, þá hlýtur sá banki, sem við þessu á að taka, að verða þess allmjög var. En ef Landsbankinn ætlar að heimta ríkissjóðstryggingu fyrir öllum þeim viðskiptum, sem hann tekur við af Íslandsbanka, þá fer að verða lítið um stóru orðin, að Landsbankinn geti tekið við öllu. Það sýnist þá vera ríkissjóður, en ekki Landsbankinn, sem tekur áhættuna á sínar herðar.

Ég bjóst við, að hjálp myndi nauðsynleg á öðru sviði, það er að segja, að bankann skorti fé til alls þessa rekstrar og þar yrði að hlaupa undir bagga. Ég hefi skýrt frá því, að Íslandsbanki lánaði 6 millj. til útgerðarinnar síðasta ár, og þar af voru 3 milljónir ekki frá Landsbankanum. en auk þess eru ýms stór verzlunarhús, sem Landsbankinn verður að taka við og veita lán. En sannarlega má ekki fara inn á þá braut, að ríkissjóður taki ábyrgð á öllum lánum Landsbankans á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv. En úr því að stj. Landsbankans gerir þetta að skilyrði, og vill ekki að öðrum kosti bjarga útvegnum, þá sé ég ekki, að hjá því verði komizt að greiða atkv. með þessu frv.

Þegar nú ríkissjóður er leiddur út á þessa nýju ábyrgðarbraut fyrir Landsbankann, auk hinna almennu ábyrgða, sem ríkssjóður er f fyrir þennan banka, þá ætti nú flestum að verða ljóst, hve mikið skynsamlegra væri að endurreisa Íslandsbanka. Leitast við að ná samkomulagi við Hambro og Privatbankann og veita bankanum í einhverri mynd þá aðstoð, sem hann vantar.

Ég hefði búizt við því, að Landsbankinn þyrfti að fá meira fé, ef hann á að halda áfram með eigin viðskipti og svo hin í viðbót.

Þegar á sínum tíma var verið að gera björgunarráðstafanir fyrir Landsbankann, þá vildi ég láta útvega honum nægilegt starfsfé, þannig að hann gæti staðið á eigin beinum, og það hefði verið rétt leið í málinu. Í stað þess að gera þetta, þá var tekin ábyrgð á Landsbankanum, og þá var reynt að leyna fyrir þinginu, hvernig allur hagur bankans væri. Þau voru spöruð föstu tökin þá.