14.02.1930
Neðri deild: 25. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Hákon Kristófersson:

Ég var fjarverandi samkv. leyfi hæstv. forseta og vissi því ekki um þennan aukafund, né hvaða mál ætti að taka til umr. Nú hefi ég að vísu séð frv. þetta, er meiri hl. sjútvn. hefir borið fram, en ekki heyrt umr. þær, er fram hafa farið. Ég verð nú samt að segja það, að ég get ekki séð, hvaða nauðsyn liggur að baki þessu frv. Ég veit ekki betur en hæstv. forsrh. hafi lýst því afdráttarlaust yfir, að sú truflun atvinnulífsins, sem lokun Íslandsbanka myndi hafa í för með sér, myndi verða löguð, og vil ekki að svo stöddu væna hæstv. stj. um það, að hún hafi farið með staðlausa stafi og ekki gert sér neina grein fyrir því, hversu slíkum atvinnutruflunum yrði afstýrt. Ég þarf ekki að taka það fram, að öll lán og skuldabréf, sem Landsbankinn kann að veita í þessu eða öðru skyni, eru tryggð bankanum með ríkisábyrgð. Þess vegna verð ég að taka undir með hv. þm. Dal., að hér er aðeins um að ræða yfirfærslur á ábyrgð. Því hefir verið haldið fram, að ískyggilegt væri að taka ábyrgð á Íslandsbanka, en með þessari nýju ríkisábyrgð á Landsbankanum er í raun og veru tekin ábyrgð á áhættuviðskiptum Íslandsbanka, sem nú flytjast yfir í Landsbankann. Úr því að Landsbankinn treystir sér ekki til að reka þessi viðskipti án tilstyrks og ábyrgðar ríkisins, þá fer það að vera skiljanlegt, þótt fjárhagur Íslandsbanka hafi ekki verið sem glæsilegastur, sem algerlega á eigin spýtur og án fulltingis hins opinbera hefir rekið þessi viðskipti. Enda þótt ég sé hlynntur sjávarútvegi, býst ég þó við að greiða atkv. gegn þessu frv., vegna þess að ég álít, að Landsbankinn hafi þegar í hendi sér nægileg skilyrði til þess að geta séð þessum fyrirtækjum fyrir rekstrarfé.

Um það ákvæði frv., að lánin megi ekki fara fram úr tiltekinni upphæð hvert, þá veit ég ekki almennilega, hvað ég á að segja. Er það svo að skilja, að ekki sé fullt traust berandi til Landsbankastjóranna um það, að þeir ráðstafi þessu fé á allan hátt sem skynsamlegast. Ég hefi hingað til haldið, að bankastjórnin hefði nokkurnveginn óskoraðan rétt til þess að ráða yfir þessum hlutum, en með þessu skilst mér, að verið sé að lögfesta takmarkanir á þeim rétti.

Ég vil svo að endingu biðja menn að athuga það, að afstaða mín til þessa frv. er enganveginn sprottin af andúð til þeirra fyrirtækja, sem hér eiga af að njóta, og ekki heldur af illvilja í garð stj., heldur einungis af því, að ég tel slíkt frv. öldungis óþarft vegna gildandi lagafyrirmæla, sem þegar eru fyrir hendi.