14.02.1930
Neðri deild: 25. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Héðinn Valdimarsson:

Ég stend aðeins upp til þess að mótmæla þeirri staðhæfingu hv. frsm., að ef bú Íslandsbanka hefði verið tekið strax til skipta og fengið skiptanefnd í hendur, þá hefði eigi að síður þurft að grípa til slíkrar ábyrgðar, sem þetta frv. ræðir um. Þetta er mesta fjarstæða, því að skilanefnd hefði orðið að hleypa nýju fé fram fyrir gamlar skuldir til þess að atvinnufyrirtæki þau, sem heilbrigð eru, gætu starfað áfram yfir vertíðina. Hinsvegar hefði skilanefndin reynt að ná inn eins miklu af útistandandi skuldum bankans og tök voru á. en að svo miklu leyti sem það hefði ekki hrokkið til, myndi hún hafa útvegað fyrirtækjunum lán úr Landsbankanum, sumpart út á innleignir þeirra í Íslandsbanka og sumpart út á afla, eins og venja er til. Þetta frv. hefði því aldrei þurft að koma fram, ef slíkur dráttur hefði ekki orðið á endanlegri úrlausn Íslandsbankamálsins.

Hv. þm. Barð. og fleiri hafa reynt að halda því fram, að þar sem ríkið stæði þegar í ábyrgð fyrir Landsbankann, þá væri slík ábyrgð, sem frv. þetta ræðir um, allsendis óþörf. Þetta er að vísu rétt, að ríkið ber endanlega ábyrgð á bankanum, en ábyrgð sú, sem frv. gerir ráð fyrir, er einungis tímabundin og takmörkuð, og að því leyti allt annars eðlis. Tapi bankinn fé á þessum lánum, fær hann það endurgreitt frá ríkinu og getur starfað áfram. En lánaði bankinn án sérstakrar ríkisábyrgðar, mundi féð varla fást aftur hjá ríkissjóði, ef töp yrðu, nema því aðeins, að bankinn þyldi ekki blóðtökuna.

Ég vil svo ekki lengja umr., en aðeins skjóta því fram, að mér virðist dálítið einkennileg framkoma þeirra hv. þm., sem bezt fylgdu því fram, að ríkið tæki á sig ótakmarkaða ábyrgð á Íslandsbanka, að þeir sömu menn skuli nú rísa öndverðir gegn því, að ríkið gangi í takmarkaða ábyrgð til þess að halda framleiðslunni gangandi yfir vertíðina.