14.02.1930
Neðri deild: 25. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1632 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það hefir komið fram í umr., að orsök frv. sé sú, að dráttur hefir orðið á afgreiðslu Íslandsbankamálsins, en úr því, sem komið er, er ekki annars kostur en að Landsbankinn taki að sér viðskiptin, annaðhvort á eigin ábyrgð eða þá ríkissjóðs um stundarsakir.

Hvernig sem bankamálið kann að fara, þá getur hvorki skilanefndin eða væntanleg bankastjórn, sem sett verður, gefið eftir þær tryggingar, sem Íslandsbanki hefir. Landsbankinn getur aldrei fengið betri veðrétt í eignum þeim, sem veðsettar eru Íslandsbanka, en þann næsta á eftir. Nýr banki hefði auk þess aldrei komizt svo fljótt á laggirnar, að Landsbankinn hefði ekki þurft að grípa inn, a. m. k. um stundarsakir. Það hefði því verið sama að því er þetta mál snertir, hvernig Alþingi hefði afgr. bankamálið. Landsbankinn hefði alltaf orðið að koma til hjálpar, enda hefir því jafnvel verið lýst yfir, að hann væri reiðubúinn til þess að taka öllum afleiðingum þess, sem koma verður. Íslandsbankamálið er nú undir frekari rannsókn og athugun, svo sem sjálfsagt var, og er að því leyti á réttri braut. Og þótt þetta frv. sé fram komið vegna þess dráttar, sem orðið hefir á endanlegri afgreiðslu þessa máls, þá afsannar það í engu réttmæti þessa frv.

Íslandsbankamálið er nú á því stigi, sem nauðsynlegt er, áður en lengra er farið. Ef Alþingi hefði afgr. málið án þess að athuga, hverjir endurreisnarmöguleikar væru fyrir hendi, þá hefði slík afgreiðsla verið þinginu til minnkunar og til tjóns þeim, sem hagsmuna eiga að gæta í sambandi við afdrif Íslandsbanka.