14.02.1930
Neðri deild: 25. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1637 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 2. þm. Reykv. vildi enn halda því fram, að sú hjálp, sem skilanefnd hefði veitt hlutaðeigandi útgerðarfyrirtækjum, myndi hafa nægt. Ég tel ákaflega vafasamt, eða jafnvel óhugsandi, að slík hjálp hefði dugað, nema ríkið eða Landsbankinn hefði lagt fram áhættufé fyrst í stað. Annars skal ég ekki deila um þetta við hv. þm., en vil nota tækifærið til þess að leiðrétta þann misskilning, að Landsbankinn sé nokkuð bundinn af hámarksákvæði frv., að öðru leyti en því, að ekki skal lána út á hvert skippund meira en venja er til, en ef bankinn gerir það, ber hann sjálfur hallann af því, sem fram yfir er. En þetta skerðir vitanlega í engu vald og forræði bankans í þessum málum, þótt ríkið setji þessi takmörk fyrir ábyrgð sinni á þessum lánveitingum.