14.02.1930
Neðri deild: 25. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Hákon Kristófersson:

Það var ekki af neinni andúð til þeirra manna, sem sýnist eiga að hjálpa, sem ég mælti þessi fáu orð áðan. En eins og ég tók þá fram, álít ég, eins og svo margir aðrir, að hjálp til þeirra sé nauðsynleg og að stj. Landsbankans hafi það þegar í hendi sér, ef hún vill svo vera láta.

Hv. þm. Borgf. sagði, að sér þætti ekki undarlegt, þótt þetta frv. væri fram komið. Ég get ekki tekið undir þetta með hv. þm. Mér þykir það í mesta máta undarlegt. Hinsvegar skal ég fúslega taka undir þau ummæli hans, að viðburðanna rás, sem hefir farið fram hér undanfarna daga, dró það með sér, að eitthvað meira þarf að gera en að skera niður Íslandsbanka. En annars er líklegt, að um það verði búið, að ekki verði röskun á þeim viðskiptasamböndum, sem verið hafa í landinu, og þeirri nauðsynlegu framleiðslu, sem verið hefir undanfarin ár og er vitanlega að nokkru leyti stofnað til aftur á þessu ári.

Um það atriði, hvort ábyrgðin flytjist yfir til Íslandsbanka eða ekki, verð ég að segja það, að þótt þessi spurning sé eðlileg, þá held ég, að hægt sé að svara henni því, að maður býst ekki við, að það komi til, því að „svo eru net úr garði gerð“, að ekki er líklegt, að Íslandsbanki þurfi að taka við þessum lánum. Hinsvegar, ef það kynni að verða, þá er það eðlileg afleiðing frv., og það var einmitt það, sem ég skildi ekki áðan, hvers vegna verið væri að binda hendur Landsbankastj. um lán. Þegar hún afhendir Íslandsbanka þau, þá gæti hún um leið þvegið hendur sínar, ef það orð má nota, að hún segi: það er með sömu hlutföllum og Íslandsbanki hefir áður gert. Hæstv. forsrh. sagði, að bankinn heimtaði þetta, en ég verð að taka undir þau ummæli hv. þm. Borgf., að við höfum alltaf skilið svo orð hæstv. forsrh. fyrir ekki löngu síðan, að það væri frá þessum hnútum gengið og að þeir myndu fullhertir, en nú sýnist dálítið los á vera, og Landsbankastj. virðist sem sagt, eftir þessu frv., engu hafa lofað, því að tildurloforð og kurteislegar undirtektir hjálpa engum. Ég býst við, að hæstv. ráðh. hefði getað haft þetta mál alveg í hendi sinni og með sínum gagnorðu bendingum fengið stj.

Landsbankans til að samþ. að lána þessum fyrirtækjum án þess að hin nýja ábyrgð kæmi til. Það er ekki af neinum ugg í mér gagnvart þessu, að ég tala svo, heldur af því, að það er gengið inn á alveg óvenjulega braut, sérstaklega þegar á það er litið, að þessi stofnun er svo tryggilega ábyrgð frá ríkinu sem mest má verða. Og um leið og ég lýsi yfir því, að ég býst við, að Landsbankinn geri sitt ítrasta til að hjálpa þeim mönnum, sem frv. þetta á sérstaklega við, lýsi ég einnig yfir því, að ég vil ekki beygja mig undir álit hv. meiri hl. hvað þetta frv. snertir. Ég býst við, að frv. gangi fram, en ég vil engan þátt eiga í því; þeir, sem hafa úrræðin í hendi sér, hafa einnig þá skyldu að ráða fram úr slíku máli sem þessu, án þess að vera nokkuð að leita fyrir sér um aðstoð okkar minnihl.manna, og hvernig sem skoðun okkar er, höfum við vitanlega engan mátt til að koma henni fram.

Ég býst við, að ég megi óhræddur vænta þess, að minn góði vinur, hæstv. forsrh., hafi sama álit á mér eins og áður, að ég sé góðgjarn maður, þótt ég vilji ekki greiða atkv. með þessu frv., af því að ég get ekki komið auga á, að þess sé nein þörf. Það er líklega eitthvert formsatriði, sem verið er að óska eftir, en sem ég skil ekki, að nauðsynlegt sé til þess að Landsbankinn láni þeim atvinnufyrirtækjum, sem hér um ræðir.