14.02.1930
Efri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég leyfi mér að þakka fyrst hæstv. forseta fyrir að kalla saman fund í d. á óvanalegum tíma og hv. þdm. fyrir að leyfa afbrigði. Ég hefi von um, að flestir verði sammála um þetta frv. og reyni að flýta afgreiðslu þess. Það hefir hv. Nd. gert, því að þar hefir það fengið að ganga gegnum þrjár umr. í dag, og þó kom það ekki fyrir fyrsta fund fyrr en klukkan var langt gengin 3, en nú er hún 6½. Þessu er svo varið, að þótt deila sé um málið, sem bak við liggur, sem sé Íslandsbanka, þá eru allir sammála um að draga sem hægt er úr afleiðingum þess fyrir framleiðendur. Ég hygg, að það megi ganga út frá, að kyrrt verði um Íslandsbankamálið til mánaðarloka. En það verður að gera bráðabirgðaráðstöfun til að hindra afleiðingarnar af þessari stöðvun. Eins og tekið er fram í grg. frv., er það gert í samráði við bankastjóra Landsbankans. Þeir óskuðu eftir á fundi með stj. í gærkvöldi, að þessi leið yrði farin, svo að bankinn gæti tekizt á hendur þessa lánastarfsemi, sem um er rætt hér.

Það er hugsunin að hjálpa til að setja aftur á stað fyrirtæki, sem nú skipta við Íslandsbanka og hafa sett honum eignir sínar að tryggingu, en geta nú ekki notið þeirrar aðstoðar, sem hann átti að veita þeim. Þess vegna óskar Landsbankinn, að ríkið láti tryggingu sína í té, til að geta hafið þessa lánastarfsemi strax. Vélbátaútgerðinni liggur á henni, og togaravertíð byrjar áður en langt um líður. Sum togarafélögin hér í bænum skiptu við Íslandsbanka, og eins mikið af útgerðarmönnum kringum Faxaflóa. Þeir koma ekki neinu af stað án þess að fá slík lán sem þessi. Einkum á þetta þó við í Vestmannaeyjum. Ég get bætt því við í þessu sambandi, að stj. Landsbankans ætlar að senda þangað mann um næstu helgi, helzt á sunnudag, til að byrja á undirbúningi fyrir lánveitingunum.

Ég ætla rétt að drepa á einstök atriði. Eins og frv. ber með sér, er það bráðabirgðaráðstöfun og samið í flýti. Og það hefir engin áhrif á, hvernig endanlega fer um Íslandsbankamálið, því að það er talið víst, að þingið geri einhverjar ráðstafanir viðvíkjandi lánastarfsemi til útgerðar, þegar sést, hverju fram vindur. Hámarksupphæð þessarar ábyrgðar hefir verið sett ein milljón króna, og er það gert í samráði við Landsbankastjórnina, sem telur, að þetta muni nægja. Ég skal taka fram til skýringar — af því að fyrirspurn kom um það í hv. Nd., hvort Landsbankinn eða ríkisstjórinn ætti að segja um, hvort ráð væri að veita lán í þessu og þessu tilfelli —, að ef það kemur fyrir, að vafi sé á, hvort veita eigi einhverju fyrirtæki lán, þá ræður auðvitað ekki ríkisstjórnin því, heldur stj. Landsbankans. Hitt hámarkið, hámark einstakra lána, er sett 60 kr. á skippund af fiski. Það er sú regla, sem Landsbankinn fylgir. Það ætti ekki að vera mikil áhætta fyrir ríkissjóð að ganga í þessa ábyrgð, því að það er svo sjaldgæft, að útgerð beri sig ekki á vetrarvertíð hér sunnanlands.

Nú þarf sérstaklega að hugsa um tvo staði, þar sem einungis útibú frá Íslandsbanka hafa starfað, Vestmannaeyjar og Seyðisfjörð. Eins og ég gat um, ætlar Landsb.stj. að gera sérstakar ráðstafanir vegna Vestmannaeyja. Og að gefnu tilefni gat ég um það í Nd., að bankastj. ætlaði sér að gera samskonar ráðstafanir vegna Austurlands. Útibú Landsbankans á Eskifirði getur beint lánsfé til þeirra stofnana, sem skipt hafa við útibú Íslandsbanka á Seyðisfirði. Sérstaklega mun vera að ræða um útgerðina á Hornafirði.

Ég hygg svo, að ekki þurfi að fara mikið fleiri orðum um þetta. Ef hv. d. treystir sér til þess, þá væri brotaminnst að geta afgr. málið strax í kvöld.