12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

1. mál, fjárlög 1931

Sveinn Ólafsson:

Ég á enga brtt. við þennan kafla fjárl., sem nú er til umr. Það er þó ekki vegna þess, að ég finni ekki, að mitt hérað hefði þörf og ástæðu til þess að fara fram á fjárhagslegan stuðning frá ríkinu, eins og annarsstaðar er óskað eftir, heldur er það vegna hins, að ég sé mér ekki fært annað en að draga úr kröfunum í þessu efni, eftir því sem unnt er. Mér finnst, að standi öðruvísi á í þetta sinn en á undanförnum þingum, þegar fjárlög hafa verið afgreidd. Ég held, að það séu í vændum að þessu sinni meiri útgjöld fyrir ríkissjóð, tilfallandi, ef svo mætti segja, en venja hefir verið undanfarið. Ég vil þess vegna taka undir orð hæstv. fjmrh. um það, að hér beri að viðhafa alla gætni. Það er nú þegar vitað og kunnugt, að út af bankamáli því, sem hér var nýlega afgreitt, hlýtur að leiða til tilfinnanlegra útgjalda og ábyrgða, sem á ríkissjóði lenda. Ég vil ennfremur minna á það, að með afgreiðslu bankamálsins er ekki lokið þeim meiri háttar útgjöldum, sem búast má við, að lendi á ríkissjóði, því að eftir eru enn óafgreidd þrjú frv., sem lúta að líku efni, og ekki ólíklegt, að eitthvert þeirra fái afgreiðslu. Ég á hér við frv. til laga um Fiskveiðasjóð Íslands, en það frv. liggur fyrir í þrem útgáfum. Með frv. um Fiskveiðasjóð Íslands er gert ráð fyrir stórmikilli útgjaldaaukningu við það, sem komið er, og er það með hliðsjón af þessum lagafrv. og öðrum skyldum, að ég hefi ákvarðað fyrir sjálfan mig að takmarka sem allra mest óskirnar. Af þessu leiðir líka hugsunarrétt, að ég get ekki komizt hjá að greiða atkvæði á móti ýmsum brtt., sem fram eru komnar, þrátt fyrir það, þótt ég viðurkenni, að allur fjöldinn af þeim brtt. sé vel frambærilegur og eigi mikinn rétt á sér. Ég, sem sagt, er þess vegna ráðinn í því að leggja á móti talsvert mörgum af þessum brtt., hvað sem aðrir hv. þdm. kunna að álíta um það.

Hér liggur þó fyrir ein brtt., og auðvitað fleiri, sem ég get fallizt á, og sem ég finn ástæðu til að mæla með og óska eftir að samþ. verði. Það er IX. liður á þskj. 260, 10.000 kr. fjárveiting til lofttalstöðva á Norður-Horni og á Ísafirði. Ég álít, að eitt af því, sem sjófarendum og fiskimönnum ríður allra mest á hér í kringum strendur landsins, sé það, að öruggari verði veðurathuganir og ábyggilegri um leið veðurskeyti þau, sem sjómenn og almenningur allur fer nú svo mjög eftir.

Um leið og ég minnist á þessa litlu tillögu, finnst mér ástæða til að minnast á meðferð á skyldu máli hér á síðasta þingi; það var meðferð á tillögu, sem ég flutti þá um loftskeytastöð á Papey, tillaga, sem að síðustu fékk áheyrn, en þó svo seint og svo niðurfærð, að varla er þess að vænta, að hún komi að tilætluðum notum. En hún var til þess að vinna það sama verk fyrir austurhluta landsins og ætlazt er til, að lofttalstöð geri þarna vesturfrá. Það er álit veðurfræðinga, að það sé alveg óumflýjanlegt að útvega veðurstöðinni betri aðstöðu til að segja fyrir um veður, en það fæst ekki með öðru en að hafa nákvæmar veðurathuganastöðvar til og frá um landið, og sem fjarst veðurstofunni, sem á að hagnýta þær, en að sjálfsögðu verður sambandið milli athugunarstöðvanna og veðurstofunnar að vera öruggt, svo að daglega náist veðurfregnir.

Ég vildi þess vegna mega vænta þess, að bæði á Austurlandi og Vesturlandi kæmust sem fyrst upp lofttalstöðvar, og yrði til þess að auka það öryggi, sem sjómönnum vorum er svo afarmikil nauðsyn á.

Aðrar brtt., sem fyrir liggja, ætla ég ekki að gera að umtalsefni, en nokkrar þeirra eru þó þannig vaxnar, að ég hlýt að mæla með þeim, þótt fleiri séu, sem ég ekki tel rétt að samþykkja.