09.04.1930
Efri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

1. mál, fjárlög 1931

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir það, hve greið hún hefir verið í störfum, og þannig gert sitt til að flýta fyrir afgreiðslu fjárl.

Þegar fjárl. komu hingað frá hv. Nd., voru þau með 26 þús. kr. tekjuhalla. Það er að vísu ekki í fyrsta sinni, sem fjárl. hafa komið hingað með tekjuhalla, enda hefir það stundum orðið hlutverk þessarar hv. d. að lagfæra þann halla. Það má segja, að tekjuhalli sá, sem nú er á fjárl., sé ekki svo mikill, að hann hafi veruleg áhrif á fjárhagsútkomuna, en ég vil gera hv. fjvn. það ljóst, að tekjuhlið fjárl. er þegar orðin svo há, sem hún má vera, og eina rétta leiðin til þess að fá tekjuhallalaus fjárl. er því það, að lækka gjaldaliðina.

N. hefir tekið þann kost að gera sem minnsta röskun á fjárlagafrv. eins og það var, er það kom frá Nd. Verður því eigi sagt, að brtt. hennar valdi neinum stórfelldum breytingum, þótt samþ. yrðu. Þá er og hægt að viðurkenna þá viðleitni að fækka sem mest persónulegum styrkjum. Það má að vísu segja, að styrkir þessir séu eigi svo há upphæð, að þeir hafi mikil áhrif á fjárhag ríkisins, en hinsvegar er mjög varhugavert að fara langt inn á þá braut, því að þá er óvíst, hvar verður staðar numið. Ég býst því við að geta greitt atkvæði með flestum lækkunartill. n. Þó vil ég geta þess, að ég er í vafa um eina þeirra, hvort réttmæt sé, en hún er um að fella niður liðinn til endurskoðunar skipamælinga. Til þessa starfs þarf sérfróða menn, og hér er oft um mikið verk að ræða, því að oft þarf ýmsu að breyta í hinum upphaflegu mælingum. Hefði ég kosið, að n. hefði geymt þennan lið til 3. umr. til að afla sér nánari upplýsinga. Mætti ef til vill færa liðinn með skrifstofukostnaði við skipaskoðunarstjórn, en þó get ég ekki sagt um hvort skrifstofufé það, sem nú er veitt, myndi þá hrökkva til. Stofnun þessi er svo ný, að ekki er fengin full reynsla fyrir því, hve mikill skrifstofukostnaðurinn verður.

Af því að ég. hefi ekki neitt sérstakt að athuga við aðrar brtt. n., mun ég láta hér staðar numið.