14.02.1930
Efri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (2200)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Jón Þorláksson:

Frv. ber það með sér, að það er gert til bráðabirgða og samið í flýti. Í 1. gr. eru t. d. þrjár tilvísunarsetningar hnýttar saman. En um það er ekki svo mikið að fást, þó að óhöndulega sé orðað. Tilgangur frv. er náttúrlega góður, það að bæta að einhverju leyti úr misfellunum, sem þegar eru orðnar hjá stj. síðan bankanum var lokað. Ég hnaut sérstaklega um síðustu málsgreinina, þar sem segir, að verði Íslandsbanki opnaður að nýju, sé sjálfsagt að gera ráð fyrir, að þessi viðskipti flytjist til Íslandsbanka. Þetta er þannig, að Landsbankastj. er ætlað að veita lán nú í byrjun vertíðar þeim mönnum og félögum, sem hafa haft viðskipti við Íslandsbanka, gegn tryggingu í væntanlegum afla. Annað er ekki til. Þótt veita eigi eftir settum reglum, þá er nokkur hætta á því, að ekki verði vegið eins á gullskálum, hverjir eigi að fá lán og hvað mikið hver eigi að fá, þegar bankastj. hefir fengið nægar tryggingar fyrir lánunum hjá ríkissjóði.

Svo má gera ráð fyrir, að Íslandsbanki taki þessi viðskipti að sér, þegar hann verður opnaður aftur, sem fastlega má gera ráð fyrir. Þá á sjálfsagt að láta hann borga Landsbankanum það, sem hann hefir veitt, en eiga aðgang að skuldunautunum. Þá er spurningin, hvort svo beri á að líta, að ábyrgð ríkissjóðs á þessum lánum fylgi þeim yfir til Íslandsbanka. Hæstv. forsrh. hefir gefið það svar, að svo muni hljóta að verða. Úr því að ríkissjóður tæki ábyrgð á lánunum, þá yrði sú ábyrgð að standa, þangað til full vissa

væri um, hvort útgerðarmaðurinn gæti endurgreitt lán sitt til Íslandsbanka. Þetta er eðlilegt; hitt væri óeðlilegt, að heimta af stj. Íslandsbanka, að hún tæki viðskiptin að sér án þeirra trygginga, sem gefnar voru, þegar Landsbankinn veitti lánið. En annars vil ég segja, að ég vil ekki gera ráð fyrir, að hæstv. ráðh. sé neitt hrifinn af því, að nú sé svo komið, að ríkissjóður þurfi að ganga í ábyrgð vegna Íslandsbanka fyrir lánum til einstakra sjávarútvegsmanna.

En eins og nú stendur, býst ég við, að bezt sé að gera þetta, til þess að útgerðin stöðvist ekki meðan verið er að bíða eftir þeim ráðstöfunum, sem vonandi verða gerðar til að endurreisa Íslandsbanka, og því vil ég ekki leggjast móti frv.