14.02.1930
Efri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1648 í B-deild Alþingistíðinda. (2201)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Jón Baldvinsson:

Mér fannst dálítið undarlegt koma fram hjá hv. 3. landsk. í ræðu hans um frv. Það var hálfgerð fýla í honum yfir því að þurfa að ganga í einnar millj. króna ábyrgð fyrir atvinnuvegina. En við það varð ekkert vart, þegar honum og flokksbræðrum hans þótti rétt að taka á ríkissjóð 35 millj. kr. ábyrgð fyrir útlenda stofnun. Ég skil ekki, hvernig hv. þm. gat búizt við, að það þætti sjálfsagt að ábyrgjast fyrir Íslandsbanka, prívatbankann, allar skuldbindingar hans, þegar hv. þm. sjálfur hikar og hræðist vegna 1 millj. kr. ábyrgðar beint til framleiðenda. Og ég get alls ekki skilið, hvers vegna má drótta því að stj. Landsbankans, að hætta sé á, að hún mundi fara gálauslegar að með lán en hún gerir nú, ef hún hefði ábyrgð frá ríkinu.

Mér finnst þetta vera í litlu samræmi við það, hvað hv. þm. var óhræddur að ganga í svo gífurlegar ábyrgðir, sem hann vildi á lokaða fundinum um daginn.

Þótt ég geri þessa aths. út af tvístigi hv. 3. landsk. þm. í þessu máli, ætlaði ég ekki að draga umr. á langinn. Ég álít rétt að gera allt, sem hægt er, til að flýta málinu, og að veita þau afbrigði, sem nauðsynleg eru til þess að hægt verði að afgreiða málið í kvöld. Allt svífur í lausu lofti, þangað til þetta, sem frv. ræðir um, hefir fengið einhverja lausn, sem gefur útgerðarmönnum ábyggilega von um rekstrarlán. Því að nú fer í hönd tíminn, þegar mest verðmæti er á land dregið hér sunnanlands, og þá verður að líta á, hvað er í húfi, ef ekki tekst að fyrirbyggja stöðvun bátaútgerðarinnar í Vestmannaeyjum og útgerðarinnar hér við Faxaflóa. Úr því að stj. hefir náð þessu samkomulagi við Landsbankann um ábyrgð, sem ég treysti að stj. hans muni nota mjög gætilega og varlega og ekki veita öðrum en þeim viðskiptamönnum Íslandsbanka, sem hafa bundið honum eignir sínar og geta ekki losað þau veð sín hjá honum, þá finnst mér allir ættu að vera fegnir þessari úrlausn. Það ætti að vera óþarfi að nefna, að ef einhver af viðskiptamönnum Íslandsbanka stendur sig svo vel, að hann geti boðið veð, þá kemur ríkisábyrgð ekki til greina.

Mér skilst nauðsyn þessarar ábyrgðar einkum vera af því, að ekki sé hægt vegna ástæðna þeirra, sem Íslandsbanki er í, að láta menn komast að veði sínu, sem bankinn hefði fyrir áframhaldandi rekstrarlánum. Ég gæti hugsað mér, að hægt væri, eins og stundum hefir verið gert í skiptameðferð, þar sem skiptaráðendur hafa heimild til að leggja nokkurt fé í hættu til þess að bjarga verðmæti, að þannig væri hægt að losa veðbönd í þeim tilgangi að útvega fé til þeirra atvinnufyrirtækja, sem bundin hafa verið við Íslandsbanka.