04.02.1930
Efri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (2219)

57. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Jón Þorláksson:

Ég lýsti því yfir í fyrra, þegar samskonar frv. og þetta um heimild til þvingunarlöggjafar í sambandi við alþingishátíðina var hér á ferðinni, að ég væri því mótfallinn. Sérstaklega álít ég þvingunarráðstafanir óviðeigandi í sambandi við 1.000 ára minning þess, að þjóðin er frjáls þjóð í frjálsu landi. Og mér sýnist sumt af því, sem borið er fram í þessu frv., vera húmbúg og sumt algerlega óviðeigandi.

Sú aðgreining, sem hér á að fara fram á bifreiðum á Þingvallaveginum samkv. þessu frv., sýnist mér óþörf. Við höfum skýr lög um skoðun á bifreiðum, og samkv. þeim má engin bifreið vera í notkun, nema hún sé í forsvaranlegu standi, og skoðunin á að vera því til tryggingar, að bifreiðarnar séu forsvaranlegar.

Annars ætla ég ekki að deila um þetta við hv. flm., en ég vildi aðeins láta sjást mótmæli mín gegn þessum þvingunarráðstöfunum gagnvart landsmönnum.

En af því að hv. frsm. minntist á samning hátíðarnefndarinnar við bifreiðastöðvarnar hér í bænum um flutning farþega milli Rvíkur og Þingvalla hátíðisdagana, vildi ég geta hér um eitt atriði úr honum, sem forstjóri eins bifreiðafélags hér í bænum skýrði mér frá. Geri ég það til þess, að. formanni alþingishátíðarnefndarinnar gefist tækifæri til leiðréttingar, ef rangt er frá skýrt.

Farþegafargjald með bifreiðum milli Reykjavíkur og Þingvalla er nú 5 krónur fyrir sætið, og ýmsir forstjórar bifreiðastöðva hafa látið það í ljós við mig, að ef allt hefði verið frjálst og afskiptalaust í þessu efni, þá hefði ekki komið til mála að hækka fargjöldin þá daga, sem hátíðin stæði yfir. Bifreiðastöðvarnar lifa á viðskiptum við almenning og vilja ekki styggja frá sér viðskiptavini sína. Þegar ég kem á þá bifreiðastöð, sem ég skipti við, og panta farseðil, þá fer hún ekki að hrinda mér frá sér með því að hækka fargjaldið, þótt venju meira sé um að vera, og á sama hátt yrði það um aðra borgara. Stöðvarnar hefðu ekki getað sétt mismunandi taxta og ekki komið því í kring að taka hærri fargjöld fyrir sætin þessa hátíðardaga en endranær. Samkeppnin hlaut að halda þeim í skefjum, og sú áhætta, að þær kynnu að tapa viðskiptum.

En þessi vandkvæði leystust af sjálfu sér, þegar hátíðarnefndin kom til bifreiðastöðvanna og bauð þeim samkomulag um að þær skyldu fá 10 kr. fyrir sætið í staðinn fyrir 5 kr., sem þær höfðu áður tekið. Það var eðlilegt, að forstjórar bifreiðastöðvanna tækju liðlega þessu tilboði. Það á að skipa sameiginlega stjórn yfir bifreiðaflutningana, sem nefndin ber ábyrgð á, en einhverjir duglegir forstjórar stöðvanna verða i. Fyrir þessa stj. ætlar nefndin að taka eina kr. af hverju fargjaldi, en bifreiðastöðvarnar fá 9 kr. –Ég spyr aftur hv. nefnd um, hvort þetta sé satt, hvort hún hafi gert slíkan samning við bifreiðastöðvarnar.

Forstjórarnir, sem sögðu mér frá þessu, voru glaðir yfir því að fá farseðlagjaldið tvöfaldað án þess að þurfa sjálfir að styggja viðskiptavini sína eða hafa nokkra áhættu.

Ég veit ekki, hve mikill mannfjöldi sætir bifreiðaflutningum á milli Rvíkur og Þingvalla þessa hátíðardaga, en annars hefði mátt gera sennilega áætlun um það, hvað mikið nefndin féflettir almenning með þessum fáheyrðu ráðstöfunum, ef rétt er frá þeim skýrt.