09.04.1930
Efri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

1. mál, fjárlög 1931

Erlingur Friðjónsson:

Áður en ég fer að tala hér fyrir brtt. mínum á þskj. 454, ætla ég að fara fáeinum orðum um sumar brtt. hv. fjvn., þótt ég hafi sjálfur átt sæti í þeirri n. Hv. frsm. mun hafa getið þess í ræðu sinni, að nm. hefðu óbundnar hendur um einstakar brtt., enda er það vafamál, hvort samkomulag er hjá n. í heild sinni um eina einustu brtt. Ég mun greiða atkv. á móti mörgum þeirra, því að ég er óánægður með þær.

Þó er það einkum ein brtt., sem ég þarf að fara orðum um. Það er 47. brtt. á þskj. 436, um að fella niður ábyrgðarheimildina til rafveitu handa Siglufjarðarkaupstað. Það er að vísu rétt, að þetta þing hefir ekki tekið liðlega í að ganga í ábyrgðir til rafveitufyrirtækja yfirleitt. Mér virðist þó, að gera verði mun á því, hvort þessum fyrirtækjum er ætlað að standa alveg sjálf og bera sig fjárhagslega, eða hvort ríkissjóður á þegar í upphafi að leggja fram mikið fé til þeirra. Þannig var t. d. um rafveituna um Skagafjörð, sem flutt var brtt. um í hv. Nd., að af kostnaðinum við hana átti á þriðja hundrað þúsund að greiðast í styrk úr ríkissjóði. Allt öðruvísi stendur á um ábyrgðina fyrir Siglufjörð. Hann er einn bezt stæði kaupstaður landsins, og enda þótt þetta fyrirtæki virðist ætla að verða nokkuð dýrt. — enda mun ætlunin að sjá bænum fyrir miklu rafmagni, — þá hefi ég engar áhyggjur af því, að ríkissjóður þurfi að óttast, að hann geti orðið fyrir nokkru tjóni af þessu. Siglufjarðarkaupstaður er ágætlega vel stæður.

Þótt ég hafi ýmislegt fleira út á brtt. hv. meiri hl. fjvn. að setja, mun ég ekki fara lengra út í það í bili.

Hv. 3. landsk. var hér að tala um það, að í fjárlagafrv. á þskj. 350 væri ekki nægilegt tillit tekið til vaxta þeirra, sem koma mun á ríkissjóð að greiða á árinu 1931. Ég er þessu sammála hjá hv. þm. og hygg, að svo hljóti fleirum að sýnast, enda þótt fjvn. hafi enga brtt. flutt um þetta. Það mun stafa af því, að ekki er óalgengt að líta framhjá einstökum póstum sem þessum frá fyrri árum. Ég er ekki að mæla þessu bót, en það er e. t. v. eðlilegt. Ef brtt. kemur fram um sanngjarna hækkun á þessum lið, mundi ég greiða henni atkv.

Þá get ég snúið mér að brtt. mínum, sem eru á þskj. 454. Fyrsta brtt. mín er í tveim liðum, V. 1 og 2, og er hvortveggja um nýjar greiðslur til Akureyrarskóla. Fyrri liðurinn er um, að námsstyrkur við skólann hækki úr 700 í 1200 kr., og er ástæðan sú, að hann hefir fram til þessa verið afar lágur, svo að ekki er með sanngirni hægt að fara fram á minni hækkun en ég geri. Um hinn liðinn, 2000 kr. til dyravörzlu skólans, er þess að geta, að þetta starf var áður fyrr greitt með 900 kr. á ári og auk þess ókeypis húsnæði, sem sjálfsagt hefir verið um 1000 kr. virði fyrir skólann á ári. Nú hefir skólinn tekið þessa íbúð til annara afnota, og því verður óhjákvæmilega að greiða dyraverðinum hærri laun í peningum. Vona ég, að hv. deild fallist á, að þessi brtt. sé sjálfsögð leiðrétting.

Næst á ég brtt. XIV. á sama þskj. Í 17. gr. frv. eru nokkrir styrkir til sjúkrasjóða og tryggingarfélaga hér og þar um landið. Þessir styrkir eru að vísu sérlega lágir og hafa þó ekki alltaf verið vel séðir af fjvn. og Alþingi. Samt hefir fjvn. þessarar d. ekki séð ástæðu til að fella þá niður, en flytur brtt. um skilyrði fyrir veitingu þeirra, og lætur þar við sitja. En fyrst þeir eru nú þarna á annað borð, hefi ég flutt brtt. um að bæta við 2 félögum ennþá, sem hafa með höndum samskonar starfsemi. Fer ég fram á, að sjúkrasjóður Verkamannafélags Akureyrar fái 300 kr. og sjúkrasjóður verkakvennafélagsins Einingar á Akureyri fái 150 kr. Eru þetta því ekki stórar upphæðir. Verkamannafélag Akureyrar er allgamalt félag, um 25 ára, og á sjúkrasjóð að upp- hæð nálægt 9–10 þús. kr. Eru árlega veittar úr honum 1000–1200 kr., svo að það getur ekki talizt mikið, þótt ríkissjóður bæti þar við 300 kr. Hitt félagið er yngra og sjúkrasjóður þess minni, en þó hygg ég, að það verji árlega til styrktar 4–500 kr. Upphæðir þær, sem ég flyt brtt. um, eru miðaðar við stærð sjóðanna, og er enganveginn hægt að segja, að ég hafi verið kröfuharður. Vona ég, að hv. þd. sjái sér fært að samþ. þetta lítilræði.

Þá býst ég við, að hv. þdm. þyki ég fara að gerast stórtækari, þegar koma brtt. mínar við 22. gr. Þær eru prentaðar á sama þskj. undir XXI. lið a og b. Hér er um að ræða tvær ábyrgðarheimildir, þá fyrri fyrir Samvinnufélag sjómanna á Akureyri og hina síðari fyrir síldareinkasöluna. Skal ég fyrst víkja að a-lið brtt. Samskonar ábyrgð og hér er farið fram á hefir áður verið veitt Samvinnufélagi sjómanna á Ísafirði. Hefir það gefizt mæta vel, því að félagsskapurinn hefir blómgazt og gert afar mikið gagn. Reynslan á þessum eina stað gefur því tilefni til þess, að samvinnufélög fái víðar samskonar ábyrgðir. Hv. Nd. hefir nú á þessu þingi fallizt á svona ábyrgð fyrir Eskfirðinga og þar með viðurkennt, að ekki sé hættulegt að fara lengra inn á þessa braut. Samvinnufélag sjómanna á Akureyri er að skipulagi eins og þau samvinnufélög, sem þroskuðust eru. Sótti það fyrir nokkru til bæjarstjórnar Akureyrar um ábyrgð fyrir 150 þús. kr. láni, og ákvað bæjarstjórnin nýlega að veita þessa ábyrgð. Mér þykir rétt að lesa hér um samþykkt þá, er þar var gerð, eftir till. þeirrar n., sem málið hafði til athugunar. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Bæjarstjórinn á Akureyri.

Akureyri 26. jan. 1930.

Bæjarstjórnin hefir á fundi sínum 21. þ. m. samþykkt eftirfarandi úr gerðabók fjárhagsnefndar, dags. 18. þ. m.

„Tekin til meðferðar beiðni frá Samvinnufélagi sjómanna á Akureyri, um að bærinn gangi í bakábyrgð fyrir væntanlegu láni félagsins til skipakaupa, ef ríkisábyrgð fæst, samkv. tillögu bæjarfulltrúa Einars Olgeirssonar, er vísað var til fjárhagsnefndar á bæjarstjórnarfundi 7. þ. m. — Eftir nákvæma yfirvegun varð nefndin sammála um að leggja til, að bæjarstjórnin lofi gagnábyrgð fyrir láni í þeim tilgangi, sem fram á er farið í áðurnefndri tillögu, með þeim skilyrðum, er hér segir:

1. Að lög félagsins séu í fullu samræmi við samvinnulögin nr. 36 frá 1921.

2. Að félagsmenn séu allir búsettir á Akureyri.

3. Að lánið, sem bæjarstjórn gengur í gagnábyrgð fyrir, fari ekki fram úr kr. 150 þús. — eitt hundrað og fimmtíu þúsund krónum — og sé í hæsta lagi 4/5 af andvirði skipanna, fullbúinna til veiða, og greiðist að fullu á 10 árum, afborgunarlaust fyrstu 2 árin.

4. Að aldrei sé á einu ári varið meiru en helming varasjóðs til greiðslu á reksturshalla, nema til komi samþykki bæjarstjórnar.

5. Að félagið hafi innan sinna vébanda nægilega marga vana sjómenn á skipin, og að skipshafnir séu ávallt ráðnar upp á hlut af afla.

6. Að bæjarstjórnin hafi rétt til eftirlits með því, af afborgun lána fari fram samkv. tölulið 3, og að arði sé skipt samkv. lögum félagsins, enda eigi bæjarstjórnin ávallt aðgang að reikningum þess.

7. Að skip og veiðarfæri félagsins og aðrar eignir þess standi að veði fyrir láninu með 1. veðrétti.

8. Að fyrir láninu fáist ríkisábyrgð, með sömu skilyrðum sem eru sett fyrir ábyrgð ríkisins til handa Samvinnufélagi Ísfirðinga, þó með þeirri breytingu, að ríkisstjórnin samþykki framkvæmdarstjóra og annan endurskoðanda félagsins, eftir að hafa leitað álits bæjarstjórnarinnar um þá“.

Þessi samþykkt bæjarstjórnarinnar tilkynnist hér með.

Jón Sveinsson.

Formaður „Samvinnufélags sjómanna“ á Akureyri,

Karl Magnússon“.

Ég hefi nú skýrt frá afstöðu bæjarstjórnarinnar á Akureyri í þessu máli, að hún vill taka á sig gagnábyrgð á láninu, ef ábyrgð ríkissjóðs fæst einnig. Annars hefi ég útbúið brtt. mína í samræmi við kröfur þær, sem bæjarstjórnin gerir, og eftir fyrri fyrirmyndum um samskonar till. Ýmsir munu nú segja, að minni ástæða sé til að styrkja sjómenn á Akureyri á þennan hátt heldur en var á Ísafirði á sínum tíma, þegar Alþingi ákvað að hlaupa undir bagga með Ísfirðingum. Það mun vera almennt álit, að aðstaða manna á Akureyri nú sé til muna betri en var á Ísafirði þá, og er sjálfsagt nokkuð rétt í því. En ég álít, að þetta eigi ekki að vera eingöngu neyðarráðstöfun, og að vel megi hjálpa mönnum áður en þeir eru komnir í algert öngþveiti. Aðstaðan á þessum tveim stöðum, Akureyri og Ísafirði, er þó lík að því leyti, að á báðum stöðum var orðið mjög líið af skipum, sem eiginlega gætu talizt haffær. Á Akureyri eru nú víst ekki nema 3 fiskiskip, sem ganga á veiðar meira en blásumarið, og stafar það af því, hve hin skipin eru léleg. Til þess að geta stundað sjóinn allt árið, er mest um vert að fá góð skip, og það verður ekki séð, að atvinnúrekendur nyrðra séu færir um að koma fram þeirri breytingu.

Þá kem ég að síðari hluta brtt., ábyrgð á láni, fyrir síldareinkasöluna. Eins og hv. þdm. er í minni, voru á síðasta þingi samþ. lög, þar sem ríkisstj. er heimilað að ganga í ábyrgð fyrir síldareinkasöluna til næstu áramóta. Var þetta gert af þeirri nauðsyn, að einkasöluna vantar rekstrarfé tíma úr árinu, en hefir engar tryggingar að selja, nema síldina jafnótt og hún kemur úr sjónum. En einkasalan þarf á fénu að halda til greiðslu á síldinni, verkunar síldarinnar, kaupa á tunnum, salti o. s. frv. — Nú fer ég fram á í brtt. minni, að ábyrgðin verði framlengd um eitt ár, eða til ársloka 1931. Þar sem ekkert hefir komið fram, sem geri þessa ábyrgðarheimild tortryggilega, vænti ég, að hv. þd. geti fallizt á þessa brtt. Í raun og veru verður þessi ábyrgð nokkru minni nú en þá var farið fram á. Í þessari lagagrein, sem niður fellur um næstu áramót og ég hefi tekið hér algerlega upp, er gert ráð fyrir ríkisábyrgð, allt að 500 þús. kr., þó þannig, að varasjóður einkasölunnar sé reiknaður inni í þeirri upphæð. Hann var í fyrra um 15 þús. kr., en nú um 65 þús. Hann hefir vaxið um 50 þús. á síðasta ári. Ábyrgð ríkissjóðs yrði þá nú 435 þús. Ég hefi fyllstu vonir um, að hv. d. gangi inn á þetta, og skal svo ekki dvelja meir við þessar till. mínar, því að ég býst við, að aðrir muni þurfa að mæla fyrir sínum brtt. á þskj. 454, og þær eru nokkuð margar.