04.02.1930
Efri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1655 í B-deild Alþingistíðinda. (2220)

57. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Jón Baldvinsson:

* Ég vildi aðeins gera þá aths. við 5, gr. frv., að réttast væri, að bæjarstjórnirnar bæði í Reykjavík og Hafnarfirði hefðu tillögurétt um lokun búða og vinnufrí fólks þessa hátíðardaga. Það stendur svo líkt á um báða kaupstaðina í þessu efni, og sanngjarnt, að bæjarstj. í Hafnarfirði fái einnig að segja álit sitt um það. Auk þess gæti ég líka gert þá aths., að það er eins mikil ástæða til að leita umsagnar verkamannafélaganna eins og verzlunarmannafél. á þessum stöðum, a. m. k. að því er snertir frí frá annari vinnu. Þó að búðum sé lokað, þá þýðir það aðeins frí fyrir verzlunarmenn. En alþingishátíðin á vissulega að vera fyrir allar stéttir, og þess vegna á það alls ekki við að halda fólki til annarar vinnu þessa daga, þó það tíðkist á frídögum verzlunarstéttarinnar, sumardeginum fyrsta og 2. ágúst. — Þessu vildi ég skjóta til hv. frsm.

Viðvíkjandi því, sem hv. 3. landsk. sagði um bifreiðafargjöldin, skal ég geta þess, að ég hefi líka heyrt getið um þennan samning hátíðarnefndarinnar við bifreiðastöðvarnar, en ekki lagt trúnað á, að fargjöldin væru hækkuð um helming, nema nefndin hugsaði sér að nota annan helminginn til greiðslu á kostnaði við hátíðina. En það væri gott að fá upplýsingar um þetta.

Annars er það ekki rétt hjá hv. 3. landsk., að við yrðum neitt betur settir undir lögmáli hinnar frjálsu samkeppni á þessu sviði. Bifreiðastöðvarnar yrðu ekki sérstaklega hræddar við að hækka taxtana. Það er hinn mesti misskilningur, að þær styggi nokkuð viðskiptavini sína, þó að fargjöldin séu hærri þessa daga en aðra. Þegar allar stöðvarnar hafa sama taxta, þá getur enginn framhjá honum komizt, og hv. 3. landsk. verður því að beygja sig undir hann eins og aðrir. Og bifreiðastöðvarnar geta fyllilega notað sér aðstöðuna til þess að hækka fargjöldin þá daga, sem hátíðin stendur.

Ég nota orðið „frjáls samkeppni“ venjulega með gæsalöppum. Þetta er aðeins smáborgaralegt slagorð og fyrir löngu úrelt frá sjónarmiði þeirra, sem nokkuð hafa fylgzt með þróun þjóðskipulagsins á síðari tímum.

Það væri æskilegt að fá upplýsingar um það frá hv. frsm., hvort það er rétt, að bifreiðastöðvarnar ætli sér að taka helmingi hærri fargjöld af fólki þessa hátíðardaga en venjulega. Ég veit það að vísu, að bifreiðarnar muni fara færri ferðir og hægar en tíðkast, og flytja því færra fólk á sama tíma.