04.02.1930
Efri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (2224)

57. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Umr. hafa allmikið sveigzt frá frv. á þskj. 57 að öðru frv. frá í fyrra. Ég skal þó leiða það hjá mér, en vil hinsvegar segja nokkur orð út af ræðu hv. 3. landsk. Hann leitaðist við að vita gerðir alþingishátíðarnefndar viðvíkjandi fargjöldum milli Reykjavíkur og Þingvalla. En ég skal einungis benda hv. þm. á það, að allur almenningur veit og skilur, að þegar mikil aðsókn er að einhverju, sem lítið er til af, þá býður lögmál hinnar frjálsu samkeppni, að verðið fari fram úr öllu hófi. Þessi er líka reynsla alstaðar. T. d. get ég bent á það, að á styrjaldarárunum komst munntóbak í svo hátt verð í kaupstað einum á Norðurlandi, að samsvaraði 70 kr. kg. Þess vegna hefir allur almenningur það á tilfinningunni, að ef ekkert eftirlit væri haft með fólksflutningi bifreiða milli Reykjavíkur og Þingvalla, myndu bifreiðastöðvarnar okra alveg óstjórnlega á ferðafólkinu. Bifreiðakostur bæjarins er ekki meiri en svo, að ómögulegt er að koma öllum þeim feiknafjölda, sennilega um eða yfir 20 þús. manna, áleiðis og til baka aftur nema með sérstaklega góðu skipulagi á flutningunum. Til þess að greiða fyrir þessum flutningum hefir verið varið allt að 300 þús. kr. til nýs vegar til Þingvalla. Nú ætti hv. 3. landsk. að skilja það, að þjóðfélagið fer tæplega að verja stórfé til slíks vegar, nema að hafa einhver bein afskipti af flutningunum jafnframt. Hvorttveggja er gert til þess að greiða fyrir fólksflutningunum til og frá Þingvöllum um hátíðardagana.

Þá áleit hv. 3. landsk. hækkun fargjaldanna ósanngjarna. Um það má deila. Ég fyrir mitt leyti álít þau ekki ósanngjörn. Jafnframt ber að líta á það, að hátíðarnefndin lætur sig það nokkru skipta, ef unnt er að auka bílakostinn til flutninganna. Ef nefndin hefði fremur kosið hina leiðina, að setja hámark fargjaldanna t. d. 4–5 kr. hvora leið, þá hefði það óbeinlínis orðið til þess að draga úr bílainnflutningi til hátíðarflutninganna. Hv. 3. landsk. sagði, að Reykvíkingar mundu flestir fara austur að morgni og til baka að kvöldi. Er þetta góð sönnun þess, að n. hefir valið mjög skynsamlega leið í þessu máli. Eru þessi háu fargjöld tilvalið ráð til þess að venja Reykvíkinga og Hafnfirðinga af þeim ósið, að vera alltaf að rölta á milli þessa 3 daga og tefja þannig afgreiðslu og nauðsynlegar samgöngur meðan á hátíðinni stendur.

Um frv. hefir hv. þm. Seyðf. talað allítarlega, og þarf ég engu við að bæta, en viðvíkjandi því, er hv. 1. þm. G.-K. sagði um hátíðarmerkið, þá virðist mér sjálfsagt, að þjóðfélagið fái hagnað af sölu þess, ef nokkur er. Ella gætu einstakir menn sett slík merki á vörur sínar, til þess að hafa hag af.