04.02.1930
Efri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1661 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

57. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að almenningur hafi búizt við, að fargjöldin yrðu hærri til Þingvalla hátíðardagana en venjulega. Sennilega munu menn sízt hafa búizt við þeim lægri heldur en n. hefir nú samið um. Og ég verð að leggja áherzlu á, að það stendur öðruvísi á nú en endranær, því að menn verða í tjöldum á Þingvöllum yfir hátíðina, í stað þess að fara til Reykjavíkur að kvöldi, eins og venja er til. Þess vegna má búast við, að bifreiðir fari mikið til tómar aðra leið, og veldur það óhjákvæmilega hækkun fargjaldanna. Það getur því ekki talizt ósanngjörn hækkun, þótt verðið fari 4 kr. fram úr normalverði, og nefndin vildi ekki taka umráð bifreiðanna í sínar hendur, úr því að slíkir samningar tókust við bifreiðastöðvarnar. Sömuleiðis verða ódýrari bifreiðar við flutningana, sem almenningur hefir aðgang að og allur almenningur verður að nota.

Það getur vel verið réttilega athugað hjá hv. 1. þm. G.-K., að orðið „verzlunarvara“ sé ekki sem heppilegast, en þó held ég, að slíkt ætti ekki að skaða, því mönnum mun varla koma til hugar að setja merkið á grænsápu eða lakaléreft. Kæmi helzt til mála að nota merkið á postulínsvarning eða þá á minjagripi eða þvílíkt. Hinsvegar væri ekki úr vegi að þrengja orðið nokkuð, t. d. setja „verzlunarmuni“ fyrir „verzlunarvöru“. Mun sú breyt. að sjálfsögðu verða tekin til athugunar í n., sem þetta mál fær. til athugunar.