04.02.1930
Efri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (2226)

57. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Jón Baldvinsson:

* Satt að segja finnst mér þessi 1. gr. fremur veigalítil. Mönnum er gefin heimild til að kaupa merki þetta, sem mynd er af í frv. N. virðist hugsa sér þessa merkjasölu sem tekjulið, en ég hefði nú búizt við því gagnstæða. Eða skyldi nokkur vilja borga hlut, sem kostaði 20 kr., á 25 kr., þótt þetta víkingaskip væri á honum. Ég efast mjög um það.

Hv. frsm. tók vel í það, að n. myndi hafa samvinnu við bæjarstjórn um lokun sölubúða, um tilhögun á vinnu í bænum yfir hátíðardagana o. s. frv. Er slíkt auðvitað alveg sjálfsagt.

Mér skildist hv. 3. landsk. vera farinn að linast í trúnni á hina frjálsu samkeppni, ef dæma skal eftir ummælum hans um fargjöldin. Ég vil samfagna honum og bjóða hann velkominn í okkar hóp, sem viljum líta með skynsemi á hina háttlofuðu samkeppni. Þó verð ég nú að efast um, að þessi betrun hv. þm. eigi sér djúpar rætur í huga hans. Um eðli samkeppninnar þarf hv. þm. ekki að fræða mig, né um það, að í frjálsri samkeppni reyni menn ávallt að þóknast skiptavinum sínum. Í því er einmitt hagnaðarvon þeirra fólgin. En hitt er líka eðli samkeppninnar, að reyna ávallt að nota sér alla aðstöðu til þess að setja verð upp fyrir það, sem rétt er og sanngjarnt. Í þessu tilfelli gefst bifreiðastöðvunum slíkt tækifæri, og því verður að grípa til þessara ráðstafana. Það er það, sem hefir komið fram hér í umr., að hin frjálsa samkeppni hefir verið útilokuð, eftir því sem hv. þm. Seyðf. segir frá, eða getur ekki einhverra ástæðna vegna notið sín.