17.02.1930
Neðri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

57. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Frsm. (Héðinn Valdimarsson):

Eins og nál. ber með sér, hefir n. lagt til, að þetta frv. væri samþ. eins og það kom frá Ed. Það er flutt að tilhlutun hátíðarnefndarinnar og með samþykki ríkisstj. Frv. veitir ríkisstj. einkarétt á alþingishátíðarmerki, sem hún getur svo leyft mönnum að setja á verzlunarmuni, gegn allt að 15% gjaldi af innkaupsverði þeirra, og um ráðstafanir til að auka öryggi við flutninga milli Reykjavíkur og Þingvalla hátíðardagana. Heimilar það ríkisstj. að ákveða, að undangenginni skoðun, hvaða bifreiðar megi vera í notkun umrædda daga og hvaða bifreiðarstjórar megi aka. Er það nauðsynlegt að gera meiri kröfur til þeirra, sem aka þessa daga, heldur en venjulega á hinum mjög fjölfarna Þingvallavegi.

Síðari hluti frv. er um heimild fyrir ríkisstj. til að ákveða um lokun sölubúða og skrifstofa í Hafnarfirði og Rvík hátíðardagana og að útivinna falli niður á báðum stöðunum þá daga, að fengnum till. bæjarstjórnanna og stéttarfélaga þar um.