17.02.1930
Neðri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

57. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Ólafur Thors:

Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, og er það 2. kafli frv., sem ég felli mig ekki vel við. Í 3. gr. er ríkisstj. veitt heimild til að ákveða, að undangenginni skoðun, hvaða bílar megi vera í umferð á vegunum til Þingvalla hátíðisdagana. Ég veit ekki betur en það sé áður lögboðin bílaskoðun, og mér finnst sú skoðun ætti að geta nægt þessa daga eins og aðra. Og í 4. gr. er heimilað að svipta einstaka menn ökuleyfi þessa umræddu daga, þó þeir hafi full réttindi til að aka bifreið endranær. Ég sé enga ástæðu til að ræna menn þannig rétti sínum. Sá, sem á annað borð kann að stýra bifreið, hlýtur að geta það eins þessa daga og aðra.

Ákvæðið í 1. gr. um hátíðarmerkið tel ég réttmætt. Annars tel ég yfirleitt ákvæði frv. fremur smávægileg, og get ég sætt mig við þau, að öðru leyti en því, sem ég hefi tekið fram.