17.02.1930
Neðri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1666 í B-deild Alþingistíðinda. (2239)

57. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Pétur Ottesen:

*) Þá á að gera sérstakt mat á bifreiðum. Samt er látin fara fram opinber skoðun á þeim til tryggingar því, að þær bifreiðar einar séu í umferð, sem til þess eru færar. Nú á að upphefja núgildandi ákvæði um þetta með þessum fyrirmælum. Þessir nýju matsmenn eiga að geta útilokað bifreiðastjóra og bannað bifreiðir, sem aðrir löglegir skoðunarmenn hafa ekkert haft út á að setja. Það er því ekki hægt annað að segja en að ákvæðin hér í 3. og 4. gr. grípi talsvert inn í þjóðlífið. Það má hiklaust gera ráð fyrir, að menn bæði úr Borgarfirði og að norðan reyni að komast á bifreiðum til Þingvalla, ef fært verður um Kaldadal. Þeir bifreiðarstj., sem þaðan koma, reyna líklega að fá atvinnu við fólksflutninga milli Þingvalla og Reykjavíkur. En þeir geta átt erfitt með að fá það nema með því að ganga undir eitthvert próf hér. Því að þeir geta ekki komið með nein sönnunargögn nema prófskírteini sitt fyrir því, að þeir séu ekki óhæfir „sakir skorts á æfingu eða af öðrum líkum ástæðum“, eins og segir í 4. gr. frv., og þá má gera ráð fyrir, að þeir verði ekki teknir gildir af þessum nýju herrum. Þeir menn þyrftu líka helzt, ef þeir ættu að framkvæma eftirlit sitt samvizkusamlega, að þekkja hvern einasta mann, sem bifreið stýrir, og það jafnvel menn úr fjarlægum landshlutum. Ég held, að þessu athuguðu, að ekki sé nein ástæða til að ganga á svig við sett lagafyrirmæli og taka af mönnum rétt til að stýra bifreiðum, þegar þeir eru búnir að uppfylla þau skilyrði, sem landslög setja í því efni. Þetta er eins og gengur og gerist. Ein syndin býður annari heim. Í fyrra voru sett þvingunarlög um þetta efni. Það er gert ráð fyrir því í lögunum frá því í fyrra, að hátíðarnefndin hafi heimild til að taka í sínar hendur umráð yfir leigubifreiðum. Þá er víst ástæðulaust að ákveða sérstaka skoðun á leigubifreiðum, ef þær verða á valdi nefndarinnar. Og það voru nú þessir „skrjóðar“, sem hv. 1. þm. Reykv. var svo hræddur um að yrðu að farartálma á veginum.

Þá er í 5. gr. gert ráð fyrir að heimila bæjarstjórnum í Reykjavík og Hafnarfirði — það nær ekki yfir lengra svið – að kveða svo á, að fengnum till, stéttafélaga, að loka skuli að einhverju leyti eða öllu sölubúðum, skrifstofum, afgreiðslustofum og vinnustofum og láta útivinnu falla niður á báðum stöðum dagana 26.–28. júní. Það á, skilst mér, að leggja það í hendur stjórnarvalda á þessum stöðum, hvort menn megi hreyfa hendur sínar til nokkurra ærlegra verka þessa daga, þó að í sjálfsþágu sé. Ekki liggur þó 2.000 kr. sekt við þessu eins og því, sem um er að ræða í 3. og 4. gr. Það eru engin viðurlög við því, þó að menn geri eitthvað til sinna þarfa þessa daga. Þess vegna má segja svo um þau ákvæði, að þau séu meinlaus og gagnslaus. Sá lagastafur er þá dauður bókstafur frá upphafi.

Ég sé annars ekki ástæðu til að gera þær ráðstafanir, sem koma fram í 3. og 4. gr. Þeim er illt að framfylgja; það yrði svo erfitt að gera upp á milli manna.

Þá var eitt atriði enn. Því hefir verið fleygt, að þeir menn, sem hátíðarnefnd felur umboð til að framkvæma sinn vilja, hafi samið um bifreiðataxta, um borgun fyrir mannflutning til Þingvalla og aftur þaðan. Ég hefi heyrt, að sá samningur væri ekki hagkvæmur fyrir þá, sem eiga að ferðast í bifreiðum. Þeir verða að borga nokkuð mikið meira en nú gerist og meira en líkur eru til, að verða mundi undir þeim kringumstæðum, þegar frjáls samkeppni fær að njóta sín. Annars veit ég ekki fullar sönnur á þessu, en náttúrlega vænti ég að fá upplýsingar hér í deildinni.

*) Vantar upphaf ræðunnar frá hendi þingskrifara. PO.