09.04.1930
Efri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

1. mál, fjárlög 1931

Ingibjörg H. Bjarnason:

Ég á aðeins eina brtt á þskj. 454, VIII. við 15. gr. 15, um hækkun á styrk meistara Björns K. Þórólfssonar úr 1000 kr. í 1500 kr. Svo er mál með vexti, að Björn Þórólfsson, meistari í íslenzkum fræðum, hefir tvö undanfarin fjárhagstímabil notið styrks eða starfslauna fyrir að semja skrá yfir skjöl, sem snerta Ísland og geymd eru í Danmörku. Nú var að vísu þessi liður tekinn upp í stjfrv., en 500 krónum lægri en undanfarin ár. Þetta þótti mér og öðrum illa farið. Þegar ég tók eftir þessari breytingu, þótti mér hún næsta kynleg, því ég vissi til þess, að síðastliðið sumar hafði Björn K. Þórólfsson komið að máli við ríkisstj. og sérstaklega þann ráðh., sem að þessum málum stendur, og var eftir það viðtal vongóður um, að hann fengi sömu laun fyrir starf sitt og áður. Þessi breyting er með öllu óskiljanleg, þegar á það er litið, að maðurinn hefir í öllu gert skyldu sína og unnið fullkomlega fyrir þeim styrk, er hann hefir notið, svo sem sjá má af bréfi hans til stj., sem dagsett er 18. nóv. 1929. Stj. hlýtur því að vera fullkunnugt um, að sízt var ástæða til að lækka þessa litlu fjárveitingu. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég lesa upp kafla úr áðurnefndu bréfi. Þar segir svo:

„Ég hefi nú lokið að semja skrá um það, sem Ísland varðar í bæjarskjalasafni Kaupmannahafnar, svo og um skjalasöfn þeirra félaga, er einokunarverzlun höfðu á Íslandi, og skjalasafn hinnar konunglegu einokunarverzlunar að því, er til Íslands kemur. Nú er ég að kanna þær skjalabækur í Rentukammerinu, sem skrár Jóns Sigurðssonar taka ekki yfir, og vona ég, að skráningu þeirra plagga verði lokið fyrir áramót, nema hvað þar er ein deild skjalabóka, sem ég af sérstökum ástæðum læt bíða fyrst um sinn. Einnig vona ég að ljúka fyrir áramót könnun á skjölum stjórnardeildar þeirrar, er á einveldistímanum átti að fjalla um her og flota í veldi Danakonungs (Admiralitetskollegisins). Þar hefi ég fundið konungsúrskurði, sem Ísland varða, er ekki hafa verið kunnir áður“.

Ég hefi aðeins örfáum atriðum við að bæta. Ég skal minna á, að hér er hvorki um utanfararstyrk né námsstyrk að ræða, heldur borgun fyrir verk, sem Alþingi hefir viðurkennt að nauðsyn sé að vinna, með því að veita þennan litla styrk, sem Björn meistari Þórólfsson hefir tekizt á hendur að vinna ákveðið verk fyrir. Þarf ég því ekki að vera langorð um þessa brtt., þegar þess er gætt, að hún ríður alls ekki í bág við stefnu hv. fjvn. né þingsins yfirleitt með persónulega styrki, þar sem hér er ekki farið fram á annað en að uppfylla samning, sem þingið hefir í raun og veru gert með fjárveitingum undanfarinna ára. Ég hika ekki við að segja, að mér finnst Alþingi ekki geta látið sér sæma að klípa af þessari fjárveitingu, sem B. K. Þ. hefir haft tvö undanfarin fjárhagstímabil til þess að vinna þetta þarfa en tímafreka verk.

Ef það hefði reynzt, að B. K. Þ. hefði slegið slöku við starf þetta, þá horfði málið öðruvísi við. En það er öðru nær. Ætti ekki að þurfa annað en að benda mönnum á meðmæli bæði frá Páli Eggert Ólasyni, núv. bankastjóra, og Hannesi Þorsteinssyni skjalaverði. Þessi tvenn meðmæli sýna, að Björn K. Þórólfsson hefir unnið þessi störf svo vel, að ég hygg, að enginn treysti sér til að mótmæla því, að hann sé vel að laununum kominn. Ég vil svo ekki reyna á þolinmæði hv. þdm. með því að lesa upp ýmis gögn, sem kannske koma þó fram, ef þörf gerist síðar. Ég vona, að hv. þm. sjái sér fært að aðhyllast þessa brtt. mína. Þó vil ég reyndar ekki láta ógert að lesa upp ofurlítinn kafla úr einkabréfi B. K. Þ. til mín:

„Eins og yður mun kunnugt, eru Norðmenn nú að láta skrifa upp öll skjöl, sem varða hið forna Noregsríki og varðveitt eru í bréfabókum þeim, sem sameiginlegar eru fyrir allt veldi Dana og Norðmannakonungs. Taka þeir þar með öll þau bréf, er Ísland snerta. Norðmenn vélrita uppskriftir sínar. Nú hefir ríkisskjalavörðurinn í Osló skrifað manni þeim, sem er „kommissær“ Norðmanna hér og sér um uppskriftir þær, sem teknar eru, og sagt, að ég megi fá handa þjóðskjalasafninu í Reykjavík gegnumslög (Copie) af þeim uppskriftum, er framvegis verði gerðar fyrir Norðmenn af bréfum þeim, er varða Ísland eða Íslendinga. Þetta hefir „kommissær“ Norðmanna hér tilkynnt mér bréflega. Þessi gegnumslög verða alveg ókeypis“.

Lengra þarf ég ekki að lesa til að sýna, að auk þess sem meistari Björn K. Þórólfsson starfar að hinu ákveðna umsamda verki, virðist hann einnig vera á verði, hvar sem hann getur gagnað nauðsynjamálum þjóðar sinnar. Eins og sést af bréfinu, er þetta, sem þarna er unnið, fyrir utan hans sérstaka starfssvið, en fyrir milligöngu hans eiga Íslendingar að fá afrit þessi sér að kostnaðarlausu. Þetta er glögg sönnun þess, hve annt honum er um þessi mál og hve ríkan hug hann hefir á að auðga Þjóðskjalasafn Íslands.

Hv. þm. vita, að verk það, er B. K. Þ. hefir tekið að sér, er ekki auðunnið, og ekki að vita hve lengi hann dvelur í Danmörku. Ég fyrir mitt leyti óska, að hann fengi eitthvert lífvænlegra starf í framtíðinni en hann hefir nú.