15.02.1930
Neðri deild: 28. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1674 í B-deild Alþingistíðinda. (2254)

41. mál, sala jarðarhluta Neskirkju og ríkissjóðs

Sveinn Ólafsson:

Frv. sama efnis og þetta var borið fram á síðasta Alþingi, í líkum búningi og það er nú. En á því voru þá tveir meginagnhnúar, sem urðu þess valdandi, að það gat þá ekki fengið fullnaðarafgreiðslu, en var þá vikið frá með rökstuddri dagskrá. Þessi agnhnúar hafa nú verið lagfærðir. Það hefir nú verið samið við sóknarprestinn um ígildi þeirra landsnytja, sem prestssetrið missir við sölu jarðarinnar, ásamt tekjurýrnun, og fylgir nú frv. yfirlýsing frá honum, þar sem hann mælir með sölunni, að uppfylltum skilyrðum. Í öðru lagi er nú í frv. tiltekið lágmarksverð á þeim hluta eignarinnar, sem ríkissj. á, og er það 9.500 kr. Lágmarksverð þetta er tekið upp í frv. vegna þess, að ekki getur staðizt sú matsregla, sem ákveðin er í lögum um þjóðjarðasölu frá 1905, vegna óvenjulegrar verðhækkunar á þessari jörð, þar sem vaxið hefir upp tiltölulega fjölmennur bær á síðustu árum.

Þótt ég mælti á móti þessu máli á síðasta þingi, vegna þess að ósamið var við sóknarprest og ákvæði um lágmarksverð vantaði, þá hefir nú, með þessu frv., verið fullnægt þeim skilyrðum, sem ég þá setti fyrir fylgi mínu við málið, og tel ég því rétt, að það gangi fram í þeirri mynd, sem það nú hefir fengið.