15.02.1930
Neðri deild: 28. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (2255)

41. mál, sala jarðarhluta Neskirkju og ríkissjóðs

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins vekja athygli á því, sem stendur í grg. frv., þar sem sagt er, að fengizt hafi samkomulag við prestinn um sölu jarðarhlutans, að það er þeim skilyrðum bundið, að ríkissjóður — eða kirkjujarðasjóður — byggi eða kaupi sæmilegt íbúðarhús og afhendi sóknarpresti sem prestssetur með aðgengilegum kjörum. Ég vil benda á það, að hingað til hefir gilt sú regla, að styrkur hefir aðeins verið veittur til bygginga á prestssetrum í sveitum, en ekki til íbúðarhúsa fyrir presta í kaupstöðum. Mér skilst, að ef þetta frv. verður samþ., þá sé tekin ákvörðun um, að ríkissjóður skuli styrkja íbúðarhús presta í kaupstöðum. Ég vil aðeins vekja athygli n., sem fær þetta frv. til meðferðar, á þessu atriði.