09.04.1930
Efri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

1. mál, fjárlög 1931

Guðmundur Ólafsson:

Ég á hér 2 brtt. á þskj. 454.

Fyrri brtt. er sú VI., við 14. gr. Þar er farið fram á það að veita kvennaskólanum á Blönduósi styrkhækkun, er nemi 1/3 af þeim styrk, sem honum er nú ætlaður í fjárlagafrv., til aðgerða og breytinga á skólahúsinu.

Það má nú segja, að skólinn hafi verið styrktur töluvert í þessu augnamiði á síðasta þingi, bæði til aðgerða á húsinu og til að gera þar nýtízku eldhús. Honum voru þá veittar 4.000 kr. til þessa, og stafaði það af því, að honum var þá breytt úr kvennaskóla í húsmæðraskóla, og þurfti þá að breyta ýmsum „innréttingum“ og koma upp 2 fyrirmyndareldhúsum úr einu almennu eldhúsi, sem áður var. Byggingafræðingur var fenginn til þess að gera áætlun um kostnaðinn, og lá sú áætlun hér fyrir þinginu í fyrra; að minnsta kosti sá ég hana og mun þá hafa sagt hv. þdm. frá henni.

Áætlunin var þannig, að breytingin mundi í hæsta lagi kosta 5.000–6.000 kr., en svo fór um þá áætlun, að kostnaðurinn nam 12.000 kr., og býst ég við, að allir hv. þdm. sjái, að þegar svo er, eru 4.000 kr. ekki nema 1/3 þess kostnaðar. Mér sýnist því nauðsynlegt og rétt fyrir þingið, að það skeri ekki frekar við neglur sér styrk til þessa skóla en annara. Mér finnst það ekki mega minna vera en að það styrki hann að hálfu leyti, eða 6.000 kr. að þessu sinni, og hitt svo síðar. Ég get heldur ekki kennt skólanefndinni það, að kostnaðurinn varð meiri en áætlað var.

Ég vil biðja hv. þdm. að athuga, að þótt þeim þætti skólinn nokkuð fjárfrekur síðastliðin ár, þá kemur það af því, að gerðar hafa verið ýmsar endurbætur á skólanum. Það var sett í hann miðstöð og hann raflýstur. Meðan skólinn hafði engan styrk frá ríkinu nema rekstrarkostnað, var skólinn vanræktur hvað viðhald hússins snerti, og það var ekki fyrr en 1926, að veittar voru 3.000 kr. til aðgerðar á skólahúsinu. En af því að húsið hafði verið svo vanrækt, varð aðgerðin margfalt dýrari fyrir bragðið, og þó að nokkur upphæð hafi verið veitt síðan 1926, hefir hún aldrei verið nógu há, svo að ég hefi orðið að biðja þingið um styrk til sömu framkvæmdar ár eftir ár. Árið 1927 voru veittar 6.000 kr. til að setja miðstöð í skólann og raflýsa hann. Hv. þdm. hljóta að skilja, að þetta var ófullnægjandi, enda varð að veita 4.000 kr. árið eftir til þess að ljúka við það.

Nú er það lakasta, að það var ekki nema 1/3 kostnaðar, sem þingið veitti í fyrra, en þá var búizt við, að það mundi duga að mestu. Ég ásaka ekki þingið fyrir þetta. Þetta hefði nægt, ef kostnaðurinn hefði ekki farið svo voðalega fram úr áætlun.

Ég verð nú að halda, að þeir sömu hv. þm., sem samþ. fjárveitingar til annara skóla, og þær sumar ekki svo litlar, og hv. fjvn., sem vill veita tveimur skólum allálitlega upphæð, — öðrum 10 þús. kr. til leikfimishúss og hinum 9.000 kr. til vatnsveitu, — geti samþ. þessa fjárveitingu til Blönduósskólans. Hann er nú búinn að vera lengi starfandi, en hefir aldrei svo mikið sem fengið styrk til leikfimishúss. (IHB: Hvað má þá segja um skólann hér? Ég held sorglega sögu). Já, en ég er nú að bera hann saman við vanræktu börnin, sem hv. 3. landsk. var að tala um, og þó að kannske sé ekki hægt að kalla kvennaskólann barn lengur, hefir hann verið vanræktur fram á síðustu ár.

Ég er ekki hneigður fyrir að vera margmáll, þótt skemmtilegra efni sé um að ræða en þetta. Ég mun samt bæta við þetta, ef einhver hv. þm. mælir því í móti, að þetta gangi fram. Annars vona ég, að hv. þdm. sjái, að þetta er réttmætt. Stj. hefir eftirlit með skólanum, og mér finnst ekki annað hægt en að gera honum sem léttast fyrir að losa sig við þær skuldir, sem hann hefir komizt í við bætt fyrirkomulag, nefnilega að verða húsmæðraskóli úr kvennaskóla.

Ég get skýrt hv. d. frá því, að aðgerð er nú lokið við skólann að mestu eða öllu leyti. Þó er eftir að mála hann utan og má það ekki. dragast lengi, og verður því að fá styrk frá þinginu til þess.

Þá er brtt. XIII., við 16. gr., um styrk til að rannsaka til fullnustu og gera laxgengan farveg Blöndu undan Enni, 1/3 kostnaðar, allt að 2.000 kr.

Það er fyrst við þetta að athuga, að þessi 1/3 átti að vera 1/3, en hvort mér er um það að kenna eða prentsmiðjunni, skal ég láta ósagt.

Ég ætla að biðja hv. þdm. að setja það á sig í sambandi við þessa till., að í mínu kjördæmi er stórt fiskiræktarfélag, sem í eru 60–70 bæir. Það byrjaði á því síðastl. sumar að kaupa æðimikið af lax- og silungsseiðum og flytja þau í Blöndu og Svartá. Um Blöndu vita menn það, að fyrir löngu var þar mikill lax, en nú á síðustu árum hefir varla orðið vart við hann og enginn hefir reynt að veiða. Er því um kennt, að undan Enni sé þröskuldur, sem þarf að laga (ca. 2–3 km. frá sjó).

Það var farið fram á það við mig, að ég sækti um 3.000 kr., en ég tók þessa minni upphæð í von um, að hún nægði.

Ég skal geta þess, að það er þarna lítill foss í ánni og hún er straumhörð og vatnsmikil, að minnsta kosti á þeim tíma, sem lax myndi helzt ganga í hana.

Þetta mun vera ein af fyrstu tilraununum, sem gerð er hér á landi með fiskræktarfélög. Mun annað félag vera við Mývatn. Mér finnst þess vegna, að þingið ætti að styðja þessa veiðleitni svo sem hægt er, og þá verður það ekki gert á annan betri hátt en styrkja þessi félög úr ríkissjóði til kaupa á seiðum. Þau eru nokkuð dýr og áhætta að fást við þetta.

Ég vona að hv. d. láti mig ekki gjalda þess, að þetta eru ekki peningar, sem renna beint ofan í neinn einstakan mann. Mér finnst það fullt eins rétt fyrir það, að minnsta kosti ef maður er ekki því kunnugri þeim mönnum, sem sækja um styrk til þingsins.

Ég vil geta þess, að Pálmi Hannesson rektor menntaskólans, sem mér var falið að leita meðmæla til, er hlynntur þessu máli, eins og laxveiðafrv. hans sýnir. Hann hefir enga skriflega umsögn sent, en mælti með þessu við form. fjvn. og hefir hann sagt mér, að það hafi eiginlega verið óaðgæzla, að það hafi ekki verið tekið til greina þar.

Skal ég svo ekki þreyta hv. d. meira að sinni.