17.02.1930
Efri deild: 27. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

86. mál, kosningar til Alþingis

Jón Jónsson:

Mig langar til að gera dálitla fyrirspurn til hv. n. um samningu kjörskránna. Sé ég ekki, að í þessum till. felist annað en það, að kjörskrár skulu koma í gildi 10. júní í stað 1. júlí. Nú vil ég spyrja hv. n., hvort eigi að taka á aðalkjörskrá þá menn, sem öðlast kosningarrétt á tímabilinu frá 10. júní til 1. júlí. Eða eiga þeir ekki að vera á aðalkjörskrá, eins og venja er til? Ég sé ekkert ákvæði um þetta. Mér skilst, að kjörskrár eigi að semja eins og venjulega, nefnilega að taka á þær alla þá, sem fullnægja skilyrðunum 1. júlí. Að þetta sé rétt, má sjá á því, sem segir í 10. gr. kosningalaganna. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á kjörskrá skal taka alla þá, sem heimili eiga í hreppnum eða kaupstaðnum og kosningarrétt hafa í kjördæminu, þá er kjörskrá er samin, eða fullnægja skilyrðum fyrir því að geta neytt kosningarréttar fyrir 1. júlí næst á eftir.

Hinsvegar segir í 1. gr. kosningalaganna, að allir hafi kosningarrétt (sbr. og 58. gr.), sem hafi náð ákveðnum aldri og öðlazt skilyrðin þegar kosning fer fram. Þetta er auðsjáanlega í mótsögn hvað við annað. Vildi ég óska, að hv. frsm. vildi skýra þetta. Mér finnst þurfa að setja ákvæði um það, hvenær þessir menn öðlist kosningarrétt.