17.02.1930
Efri deild: 27. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

86. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Út af fyrirspurn hv. 6. landsk. skal ég taka það fram, að ég get ekki séð, að þessar breyt. ríði í bága við kosningalögin. Höfuðbreyt. er í því fólgin, að kjörskráin gengur í gildi 10. júní í stað 1. júlí, og gildir svo til 1. júlí rúmu ári eftir, eða til 1. júlí 1931. Þeir, sem ekki fullnægja skilyrðunum 10. júní, koma þá á aukakjörskrá. Breyt. er þá í rauninni ekki önnur en sú, að ef þetta verður að lögum, hverfa þeir menn af aðalkjörskrá, sem myndu eiga að skrifast þar eftir gildandi lögum og öðluðust réttindin á tímabilinu frá 10. júní til 1. júlí, og verða settir á aukakjörskrá.

Ég vona, að ég hafi nú skýrt þetta nægilega fyrir hv. 6. landsk., en ef svo er ekki, hlýtur það að vera vegna þess, að mér hefir ekki tekizt að koma nógu ljósum orðum að því, er ég vildi sagt hafa. En málið er í sjálfu sér svo einfalt, að það skýrir sig sjálft við frekari athugun.