09.04.1930
Efri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

1. mál, fjárlög 1931

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég hefi flutt á þskj. 454 2 brtt.; aðra um það, að lögreglustjórum, sýslumönnum og bæjarfógetum verði ætlaður fastur styrkur til utanferða, eins og í nokkur ár hefir verið ætlaður til lækna og kennara. Ennfremur, að samskonar fjárhæð verði sett inn vegna presta.

Ég þykist vita, að sérstaklega prestunum þyki þetta heldur lítið. En mér finnst samt sem áður, að þó að það gæti ekki nema einn prestur farið út á ári, þá sé það betra en ekki neitt. Og alveg sama gegnir um lögreglustjóra, sýslumenn og bæjarfógeta. Auðvitað nær þessi styrkur miklu betur til þeirra, þar sem þeir eru um 20, en prestarnir um 100. En þetta er skoðað sem byrjun. Það, sem er hliðstætt, er styrkur til lækna. Undanfarið hefir hann jafnan verið notaður af tveimur mönnum, ca. 1.500 kr. á mann. Ennfremur hefir staðið í fjárl. utanfararstyrkur til barnakennara, 3.000 kr. og veitt 3 í einu. Á hverju ári eru 20–30 umsóknir um þennan styrk. Það er ósennilegt, að það sé ekki eins nauðsynlegt fyrir sýslumenn eins og lækna að létta sér upp. Og ég hygg þess vegna, að hv. d. muni sannfærast um, að báðar þessar uppástungur séu réttmætar í eðli sínu, og það sé mjög stillt í hóf um kostnað. Geri ég ráð fyrir, þótt ekki sé tekið fram í till., að þessi styrkur sé ekki nema handa einum á ári. A. m. k. hefir kirkjumálan. lagt áherzlu á það í sambandi við frv., sem flutt var í Nd., að ef veittar væru 4 þús. kr., þá yrði það handa tveimur, en ef ekki nema 2 þús., tæki varla að skipta þeim.

Ég tel mig ekki þurfa að rökstyðja þetta mál frekar, en fel það hv. d.