27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

86. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Magnús Torfason):

Það er rétt hjá hv. 1. þm. Skagf., að n. er yfirleitt ákveðin í því að hafa ekki kjördag fyrr en 14. júní, og það sakir þess, að henni þótti ekki ástæða til að flytja kjördaginn lengra fram en þurfti, enda fresturinn fullstuttur frá því er þingi væri slitið. Um hitt atriðið, hvort betra væri að hafa kjördag á laugard. eða sunnud., má náttúrlega deila, en ég fyrir mitt leyti hefi ekkert á móti sunnudeginum, sem mér skilst, að hæstv. forsrh. sé jafnvel að hugsa um. Ég sé ekki ástæðu til að binda hendur stj. í þessu efni, því að ég treysti henni vel til að gera hið rétta og vita um þýðingu helgidagsins, einkum þar sem hæstv. forsrh. var fyrrum prestur á Hesti. Systurdeild okkar hefir ákveðið að fela stj. að ákveða daginn, og ég fæ ekki séð, hvers vegna við skulum ekki sýna henni hið sama traust.