09.04.1930
Efri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. (Páll Hermannsson):

Ég á 2 brtt. á þskj. 454. Önnur till. er við 12. gr., 16. lið B., um það, að Hróarstungulæknishéraði verði veittur sérstakur styrkur í kostnað við að reisa læknisbústað með sjúkrastofum, að upphæð 5 þús. kr. Á síðasta þingi flutti ég samskonar till., aðeins um hærri upphæð, 8 þús. kr. Gerði ég grein fyrir þá, hvernig á till. stæði, en af því að ég tel víst, að það sé gleymt, má ég til að rifja upp dálítið aftur.

Þannig stendur á, að í þessu læknishéraði hefir verið reistur læknisbústaður með sjúkrastofum, sem kostar 50 þús. kr. Margra ára reynsla hefir sýnt það, að ómögulegt var að komast hjá þessum framkvæmdum. Læknar fengust ekki í héraðið nema endrum og eins. Og það var eins oft, að héraðið var talið læknislaust, og var talið fyrst og fremst stafa af því, að það var enginn viðunanlegur bústaður fyrir lækninn. Í þessu læknishéraði eru 5½ hreppur, 4½ í Fljótsdalshéraði, en auk þess Borgarfjarðarhreppur, en þar eru vegir mjög erfiðir. Í læknishéraðinu eru nálega 1.200 íbúar, eftir síðustu skýrslum. Í Borgarfjarðarhreppi eru 300 íbúar.

Nú vita þeir, sem þarna eru kunnugir, að læknir búsettur á Hjaltastað er vel settur fyrir þá hreppa héraðsins, sem liggja í Fljótsdalshéraði. En um Borgarfjarðarhrepp hagar svo til, að hvergi er vel settur læknir fyrir hann, nema í hreppnum sjálfum. Það hefir verið nokkur togstreita um það, hvar læknirinn skuli settur, en með hliðsjón af læknishéraðinu í heild varð síðast ofan á, að hann yrði settur þarna á Hjaltastað. Þegar svo byggt var yfir lækninn, þverskallaðist Borgarfjarðarhreppur að leggja nokkurt fé í bygginguna. Er skemmst af að segja, að þessa byrði, sem allt læknishéraðið átti að bera, bera nú aðeins röskir 2/3 hlutar af íbúum þess. Lög eru engin til, sem gera það kleift að þvinga minni hl. til að vera með þegar svona stendur á. Það var gerð tilraun, að ég ætla á þinginu 1928, til þess að setja lög um þetta efni, en það mistókst. Mun það hafa gengið gegnum Nd., en einhverjir agnúar þótt á því hér í hv. deild.

Nú er ég sannfærður um, að enda þótt sett verði lög um þetta efni, sem gerðu kleift að skylda alla, sem hlut eiga að máli, til að leggja fram kostnað við að byggja læknisbústaði,þá mundu þau lög tæplega geta haft áhrif á þetta tilfelli.

Það, sem ég fer fram á, er því það, að ríkið vildi hlaupa undir bagga með þeim fáu mönnum, sem bera þennan geysilega kostnað. Það er nálega 33 þús. kr., sem þessi hluti læknishéraðsins hefir orðið að leggja á sig. Brtt. fer fram á, að ríkissjóður leggi fram nálægt helmingi þeirrar upphæðar, sem Borgarfjarðarhreppi hefði borið að greiða, ef hann hefði verið skyldugur til þess að vera með. Er engu breytt frá brtt, þeirri, sem kom fram í fyrra, nema því, að þá var farið fram á 8.000 kr., en nú 5.000 kr.

Ég vænti þess að allir sjái, hver sanngirni mælir með brtt. Það er ekki réttlátt, að 2/3 hlutar fámenns læknishéraðs séu neyddir til þess að bera uppi gjöld, sem væru áreiðanlega fullþungbær öllu héraðinu. Ég þykist vita, að mönnum skilst, að það er alltaf erfitt jafn fámennum hluta af læknishéraði, 8–900 manns, að bera þennan gífurlega kostnað, auk alls annars, einkum þar sem sumir hrepparnir að minnsta kosti eru mjög fátækir.

Hin brtt. mín er á þskj. 454, II. 2. við 13. gr. B. XV. Nýr liður: Styrkur til Gunnars Jónssonar, vegna kostnaðar við byggingu fyrir gesti á Fossvöllum, 2.000 kr. Samskonar till. kom fram á þingi 1928 og var borin upp í Nd. af hv. 1. þm. N.-M. Munurinn aðeins sá, að þá var farið fram á 5.000 kr. til þess. að koma upp gistihúsi á Fossvöllum. Þeirri beiðni var ekki sinnt. Ég skal með leyfi hæstv. forseta lesa upp kafla úr ræðu hv. 1. þm. N.-M. um þetta atriði þá á þinginu; ég veit, að hann er þessu eins vel kunnugur og ég og hefir skýrt eins vel frá málavöxtum og ég gæti. Hann segir m. a.:

„Þessi bær er á krossgötum við fjölfarna vegi. Hann er við þjóðveginn frá Austfjörðum til Norðurlandsins og er undir Smjörvatnsheiði — þjóðvegurinn liggur þó ekki yfir hana —, sem er ein af lengstu og allra hæstu heiðum hér á landi og mjög illviðrasöm. Er mönnum því oft þörf á góðri aðhlynningu, er þeir koma af henni. Framhjá þessum bæ liggur líka vegur til Möðrudalsheiðar, ekki þó svo að skilja, að hann standi við heiðina, heldur liggur vegurinn frá og til heiðarinnar, fyrst eftir Jökuldalnum. Þarna er því vegur í 4 áttir, auk þess sem bærinn liggur við hina torfærustu heiði, sem áður er sagt. Þarna er líka símastöð, og sækir að henni stórt svæði, sem eykur umferðina að mun. Verða bæði langferðamenn og símanotendur, sem eru langt að komnir, að gista þarna; auk þess þurfa langferðamenn oft að fá fylgd og hesta. Bóndinn, sem nú er þarna, er úrræðagóður og hjálpsamur um að útvega hesta og fylgd og margvíslegan beina annan, sem með þarf“. Ennfremur segir hann: „Bóndinn á Fossvöllum er nú orðinn roskinn og er fátækur barnamaður, sem hefir alið upp fjölda barna. Telur hann sig ekki geta byggt upp vegna fátæktar og neyðist því til að leita burt“.

Ég get bætt við, að byggt hefir verið upp á þessum stað, síðan þetta var mælt á Alþingi. Svo er mál með vexti, að Jökuldalshreppur er eigandi jarðarinnar, og lagði hreppurinn að ég ætla nálægt 1.500 kr. í bygginguna, en bóndinn brauzt í að koma upp húsinu og lagði fram sem næst 5.500 kr. Var byggingunni hagað að nokkru leyti eftir þörfum heimilisins, en þó meira tillit tekið til gestanauðar. Hv. 1. þm. N.-M. fór fram á 5.000 kr. á þingi 1928, en hann hefir þá haft í huga, að reist yrði fullkomnara gistihús en um er nú að ræða. Ég fer nú fram á, að ríkissjóður leggi fram 2.000 kr. upp í þann kostnað, sem bóndinn hefir greitt. Mér er kunnugt um, að kostnaður sá, sem bóndinn hefir lagt út i, 5.500 kr., er honum algerlega um megn. Ég veit, að hv. þdm., sem þarna eru kunnugir, sjá það vel, að það er brýn nauðsyn á, að þarna sé hægt að veita umferðamönnum gistingu. Ég leyfi mér að fullyrða, að nú hefir verið byggt svo vel upp, að það kemur að miklu liði fyrir gesti, en skal þó viðurkenna, að þarna hefði þurft meira rúm til gistingar. Ég ætla, að þessi staður sé ef til vill annar fjölfarnasti staður á Fljótsdalshéraði, og er því sanngirniskrafa á þessum styrk, þegar Alþingi hefir hvort sem er gengið inn á þá braut að veita styrk til byggingar vegna umferðar. Þarf ekki að benda á, að allmörg dæmi eru til, að þetta hafi verið gert. Hér í grenndinni hefir allmikið fé verið veitt til byggingar á Kolviðarhóli, enda byggt veglega, og skal ég ekki telja það eftir. Þá hefir fé verið veitt til byggingar gistihúss á Ásólfsstöðum og í Fornahvammi. Nú eru í fjárlagafrv. upphæðir til þess að byggja úthýsi í Fornahvammi, gistihús í Bakkaseli og gistihús að Húsafelli. Þar sem gengið hefir verið inn á þessa braut — sem ég tel rétta —, þá verður að sýna jöfnuð og sanngirni; það, sem gert er fyrir suma, verður að gera víðar, þegar líkt stendur á. Nú stendur svo á, að akvegurinn, Hróarstunguvegur, sem er framhald Fagradalsbrautar, er kominn að Fossvöllum, og komast menn nú þangað í bifreiðum, en ekki lengra. Einmitt þetta ætla ég að auki mikið þörfina á því, að hægt sé að hýsa gesti og veita mönnum beina og annan þann greiða, er ferðamenn svo oft þurfa þarna á að halda.

Þá skal ég drepa á samskonar brtt. frá hv. 2. þm. S.-M. á þskj. 454, III., við 13. gr. B. XV., nýr liður: Styrkur til Sveins Jónssonar, vegna kostnaðar við gistihússbyggingu á Egilsstöðum. Á Egilsstöðum á Völlum ætla ég að sé langmest umferð á Austurlandi. Þar hagar svo til, að reist hefir verið stórt gistihús, sem rúmar að minnsta kosti 20 næturgesti, og get ég ímyndað mér, að það sé með rúmbeztu og myndarlegustu gistihúsum í sveit á Íslandi. Nú eru nálega 15 ár síðan húsið var reist. Það var reist án allrar hjálpar hins opinbera, annarar en þeirrar, að sýslunefndir Múlasýslu ábyrgðust 3.000 kr. lán, er tekið var til hússins, og má vera, að sýslurnar hafi greitt vexti af láninu einhver fyrstu árin; ennfremur mun hafa verið greitt síðar úr sýslusjóðum. 600 kr. Það var faðir núverandi ábúanda, Jón Bergsson á Egilsstöðum, sem reisti gistihúsið, en Sveinn á Egilsstöðum hefir rekið það í síðastliðin 10 ár og lagt fram mjög mikið fé til þess að fullgera það. Húsið er stórt, 14x20 al., tvílyft, með kjallara og risi, og er skiljanlegt, að fé hefir ekki verið fyrir hendi til þess að ganga strax frá því að öllu leyti. Síðan húsið var reist hefir Sveinn bóndi lagt í það nálægt 15 þús. kr., án þess að það sé þó enn fullgert. Mér skilst, að sama eigi að gilda um þá menn, sem þegar hafa neyðzt til að reisa hús vegna umferðar og gestanauðar, eins og um hina, er ætla að reisa hús. Sé rétt að reisa væntanleg gistihús, þá er jafnrétt að hlaupa undir með þeim, sem þegar hafa bundið sér skuldabagga af þessum ástæðum. Mér er fullkunnugt, að á Egilsstöðum hefir nýlega verið lagt í stórkostlegan byggingarkostnað, sem að minnsta kosti að sumu leyti stendur í sambandi við umferðina, þar sem þar hafa verið reist mjög dýr peningshús. Sést á fjárveitingunni í þessu frv. til peningshúsa í Fornahvammi, að það er talið nauðsynlegt, að góð peningshús fylgi gistihúsunum. Enda er nokkuð gerandi fyrir þreytta og svanga ferðahesta. Ég leyfi mér því að mæla hið bezta með þessari brtt hv. 2. þm. S.-M.

Þá skal ég minnast á aðra brtt. frá sama hv. þm. á þskj. 454, XII. 2., við 16. gr. 45. Brtt. fer fram á, að til laxastiga í Lagarfoss verði veitt 2/3 kostnaðar, sem á að vera 6600 kr., í stað 1/3 kostnaðar eða 3300 kr., sem stendur í frv. Ég leyfi mér að mæla sem allra bezt með þessari brtt.

Ég ætla, að þetta fyrirtæki sé nokkuð einstætt. Svo stendur á, að heppnist að fá lax í Lagarfljót og þverárnar, er það hagsmunamál fyrir stórt svæði og fjölda manna. En þannig hagar til, að þarna hefir lax aldrei gengið, og vafasamt, hvort tilraunin heppnast, þótt hún sé mjög arðvænleg, ef hún skyldi lánast. Ég lít svo á, að þar sem um svo dýra tilraun er að ræða, er getur gefið góðan arð, ef hún heppnast, en getur líka verið vafasöm, þá sé rétt og skylt að leggja fram meira að tiltölu en til samskonar framkvæmda, sem eru að vísu umfangsminni, en arður nokkurnveginn vís af. Menn skilja, að það getur verið óárennilegt að leggja út í mikinn kostnað, ef hagnaðurinn er vafasamur, heldur en ef vís ábati er í vændum. En ef vel fer, þá er um svo mikið hagsmunamál að ræða fyrir marga menn, að ég tel rétt, að ríkissjóður styrki það ríflega. En ég efa, að í þetta verði ráðizt, ef ríkissjóður leggur fram aðeins þriðjung kostnaðar.

Það hefir tiltölulega lítið verið ráðizt á till. fjvn.; umr. yfirleitt verið almenns efnis, svo að ástæðulaust er fyrir mig sem frsm. að minnast aftur á sérstakar till. Þessar brtt. eru margar þannig vaxnar, að um þær getur verið álitamál. Ég sé enga ástæðu til þess að þreyta hv. d. á því að endurtaka það, sem ég hefi áður sagt um þær og mun því leiða algerlega hjá mér ummæli annara hv. þdm. um till. n.

Alveg sama er að segja um brtt. einstakra þdm. á þskj. 454. Ég hefi enn sem komið er ekkert sérstakt að segja um þær fyrir hönd n., annað en það, sem ráða mætti af till. hennar í málum svipaðs eðlis. N. hefir ekki haft tækifæri til þess að taka afstöðu til þeirra; hún hefir ekki komið saman síðan mælt var fyrir þeim, sem þó þarf að hafa átt sér stað, áður en n. er bær um að taka afstöðu. Ég mun ef til vill minnast á einhverjar þeirra síðar, en leiði þær hjá mér að sinni.