27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (2293)

86. mál, kosningar til Alþingis

Sigurður Eggerz:

Ég vildi aðeins taka það fram, að ég skil ekki þetta kapp, sem lagt er á það að hafa kjördag á sunnudegi, í staðinn fyrir á laugardegi. Ég ætla ekki að bera hinar guðfræðilegu skoðanir fyrir mig í þessu efni, heldur vekja athygli á því, að mér virðist ekki rétt að draga úr sunnudeginum sem hvíldardegi, og fæ ekki séð, að við höfum nokkra ástæðu til að fara að apa eftir Þjóðverjum í því efni. Ég er á móti öllu því, sem miðar að því að draga úr sunnudeginum sem hvíldardegi, enda sé ég ekkert, sem mælir á móti laugardeginum.